Eitur í lofti
Eitranir vegna eitraðra lofttegunda eru talsvert algengar.
Þær eru mjög lúmskar og stundum getur verið erfitt að átta sig á að um eitur í lofti er að ræða.
Sterk vísbending um að svo sé er ef fleiri en einn eða margir á sama svæði eru með sömu einkenni.
Kolmónoxíð
Kolmónoxíð er eitruð lofttegund sem er lyktarlaus og myndast við ófullkominn bruna eldsneytis, til dæmis frá:
- Bílum
- Öðrum ökutækjum
- Hitatækjum
- Grillum o.fl.
Mjög mikilvægt er að nota ekki gaskyndingu innanhúss nema það sé tryggt að gott útblásturskerfi sé til staðar.
Annars má alls ekki sofa með slík tæki eða nota þau lengi í lokuðu herbergi eða í tjaldi.
Fyrstu einkenni
Fyrstu einkenni eitrunar líkjast flensu og eru til dæmis:
- Höfuðverkur
- Ógleði
- Uppköst
- Máttleysi
- Drungi
- Yfirlið
- Einbeitingarerfiðleikar.
Ef ekkert er að gert leiðir eitrunin til dauða.
Ef margir eru samankomnir, t.d. heil fjölskylda í sumarbústað, tjaldi eða annars staðar þar sem notuð er gaskynding og allir hafa ofangreind einkenni er mjög líklegt að um kolmónoxíð eitrun sé að ræða.