Verklag Landspítala við móttöku og meðferð sjúklinga með brátt heilaslag

Landspítali tók 3. október 2017 upp nýtt verklag við móttöku og meðferð sjúklinga með brátt heilaslag.
Markmiðið er að bæta horfur sjúklinga með brátt blóðþurrðarslag sem koma til meðferðar á spítalann.

Langalgengasta orsök blóðþurrðarslags er skyndileg stífla í slagæð vegna blóðsega sem stöðvar eðlilegt blóðflæði til heila. Slík blóðflæðiskerðing veldur fljótt varanlegri skemmd í heila. Við slík veikindi er meðferð sem miðar að enduropnun slagæðarinnar eins fljótt og unnt er algjört lykilatriði. Meðferðin  felur í sér að blóðseginn er leystur upp eða fjarlægður til að koma aftur á eðlilegu blóðflæði. Slík meðferð minnkar varanlegan skaða og fötlun sjúklinga. Hægt er að veita slíka enduropnunarmeðferð með tvennu móti, annars vegar með gjöf segaleysandi lyfs í æð og hins vegar segabrottnámi með æðaþræðingu. Árangur beggja meðferða er mjög tímaháður, því fyrr sem meðferðin er veitt því minni skaði hlýst og betri verða horfur sjúklinganna.

Landspítali hefur veitt segaleysandi meðferð allt frá árinu 1999 en verklagið sem farið hefur verið eftir er frá árinu 2011 og er ekki lengur í takt við nýjustu kröfur. Það er stefna spítalans að þjónusta betur þennan hóp sjúklinga með því að bæta gæði segaleysandi meðferðar og innleiða fljótlega segabrottnámsmeðferð á spítalanum. 

Nýtt verklag hefur það að höfuðmarkmiði að stytta tímann frá upphafi blóðþurrðarslags að gjöf segaleysandi meðferðar frá því sem nú er. 
Verklaginu er einnig ætlað að leggja tryggan grunn að innleiðingu segabrottnámsmeðferðar á Landspítalanum. 

Nýja verklagið er gjörbreyting á núverandi verklagi frá árinu 2011. Í umsvifum nær það til utanspítalaþjónustu, bráðamóttöku, röntgen-, tauga- og gjörgæsludeildar spítalans. Það er unnið af þverfaglegum verkefnahóp (skipuðum einstaklingum úr mismunandi stéttum) frá öllum þessum deildum spítalans. Verklagið er mjög framsækið og felur í sér öll nýleg tilmæli amerísku hjarta- og slagsamtakanna (American Heart Association, American Stroke Association) um lykilþætti vandaðra vinnubragða við slíka móttöku og meðferð. Gæða- og öryggisprófun verklagsins fór fram sumarið 2017 með endurteknum æfingum innan Landspítala.

Með nýju verklagi stígur Landspítali stórt skref fram á við í þjónustu og meðferð við sjúklinga með brátt blóðþurrðarslag og ryður brautina fyrir stefnumáli spítalans að innleiða segabrottnámsmeðferð eins fljótt og unnt er.


(Útgefið: 3. október 2017)