Sjúklingaráðin tíu
Skoðaðu sjúklingaráðin tíu. Öryggi sjúklinga er okkur mikilvægt á Landspítala. Í því felst að sjúklingar og aðstandendur þeirra fái örugga þjónustu, í öruggu umhverfi, veitta af heilbrigðisstarfsfólki sem leggur sig fram um að nota nýjustu þekkingu innan heilbrigðisvísinda. |
Sem sjúklingur getur þú aukið öryggi þitt og þeirrar þjónustu sem þér er veitt á spítalanum með því að vera virkur og upplýstur af meðferðarteymi þínu. Upplýsingar um heilbrigði, sjúkdóma og meðferð geta verið flóknar og þér framandi. Til að skilja betur hvað er að gerast með heilsu þína er mikilvægt að þú spyrjir heilbrigðisstarfsfólk um greiningu og meðferð og til hvers sé ætlast af þér í því sambandi.
Til að vera virkur í meðferðarsambandi við lækninn, hjúkrunarfræðinginn eða annan heilbrigðisstarfsmanns þá er mikilvægt að þú...
- veitir heilbrigðisstarfsfólki réttar upplýsingar um heilsu þína og meðferð, t.d. varðandi þau lyf sem þú ert að taka inn
- spyrjir og sért viss um að þú hafir réttan skilning á ástandi þínu. Mikilvægt er að spyrja ef þú ert í vafa um að hafa réttan skilning á greiningu eða meðferð sem þér er veitt. Sem dæmi má nefna undirbúning fyrir rannsóknir, rétta inntöku lyfja eða áætlun um framtíðarmeðferð.
- þekkir lyfin þín. Mikilvægt er að sjúklingar fylgi leiðbeiningum varðandi lyfjatöku. Röng lyfjameðferð getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir heilsuna.
Samvinna sjúklings og aðstandenda hans annars vegar og heilbrigðisstarfsmanns hins vegar byggist á því að hvorir tveggju hafi sömu upplýsingar til að byggja ákvarðanir sínar á. Því meira sem þú veist um heilsu þína, því virkari verðurðu í meðferðinni. Því hvetur heilbrigðisstarfsfólk á Landspítala sjúklinga og aðstandendur að fara yfir sjúklingaráðin tíu og nýta þau ráð sem þar eru gefin í samskiptum sínum við heilbrigðisstarfsfólk spítalans.
Gangi þér og fjölskyldu þinni vel!