Stofugangur

Stofugangur á Landspítala
Stofugangur er það kallað þegar meðferðarteymi sjúklings hittist og fer yfir stöðuna á meðferðaráætlun. Þá eru teknar ákvarðanir um frekari rannsóknir, aðgerðir, lyfjagjafir, þjálfun, útskrift o.fl. Teymið fer yfir það sem gerst hefur síðasta sólarhring og tekur ákvarðanir um framhaldið byggt á því. Eftir svonefndan flettifund þar sem teymið ræðir saman er gengið til sjúklinga og málin rædd við þá. Gefst þá tækifæri til að spyrja um það sem brennur á, koma nýjum upplýsingum um líðan á framfæri og vera með í þeim ákvörðunum sem taka þarf. 

Stofugangur er mismunandi eftir deildum. Sums staðar er gengið beint til sjúklinga en annars staðar er flettifundur á undan. Því er misjafnt hvenær dagsins stofugangur er en að öllu jöfnu er hann einhvern tíma á bilinu 8:30-11:00. Sjúklingar eru eindregið hvattir til að spyrja að öllu því sem á þeim hvílir. Ef þeir liggja á fjölbýli og þykir óþægilegt að ræða sín mál að öðrum áheyrandi má alltaf óska eftir einkasamtali. Aðstandendum er velkomið að bera fram spurningar á stofugangi, þeir geta einnig óskað eftir fjölskyldufundi með meðferðaraðilum. 

Í lögum um réttindi sjúklinga er skýrt kveðið á um að þeir eigi rétt á upplýsingum um:   
 a. heilsufar, þar á meðal læknisfræðilegar upplýsingar um ástand og batahorfur,
 b. fyrirhugaða meðferð ásamt upplýsingum um framgang hennar, áhættu og gagnsemi,
 c. önnur hugsanleg úrræði en fyrirhugaða meðferð og afleiðingar þess ef ekkert verður aðhafst,
 d. möguleika á að leita álits annars læknis eða annarra heilbrigðisstarfsmanna eftir því sem við á um meðferð, ástand og batahorfur. 

Sjúklingum er eindregið ráðlagt að kynna sér sjúklingaráðin 10 og hafa til hliðsjónar á stofugangi.