Flæðisvið

Á flæðisviði er fléttað saman ólíkri starfsemi þar sem rauði þráðurinn er flæði sjúklinga. Þar er móttaka bráðveikra og slasaðra, endurhæfing, þjónusta við aldraða sjúklinga, sjúklingahótel, lyfjaþjónusta og flæðisdeild. Meginhlutverk flæðisviðs er að tryggja samfellu í móttöku sjúklinga, meðferð þeirra og afdrifum með áherslu á öryggi og og skilvirkt flæði; auka lífsgæði og sjálfsbjörg með öflugri endurhæfingar- og öldrunarþjónustu og tryggja örugga og skilvirka lyfjaþjónustu í allri starfsemi spítalans.

Bráðaþjónusta er veitt í Fossvogi. Legu- og dagdeild endurhæfingar er staðsett á Grensási en sjúkraþjálfarar og iðjuþjálfar hafa starfsstöðvar í flestum húsum Landspítala. Öldrunarþjónustan er staðsett á Landakoti en einnig á bráðaöldrunarlækningadeild B4 í Fossvogi og hjúkrunardeild á Vífilsstöðum. Sjúklingahótel er í Ármúla 9 í Reykjavík. Það er rekið í samræmi við samkomulag Landspítala og Sjúkratrygging Íslands. Lyfjaþjónusta er veitt af sjúkrahúsapóteki Landspítala, sem hefur starfsstöðvar á Hringbraut og í Fossvogi. Flæðisdeild hefur yfirsýn yfir komur og útskriftir á spítalanum á hverjum tíma og er framkvæmdastjórn til ráðgjafar um þau úrræði sem beita þarf hverju sinni til að tryggja eðlilegt og nauðsynlegt flæði sjúklinga.
Menntun heilbrigðisstétta og vísindarannsóknir eru mikilvægir þættir í starfsemi háskólasjúkrahúss. Margar heilbrigðisstéttir og aðrar stéttir sækja hluta af menntun sinni á flæðisviði.
Framkvæmdastjóri flæðisviðs er Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir

Lyflækningasvið

Á lyflækningasviði er veitt almenn og sérhæfð læknis- og hjúkrunarþjónusta á sviði lyflækninga. Starfsemin er umfangsmikil og fjölbreytt og nær til sjúklinga með hjartasjúkdóma, gigtsjúkdóma, lungnasjúkdóma, húð- og kynsjúkdóma, innkirtla- og efnaskiptasjúkdóma, lungna- og ofnæmissjúkdóma, krabbameins og blóðsjúkdóma, meltingarsjúkdóma, nýrnasjúkdóma, smitsjúkdóma, taugasjúkdóma og allra almennra lyflæknisfræðilegra vandamála. Auk þess er starfrækt umfangsmikil líknarþjónusta með legudeild og heimaþjónustu ásamt öflugri líknarráðgjöf. Langflestir sjúklinganna leggjast inn brátt í gegnum bráðadeild G2 og Hjartagátt. Á sviðinu eru fjölmargar legudeildir og öflugar dag- og göngudeildir. Starfsemin er í Fossvogi, við Hringbraut og í Kópavogi.
Menntun heilbrigðisstétta og vísindarannsóknir eru mikilvægir þættir í starfsemi háskólasjúkrahúss. Margar heilbrigðisstéttir sækja hluta af menntun sinni á lyflækningasviði en nemendur í hjúkrunarfræði og læknisfræði eru þar fjölmennastir.
Framkvæmdastjóri lyflækningasviðs er Hlíf Steingrímsdóttir

Skurðlækningasvið

Á skurðlækningasviði er veitt almenn og sérhæfð meðferð á legu-, dag- og göngudeildum á sviði almennra skurðlækninga, augnlækninga, brjóstholsskurðlækninga, bæklunarskurðlækninga, heila- og taugaskurðlækninga, háls-, nef- og eyrnalækninga, lýtalækninga, þvagfæraskurðlækninga og æðaskurðlækninga. Á sviðinu er einnig umfangsmikil göngudeildarstarfsemi, bæði almenn móttaka fyrir og eftir skurðaðgerðir ásamt sérhæfðri þjónustu við sjúklinga. Þá annast sviðið rekstur á næringarstofu og ritunarmiðstöð. Starfsstöðvar skurðlækningasviðs eru í Fossvogi, á Hringbraut, við Eiríksgötu og í Kópavogi.

Menntun heilbrigðisstétta og vísindarannsóknir eru mikilvægir þættir í starfsemi háskólasjúkrahúss. Margar heilbrigðisstéttir sækja hluta af menntun sinni á skurðlækningasviði en nemendur í hjúkrunarfræði og læknisfræði eru þar fjölmennastir.
Framkvæmdastjóri skurðlækningasviðs er Lilja Stefánsdóttir

