Leit
Loka


Hjartaendurhæfing - fræðsluefni

Markmið hjartaendurhæfingar Landspítala er að sjúklingar sem hafa greinst með hjartasjúkdóm, undirgengist inngrip tengt hjarta eða glíma við afleiðingar hjartaveikinda nái eins góðri líkamlegri, félagslegri og andlegri heilsu og framast er unnt. Hægt er að hindra þróun sjúkdómsins, vinna gegn hamlandi áhrifum hans og draga úr hættu á endurteknum áföllum með því að hafa áhrif á áhættuþætti.

Kransæðasjúkdómur er langvinnur sjúkdómur sem tilheyrir flokki hjarta- og æðasjúkdóma. Á þessari síðu er fræðsla fyrir fólk sem greinst hefur með kransæðasjúkdóm. Rannsóknir benda til að stjórn á áhættuþáttum geti hægt á þróun hjarta- og æðasjúkdóma. Í hjartaendurhæfingu felst að taka á þeim líkamlegu og andlegu þáttum (áhættuþáttum) sem hafa áhrif á þróun og framgang hjarta- og æðasjúkdóma.

Áhættuþættir kransæðasjúkdóms eru vel skilgreindir og er skipt í tvo flokka:

  • Óbreytanlegir - ekki er hægt að hafa áhrif á þá
    - Aldur
    - Kyn
    - Erfðir/ættarsaga
  • Breytanlegir - hægt er að hafa áhrif á þá með breytingum á lífstíl og venjum
    - Reykingar
    - Hátt kólesteról í blóði (blóðfitur)
    - Hækkaður blóðþrýstingur
    - Hækkaður blóðsykur
    - Hreyfingarleysi
    - Mataræði og áfengisneysla
    - Streita og andleg vanlíðan

Á þessari fræðslusíðu er lögð áhersla á lífstílsþætti sem hafa áhrif á breytanlega áhættuþætti
Mikilvægt er að hafa í huga að þrátt fyrir að vera með óbreytanlega áhættuþætti skiptir máli að stunda heilbrigðan lífstíl og hafa þannig áhrif á breytanlegu áhættuþættina.

Nokkrir mikilvægir punktar:

  • Því fleiri þættir, því meiri áhætta: Jákvæð breyting á aðeins einum áhættuþætti felur í sér ávinning í heild fyrir heilsuna.
  • Litlar breytingar: Mælt er með litlum breytingum á lífsstíl hverju sinni til að auka líkur á að þær verði varanlegar og leiði af sér heilsubót til langs tíma.
  • Raunhæf markmið: Mikilvægt er að setja sér markmið sem þú veist að þú getur mögulega náð.
  • Lyfjataka: Lyfjameðferð við kransæðasjúkdómi er ævilöng og getur það haft alvarlegar afleiðingar að hætta lyfjatöku án samráðs við lækni.

Reykingar er einn af stærstu áhættuþáttum kransæðasjúkdóms. Að hætta að reykja er mikilvægasta lífsstílsbreytingin til að draga úr áhættu á þróun og versnun kransæðasjúkdóms. Skaðsemi reykinga helst í hendur við magnið sem er reykt og óbeinar reykingar hafa einnig skaðleg áhrif. Því skiptir máli að maki hætti líka að reykja. Reykingar hraða myndun æðaskellna í kransæðum, hafa áhrif á starfsemi æðaveggja, blóðflagna og bólguviðbrögð. Nikótín dregur saman æðar í líkamanum og minna blóðflæði kemst þannig um kransæðar sem getur valdið brjóstverk.

Það er aldrei of seint að hætta að reykja.

Þegar hætt er að reykja er gott að ákveða dagsetningu fyrir reykleysi.

Lyfjameðferð til að hætta að reykja:

Margar tegundir af nikotínlyfjum eru á markaði s.s. tyggjó, plástrar, töflur, innsogslyf. Hægt er að fá ýmis nikotínlyf án lyfseðils í apóteki. auk þess sem hægt er að fá önnur lyf við nikotínfíkn gegn lyfseðli.

