Krabbamein hjá börnum - Næring
Hér er gerð grein fyrir áhrifum krabbameinsmeðferðar á næringu og mataræði.
Hagnýtar upplýsingar
Margir finna fyrir breytingu á bragð- og lyktarskyni af völdum sjúkdóms og meðferðar. Einkennin lýsa sér á þann hátt að maturinn bragðast öðruvísi. Barninu eða unglingnum getur fundist maturinn vera rammur, of saltur, sætur, súr eða bragðlaus. Sumum finnst rautt kjöt rammt. Aðrir finna fyrir járnbragði í munninum í og eftir krabbameinslyfjameðferð. Þegar breyting verður á bragð- og lyktarskyni er hætt við að fólk borði minna og nærist þá verr.
Nokkur bjargráð
- Velja þann mat sem barninu líkar eða þér finnst bragðast vel
- Borða lítið í einu en oft
- Reyna að vera í rólegu og snyrtilegu umhverfi og bera matinn fram á lystugan hátt, t.d með litríku grænmeti
- Bursta tennur fyrir og eftir máltíðir og skola munninn með munnskoli. Salt- og matarsódaupplausn eða volgt vatn getur eytt óbragði
- Ef maturinn er of súr má nota meiri sykur
- Hægt er að auka bragð með kryddum svo sem oregano, basilíku og timjan
- Einnig er hægt að bragðbæta kjöt með því að leggja það í kryddlög.
- Grænmetisrétti og salöt má bragðbæta með sítrónusafa eða ediki
- Nota ávexti, ávaxtadrykki (t.d. sítrónu eða appelsínu) og beiskan brjóstsykur eða ópal til að örva munnvatn og bragðskyn
- Rautt kjöt getur bragðast illa og verið rammt. Oft gengur betur að borða ljóst fuglakjöt t.d. kjúkling eða kalkún
- Ef barnið eða unglingurinn getur ekki borðað kjöt er mikilvægt að borða aðra próteinríka fæðu, t.d. egg, fisk, ost, mjólk og mjólkurafurðir, hnetur og allar tegundir af baunum
- Ef járnbragð er vandamál er rétt að nota glerílát og plast- eða tréáhöld við matreiðslu og einnig þegar maturinn er framreiddur
- Ef barnið er með járnbragði í munninum er betra að borða bragðlítinn mat, draga úr neyslu á súrum ávöxtum, te og tómötum. Einnig að sleppa drykkjum og fæðu sem inniheldur sakkarín
- Betra er að hafa matinn frekar kaldan en heitan til að draga úr lykt. Gott er að borða ekki inni í eldhúsinu þar sem maturinn er eldaður. Einnig getur verið gott að elda í örbylgjuofni eða á útigrilli eða að vinir komi með mat annars staðar frá, svo sem að heiman eða frá veitingastað
- Hjúkrunarfræðingar og næringarráðgjafi deildarinnar geta verið þér innan handar við val á hentugum mat og gefa þér gjarnan frekari upplýsingar
Unnið af Rannveigu Gylfadóttur, hjúkrunarfræðingi, 1998. Breytt og staðfært árið 2002 af Sigrúnu Þóroddsdóttur og Önnu Ólafíu Sigurðardóttur hjúkrunarfræðingum á Barnaspítala Hringsins. Yfirfarið síðast október 2009
Lystarleysi er algengt meðan á veikindum og krabbameinsmeðferð stendur. Það getur m.a. lýst sér með því að finna minna fyrir hungurtilfinningu, finnast maður vera fljótt saddur/södd eða breytingu á bragð-og lyktarskyni. Einnig er áhugaleysi á mat og jafnvel fæðuóbeit algeng. Í kjölfarið fylgir minni fæðuinntaka, megrun og þreyta.
Orsakir lystarleysis eru margar og geta tengst áhrifum meðferðar og sjúkdóms. Uppköst, niðurgangur, bólgur og sár í slímhúð munns og meltingavegar geta fylgt meðferðinni og haft áhrif á matarlyst. Einnig geta verkir, kvíði og þreyta haft áhrif, ásamt því umhverfi og þeim félagsskap sem þú ert í hverju sinni.
Nokkur bjargráð:
- Borða aðalmáltíðina þegar matarlystin er mest. Hjá mörgum er það oft fyrst að morgni
- Forðast stórar máltíðir
- Borða oft en lítið í einu. Það eykur vellíðan að ná að ljúka máltíð
- Drekka eitthvað lystaukandi um 20 mín. fyrir máltíð, t.d. lítið glas af ávaxtasafa, en forðast mikið vökvamagn fyrir og með máltíð. Drekka frekar á milli máltíða
- Hafa tiltæka orkuríka bita á milli mála, svo sem hnetur, þurrkaða ávexti, osta og ís
- Ef erfiðleikar eru við að neyta fastrar fæðu er stundum betra að stappa, hakka eða mauka hana
- Einnig er hægt að borða einungis fljótandi fæði t.d. súpur og grauta
- Mikilvægt er að hafa fæðuna þá sem fjölbreyttasta og orkuríka
- Bæta salti, sykri eða kryddi við mat ef bragðskynið er breytt.
- Munnhreinsun er mikilvæg og því skal bursta tennur bæði fyrir og eftir máltíðir og nota munnskol
- Taka verkjalyf og velgjuvarnarlyf u.þ.b. 30 mínútum fyrir máltíðir ef verkir og ógleði eru til staðar
- Hæfileg hreyfing milli máltíða eykur matarlyst
- Hvíld á eftir og slökunaræfingar geta hjálpað
- Góð loftræsting og rólegt slakandi umhverfi, jafnvel tónlist getur hjálpað
- Félagsskapur er sumum mikilvægur við máltíðir
- Þegar barnið eða unglingurinn borðar minna en venjulega er mikilvægt að auka næringargildi fæðunnar
- Fitu og sykur, sem venjulega er talið neikvætt að borða of mikið af, er nauðsynlegt að auka þegar lystin er lítil
- Hægt er að nota smjör, rjóma, majones, osta, sykur og hunang til að orkubæta flestan mat
- Einnig er hægt að fá tilbúna orkudrykki.