Kvenna- og barnasvið

Á kvenna- og barnasviði er öll þjónusta við konur í áhættumeðgöngu, fæðingu og sængurlegu. Sérhæfð þjónusta við konur með sérstaka áhættuþætti á meðgöngu er á sviðinu og unnið í nánu samstarfi við starfsfólk annarra sviða eins og við á. Rúmlega 70% fæðinga á Íslandi eru á kvenna- og barnasviði Landspítala. Sviðið sinnir einnig konum með almenna eða illkynja kvensjúkdóma á göngudeild, dagdeild og einu sérhæfðri legudeildinni fyrir kvensjúkdóma á landinu. Á Barnaspítalanum, barna- og unglingageðdeild við Dalbraut og í Rjóðrinu í Kópavogi er víðtæk og sérhæfð þjónusta við börn og unglinga að 18 ára aldri. Sérstök bráðamóttaka barna er starfrækt ásamt dagdeildum, mörgum sérhæfðum göngudeildum og legudeildum.
Menntun heilbrigðisstétta og vísindarannsóknir eru mikilvægir þættir í starfsemi háskólasjúkrahúss. Margar heilbrigðisstéttir sækja hluta eða alla menntun sinni á kvenna- og barnasviði, þar má nefna m.a. menntun allra ljósmæðranema á landinu, en nemendur í hjúkrunarfræði og læknisfræði eru þó fjölmennastir.


Framkvæmdastjóri kvenna- og barnasviðs er Linda Kristmundsdóttir

Geðsvið 

Á geðsviði fer fram meginstarfsemi sérhæfðrar geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi. Þar er klínísk sérfræðiþjónusta í almennum geðlækningum, fíknilækningum, geðrænni endurhæfingu, samfélagsgeðlækningum, réttargeðlækningum, geðhjúkrun, sálfræði, félagsráðgjöf og sálgæslu. Læknar, sálfræðingar, prestar og djáknar ásamt félagsráðgjöfum sinna umfangsmikilli ráðgjafaþjónustu fyrir aðrar deildir sjúkrahússins. Á sviðinu starfa fjölfagleg teymi sem veita sérhæfða þjónustu. s.s. átröskunarteymi, samfélagsgeðteymi og vettvangsgeðteymi. Starfsstöðvar geðsviðs eru við Hringbraut og á Kleppi auk þess sem litlar sérhæfðar einingar eru á nokkrum stöðum í borginni.

Menntun heilbrigðisstétta og vísindarannsóknir eru mikilvægir þættir í starfsemi háskólasjúkrahúss. Margar heilbrigðisstéttir sækja hluta af menntun sinni á geðsviði, en nemendur í hjúkrunarfræði og læknisfræði eru þar fjölmennastir.

Framkvæmdastjóri geðsviðs er María Einisdóttir

Aðgerðasvið

Á aðgerðasviði eru Blóðbankinn, dauðhreinsun, gjörgæsludeildir, skurðstofur, speglanastofur, svæfingadeildir og vöknun.
Blóðbankinn annast söfnun, vinnslu og afgreiðslu blóðhluta ásamt sérhæfðri ráðgjöf og verkefnum svo sem vefjaflokkunarþjónustu og stofnfrumuvinnslu. Blóðbankinn rekur einnig blóðbankaþjónustu á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Á aðgerðasviði er haldið utan um alla starfsemi sem tengist skurðstofum, speglunarþjónustu og gjörgæslu. Það rekur 20 skurðstofur í fjórum húsum (Fossvogur, Hringbraut, Kvennadeild, Eiríksgata). Í tengslum við skurðstofur eru reknar svæfingadeildir, vöknun og dauðhreinsun. Umfangsmikið birgðahald fylgir skurðstofu- og speglunarstarfsemi. 

Gjörgæsludeildir í Fossvogi og við Hringbraut sinna öllum sjúklingum, eldri en 3 mánaða, sem þarfnast gjörgæslumeðferðar, hvort heldur er vegna slysa, stórra skurðaðgerða eða alvarlegra veikinda.

Menntun heilbrigðisstétta og vísindarannsóknir eru mikilvægir þættir í starfsemi háskólasjúkrahúss. Margar heilbrigðisstéttir sækja hluta af menntun sinni á aðgerðasviði, en nemendur í hjúkrunarfræði og læknisfræði eru þar fjölmennastir.

Framkvæmdastjóri aðgerðasviðs er
Alma D. Möller

Rannsóknarsvið

Á rannsóknarsviði eru átta sérgreinar lækningarannsókna. Þær eru blóðmeinafræði, erfða- og sameindalæknisfræði, klínísk lífefnafræði, líffærameinafræði, röntgendeild, ónæmisfræði, sýklafræði og veirufræði. Meginhlutverk sviðsins er að sinna almennum og sérhæfðum þjónusturannsóknum á Landspítala, öðrum heilbrigðisstofnunum og læknastofum . Á sviðinu starfa lífeindafræðingar, geislafræðingar, læknar, náttúrufræðingar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, ritarar og aðrir starfsmenn. 

Menntun heilbrigðisstétta og vísindarannsóknir eru mikilvægir þættir í starfsemi háskólasjúkrahúss. Margar heilbrigðisstéttir sækja hluta af menntun sinni á rannsóknarsviði, en nemendur í læknisfræði, geislafræði og lífeindafræði eru þar fjölmennastir.

Á heilbrigðis- og upplýsingatæknideild (HUT) er umsjón með rekstri og viðhaldi á öllum lækninga- og rannsóknatækjum sem og rekstur net- og flestallra tölvukerfa Landspítala.

Framkvæmdastjóri rannsóknarsviðs er Jón Hilmar Friðriksson (tímabundið til 31. maí 2017)