Hægt að fá fræðslu um reykingar og ráðgjöf í reykbindini á vef reyklaus.is  eða í síma 800 6030

Rannsóknir gefa til kynna að mataræði sem er ríkt af grænmeti, ávöxtum, hnetum, heilkorna afurðum, trefjum og feitum fisk dragi úr þróun kransæðasjúkdóms.

Embætti landlæknis gefur út upplýsingarit um mataræði sem veitir ýmsar nánari upplýsingar.

Hér er einnig fyrirlestur frá næringarfræðingum á Landspítala um Mataræði – hjartað í fyrirrúmi

Að auki er hér fræðslubæklingurinn Sykursýki af tegund 2 - ráðleggingar um mataræði fyrir þá sem  hafa greinst með sykursýki tegund 2.

Næringarráðgjafar veita ráðleggingar og leiðbeiningar um mataræði. Ef áhugi er á að fá einstaklingsviðtal hjá næringarráðgjafa er best að ræða það við heilbrigðisstarfsfólk sem annast sjúklinginn á spítalanum eða hjá heilsugæslunni.

Hreyfing eykur afkastagetu hjartans, upptöku súrefnis úr blóðinu og almennt úthald. Við þjálfun styrkist hjartavöðvinn og aðrir vöðvar fara að nýta súrefni betur. Þannig dregur úr álagi á hjartað. Auk þess stuðlar hún að betri líðan og dregur úr streitu. Aldrei er of seint að byrja og allt er betra en ekkert. Það hversu mikið fólk ætti að hreyfa sig eða hver viðeigandi hreyfing er fer alltaf eftir líkamlegu ástandi og undirliggjandi sjúkdómum. Ráðlagt er að fólk með undirliggjandi hjarta- og æðasjúkdóma fái leiðbeiningar frá fagfólki og hreyfi sig og þjálfi jafnvel undir eftirliti.

  • Sjúkraþjálfarar veita fræðslu um almenna hreyfingu og möguleg úrræði um þjálfun.
  • Ráðlagt er að sinna þjálfun á eigin vegum samkvæmt ráðleggingum sjúkraþjálfara og er nauðsynlegt að sinna því markvisst til að ná sem bestum árangri.
  • Einnig er ráðlagt að sækja sértæka þjálfun fyrir hjartasjúklinga undir handleiðslu sjúkraþjálfara. Nánari upplýsingar um þjálfun fyrir hjartasjúklinga má finna í bæklingnum Hjartaendurhæfing.

Sjá nánar glærur: Áhrif þjálfunar - Sjúkraþjálfarar hjartaeiningar Landspítala

 

Streita og erfiðar tilfinningar eins og kvíði og alvarlegt þunglyndi hafa áhrif á andlega líðan og eru áhættuþættir fyrir kransæðasjúkdómi. Með því að bæta andlega líðan aukast lífsgæði. Hér eru ýmsar upplýsingar um andlega líðan, hvað er eðlilegt og hvenær er tímabært að leita sér aðstoðar. Í kaflanum um ítarefni er að finna þrjú myndbönd um aðlögun eftir hjartaveikindi. Sjá Fræðslufyrirlestrar um aðlögun eftir hjartaveikindi.

 

Streita

Streita er líkamleg, tilfinningaleg og hegðunar- viðbrögð við ögrandi eða ógnandi atburðum. Streituviðbrögð eru undirbúningur hugar og líkama undir átök og aðlögun að breyttum aðstæðum. Streita er hluti af daglegu lífi og getur stundum verið nauðsynleg. Hins vegar er varanlegt streituástand varhugavert fyrir líkamann og getur skapað mikil vandamál, jafnvel þó streitan sé ekki endilega mjög mikil.

Dæmi um neikvæð áhrif streitu:

  • Svefnleysi
  • Þunglyndi/andleg vanlíðan
  • Veikara ónæmiskerfi
  • Hærri blóðsykur og blóðþrýstingur
  • Hraðari hjartsláttur
  • Vöðvaspenna
  • Magaverkir/bakflæði/lystarleysi

Ýmislegt er hægt að gera til að draga úr streitu í daglegu lífi. Til dæmis er hægt að kynna sér og taka upp streitulosandi aðferðir s.s. að stunda líkamsrækt og slökun.

