Sálgæsla og trúarlíf

Sjúkrahúsprestar og djákni á Landspítala skipta með sér verkefnum á dagvinnutíma og sinna hver sínum deildum. Sinnt er andlegri og trúarlegri þjónustu við sjúklinga, aðstandendur þeirra og starfsfólk. Sálgæsluvinnu ber þar hæst, auk helgihalds, bænastunda, fræðslu og stuðningsviðtala við sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk. Á spítalanum eru sex kapellur, tvær í Fossvogi, ein við Hringbraut, ein á Landakoti, ein á Kleppi og ein á líknardeildinni í Kópavogi.

Sjúkrahúsprestar/djákni ganga vaktir þannig að hægt er að ná í sjúkrahúsprest/djákna á hvaða tíma sólarhringsins sem er allt árið um kring. Þurfi að hafa samband við prest/djákna ber að snúa sér til hjúkrunarfræðings á deildinni sem hefur milligöngu um að koma á sambandi eða hringja í símaþjónustu Landspítala s. 543 1000. Hjúkrunarfræðingurinn hefur samband við sjúkrahúsprest/djákna.

Markmið sálgæslunnar er að liðsinna þeim sem glíma við sárar tilfinningar og erfiðar tilvistarspurningar tengdar veikindum og alvarlegum áföllum. Þessi þjónusta stendur öllum opin, jafnt sjúklingum sem aðstandendum og starfsfólki spítalans, án tillits til lífsskoðana eða trúarafstöðu.

Úr bæklingi um sálgæslu presta og djákna (pdf)
Missir.is
Í þessu gagnasafni eru skrár yfir bækur og tímaritsgreinar um missi af öllu tagi, sjúkdóma, slys, dauða og ýmis konar áföll, m.a. vegna atvinnumissis, kreppuástands og þess hvernig aðrir hafa unnið úr þungbærri reynslu. Hægt er að leita eftir nafni höfunda, sérstökum efnisorðum sem skýra innihald bókar eða tímaritagreinar en einnig eftir einstökum orðum eða setningum. Efnið er allt á íslensku og aðgengilegt í almenningsbókasöfnum. Einnig er þar að finna skrá yfir samtök sjúkra og ýmsar stofnanir sem tengjast markmiðum gagnasafnsins. 

Andlát

 

Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar, þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá, þú ert þar. Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf, einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér.

Og þótt ég segði: "Myrkrið hylji mig og ljósið í kringum mig verði nótt, "Þá myndi þó myrkrið eigi verða þér of myrkt og nóttin lýsa eins og dagur, myrkur og ljós eru jöfn fyrir þér.

Davíðssálmur 139