Föstudagspistill 23. október 2009
Ágætu samstarfsmenn!
Bestu þakkir fyrir frábæra framgöngu í flensufaraldrinum. Hlutverk spítalans í meðferð þeirra veikustu kemur berlega í ljós þessa dagana sem og hæfni okkar fólks til þess að sinna því flókna hlutverki.
Eins og ég sagði frá í síðustu viku er framkvæmdastjórn að vinna hörðum höndum að því að gera áætlun um rekstur spítalans miðað við þau fjárlög sem liggja fyrir. Áður en ég segi frá þeirri vinnu vil ég undirstrika að í þessari vinnu er hugað að því hvert verkefni spítalans er í heild en ekki hvernig áhrifin verða á mismunandi stéttir. Aðgerðir þessa og næsta árs koma niður á öllum stéttum. Við reynum að hafa þetta ferli eins opið og gagnsætt og hægt er þannig að starfsmenn sjái hvernig að þessu er staðið.
Fyrsta skoðun okkar á fjárhagsáætlun næsta árs sýnir að þær aðgerðir sem við hófum nú í september síðastliðinn munu skila okkur rúmlega 1,5 milljarði í sparnaði. Frekari breytingar í þjónustu og samdráttur, m.a. í sumarafleysingum, yfirvinnu, lokun ákveðinna deilda og breytingar á störfum munu skila okkur nálægt 1,7 milljarði til viðbótar. Við höldum að þetta muni leiða til fækkunar sem nemur 170 - 200 störfum en vonum að ekki þurfi að segja upp öllum þessum fjölda. Með því að nýta okkur starfsmannaveltu spítalans ættu beinar uppsagnir að verða færri, eða á bilinu 70-100. Vinna við útfærslu á þessum tillögum stendur enn. Ég segi ykkur frekar af því þegar þeirri vinnu lýkur á næstu vikum. Látið endilega í ykkur heyra.
Baráttukveðjur
Björn
bjornz@landspitali.is
Föstudagspistlar forstjóra