Mikilvægt er að þú;

  • þekkir helstu streituvalda í lífi þínu
  • þekkir eigin streitueinkenni
  • vitir hverju þú þarft að breyta hjá þér og í þínu umhverfi til að minnka streitu
  • náir tökum á slökun að einhverju marki

Hér eru hlekkir á síður þar sem hægt er að finna ýmsar gagnlegar æfingar:

Hér að neðan eru upplýsingar um andlega líðan við alvarlegum veikindum og neðst á síðunni má nálgast ítarlega fræðslufyrirlestra sem eru öllum opnir.

Einnig má nálgast upplýsingar í eftirfarandi fræðslubæklingi: Sálræn viðbrögð við alvarlegum veikindum

 

Streita er líkamleg, tilfinningaleg og hegðunar viðbrögð sem eiga sér stað þegar við upplifum atburði sem ögrandi eða ógnandi. Streituviðbrögð eru undirbúningur hugar og líkama undir átök og aðlögun að breyttum aðstæðum. Öll þekkjum við streitu, hún er hluti af daglegu lífi og getur jafnvel verið nauðsynleg stundum. Hins vegar er varanlegt streituástand varhugavert ástand fyrir líkamann og það getur skapað mikil vandamál, jafnvel þó streitan sé ekki endilega mjög mikil.

Dæmi um neikvæð áhrif streitu:

  • Höfuðverkur
  • Svefnleysi
  • Þunglyndi/andleg vanlíðan
  • Veikara ónæmiskerfi
  • Hærri blóðsykur og blóðþrýstingur
  • Hraðari hjartsláttur
  • Vöðvaspenna
  • Magaverkir/bakflæði/lystarleysi

Það er ýmislegt sem einstaklingur getur sjálf/ur gert til að draga úr streitu í daglegu lífi. Til dæmis er hægt að kynna sér og taka upp streitulosandi aðferðir s.s. að stunda líkamsrækt og slökun.

Mikilvægt er að þú;

  • þekkir helstu streituvalda í lífi þínu
  • þekkir eigin streitueinkenni
  • Vitir hverju þú þurfir að breyta hjá þér og í þínu umhverfi til að minnka streitu
  • náir tökum á slökun að einhverju marki

Ýmsir aðilar hafa gefið út efni sem hjálpar fólki að ná tökum á streitu hér eru hlekkir á síður þar sem hægt er að finna ýmsar æfingar:


Alvarlegum líkamlegum veikindum geta fylgt erfiðar tilfinningar eins og allri annarri þungbærri reynslu. Þessi andlega vanlíðan getur komið okkur í opna skjöldu og við vitum jafnvel ekki hvernig best er að bregast við henni. Sumir reyna að bera sig vel og harka af sér. Hér eru fáein atriði um erfiðar tilfinningar sem gott er að hafa í huga.

Eðlilegt að verða döpur og hrygg við greiningu á alvarlegum hjartasjúkdóm. Þessar tilfinningar geta jafnvel vaknað nokkrum mánuðum eftir útskrift. Sumir finna til kvíða, ótta, og depurðar í þessum aðstæðum, einkum ef við upplifum að við séum í lífsháska. Við getum líka átt von á því að finna til gremju eða reiði vegna þess að okkur getur fundist óréttlátt að verða alvarlega veik. Verkir og þreyta geta haft áhrif á getu til að rækja skyldur okkar gagnvart fjölskyldu og starfi. Allt í senn getur þetta magnað upp andlega vanlíðan.

Hafa ber í huga að sorg og eðlileg depurð í kjölfar veikinda jafngildir ekki þunglyndi. Talað er um þunglyndi þegar depurð hefur þau áhrif að við verðum vanvirk og að því er virðist áhugalaus. Við drögum okkur gjarnan í hlé, forðumst félagsskap, tökum lítinn þátt í því sem gerist í kringum okkur, hreyfum okkur minna o.s.frv.

Oft leiðir depurð til þess að sinnum síður andlegri og líkamlegri heilsu og því minnkar úthald okkar, þreyta vex og svefntruflanir eru tíðar. Hjá sumum vaknar sjálfsásökun og sektarkennd um að vera ekki að gera nóg. Sjálfstraustið minnkar og við finnum til uppgjafar og vonleysis. Við þessar aðstæður er mikilvægt að halda því ekki leyndu þegar þunglyndi nær tökum á okkur heldur ræða líðan og óska aðstoðar.


Það er eðlilegt að upplifa truflanir á svefni en góður nætursvefn er mikilvægur fyrir andlega og líkamlega heilsu.

Hér fyrir neðan er að finna ráð um betri svefn:


Hér að neðan má finna þrjá fyrirlestra sem Erla Svansdóttir sálfræðingur á hjartadeildum Landspítala hefur útbúið.

Markmið þessara fræðslufyrirlestra er að veita fólki sem hefur nýlega greinst með hjartasjúkdóm, undirgengist hjartaþræðingu eða bjargráðsísetningu eða glímir við afleiðingar hjartaveikinda, fræðslu um andlega líðan og stuðning eftir útskrift.

Fyrirlestrunum er skipt upp í þrjú aðskilin erindi en saman mynda þau eina heild. Nánari upplýsingar um hvern fyrirlestur fyrir sig er að finna hér að neðan.

Hjartasjúkdómar og andleg líðan

Fyrsti fræðslufyrirlesturinn veitir upplýsingar um það álag sem getur fylgt greiningu á hjartasjúkdómum, áhrif sálrænna þátta á þróun þeirra og sterkar tilfinningar sem geta komið upp eftir hjartaveikindi. 

Sjá fyrirlesturinn um hjartasjúkdóma og andlega líðan hér >

Streituvekjandi áhrif veikinda

Annar fræðslufyrirlesturinn fjallar um eðli streitu, tengsl hennar við líffræðilega virkni og líðan og hvernig veikindi og innlögn á sjúkrahús getur verið streituvekjandi.

Sjá fyrirlesturinn um streituvekjandi áhrif veikinda hér >

Aðlögun að hjartasjúkdómum

Í þriðja fræðslufyrirlestrinum er rætt um aðlögun að hjartasjúkdómum, kynnt bjargráð sem hægt er að nýta eftir útskrift og gefin ráð um samskipti, virkni og slökun eftir heimkomu.

Sjá fyrirlesturinn um aðlögun að hjartasjúkdómum hér

Brjóstverkur?

VIÐBRÖGÐ VIÐ BRJÓSTVERK – EF Í VAFA ÞÁ SKALTU HRINGJA Í 112

Ýmis einkenni geta verið eðlileg eftir inngrip tengd kransæðum. Mikilvægt er að hver og einn þekki sinn sjúkdóm og hvenær er tímabært að leita aðstoðar.

Leitaðu strax á næstu bráðamóttöku ef:

  • Þú færð mikinn brjóstverk og/eða brjóstverkurinn er nýtilkominn.
  • Þú finnur fyrir mæði samhliða brjóstverknum.
  • Verkurinn varir lengur en í nokkrar mínútur.
  • Verkurinn versnar þegar þú talar, gengur stiga eða reynir á þig.
  • Þú hefur áhyggjur af verknum.

Á www.skyndihjálp.is er að finna ýmis fróðleg myndbönd um brjóstverk og viðbrögð við honum.
Einnig er að finna ýmsar upplýsingar á heilsuveru 

Hafðu samband

Tengiliður Símanúmer
Skiptiborð Landspítala 543 1000

Um útgáfuna

Útgefandi

Landspítali, Hjartaendurhæfing

Nóvember 2020 

Ábyrgðarmenn: Hulda Halldórsdóttir, María Barbara Árnadóttir og Inga Valborg Ólafsdóttir.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?