- Vöðvamassi líkamans þarf að viðhalda, en fæðið vill vera próteinskert vegna minni lystar á kjöti og fiski
- Próteinrík fæða er t.d. mjólk og mjólkurmatur ýmiskonar, egg, hnetur og allar tegundir af baunum
- Hjúkrunarfræðingar og næringarráðgjafi deildarinnar geta verið þér innan handar við val á hentugum mat og gefa þér allar nánari upplýsingar
Unnið af Rannveigu Gylfadóttur, hjúkrunarfræðingi, 1998.
Breytt og staðfært af Sigrúnu Þóroddsdóttur og Önnu Ólafíu Sigurðardóttur hjúkrunarfræðingum á Barnaspítala Hringsins, 2002. Yfirfarið árið 2013
Sum krabbameinslyf geta valdið munnþurrki, einnig geislameðferð á andlits- og hálssvæði. Lyfin og meðferðin hafa þau áhrif að munnvatnsframleiðslan minnkar í munnvatnskirtlum og munnvatnið breytist, verður þykkt, seigt og virkar ekki sem skyldi í munninum. Lyfin skaða líka slímhúðina í munninum tímabundið eða þar til slímhúðarfrumurnar hafa endurnýjað sig.
Eðlilegt munnvatn mýkir fæðuna og hjálpar til við meltingu hennar. Það inniheldur auk þess ýmis efni sem verja munninn gegn sýkingum. Einnig viðheldur það eðlilegum raka í munninum svo að fólki líði vel og geti talað og andað án óþæginda. Munnþurrkur veldur óþægindum þegar fólk matast, talar, reynir á sig og sefur.
Munnurinn þornar hraðar þegar fólk er á hreyfingu og svefninn truflast þegar tungan festist við góminn. Munnþurrkur veldur því að munnurinn er varnarlausari gegn sýkingum og tennurnar skemmast frekar. Munnþurrkurinn getur verið misalvarlegur. Erfitt er að fyrirbyggja hann, en ýmislegt er hægt að gera til að manni líði betur.
Munnhirða
Góð munnhirða er mjög mikilvæg og getur örvað munnvatnsframleiðslu. Mikilvægt er að bursta tennurnar fyrir og eftir máltíðir. Notið mjúkan tannbursta og flúortannkrem. Bioténe Dry Mouth Toothpaste tannkrem hefur bakteríu-drepandi áhrif og örvar munnvatnsframleiðslu. Notið tannþráð með sérstakri varúð til að særa ekki tannholdið. Skolið munninn eftir þörfum með saltvatni (0,9% NaCl lausn sem hægt er að kaupa í apóteki eða blanda sjálfur 1/4 tsk. salt í 1 bolla af vatni). Notið bakteríudrepandi munnskol sem ekki innihalda alkóhól t.d. Bioténe munnskol. Notið tyggigúmmí eftir máltíðir, helst sykurlaust með flúori, t.d. Fluorette sem fæst í apótekum. Notið varasalva til að mýkja varirnar.
Fæðan
Best er að borða mjúka og blauta fæðu. Forðist harða, þurra, kryddaða og súra fæðu. Forðist sætindi. Gætið þess að drekka mikið af vatni eða ósætum og ósúrum drykkjum. Góð regla er að hafa alltaf drykk hjá sér og súpa oft á. Kolsýrðir drykkir geta þurrkað og ert slímhúðina. Forðist að narta milli mála.
Rakagefandi efni
Gervimunnvatn í úðaformi sem heitir Saliva Orthana og einnig gel sem heitir Orabalance Artificial saliva eða munnsogstöflur sem heita Profylin geta komið að gagni. Hægt er að kaupa þessar vörur í apóteki. Gott getur verið að velta ólívu olíu í munninum fyrir svefninn til að tungan límist síður við góminn og mýkja varirnar með varasalva eða vaselíni.
Örvar munnvatnsframleiðslu3
- Sykurlaust tyggjó og sykurlaus brjóstsykur eða ópal
Eftirlit og skoðun
Gætið þess að fara reglulega í eftirlit til tannlæknis, a.m.k. tvisvar á ári. Látið lækni eða tannlækni skoða munninn ef barnið eða unglingurinn finnur fyrir verkjum í tönnum eða tannholdi eða ef þið hafið minnsta grun um sýkingar í munnholinu.
Unnið af Guðrúnu Sigurðardóttur, hjúkrunarfræðingi, 1998.
Breytt og staðfært árið 2002 af Sigrúnu Þóroddsdóttur og Önnu Ólafíu Sigurðardóttur hjúkrunarfræðingum á Barnaspítala Hringsins. Yfirfarið árið 2013
Ráðleggingar um hvernig hægt er að orkubæta matinn:
- Nota feitar matvörur eins og t.d. nýmjólk,smjör, smjörva, borðsmjörlíki
- Nota nýmjólk, rjóma eða matarolíu í grauta og mauk
- Nota rjóma eða 36% sýrðan rjóma í súrmjólk, ab mjólk og skyr
- Velja feitt álegg eins og t.d. feita osta (t.d. brie, búra, rjómaost), spægipylsu, kindakæfu, lifrarkæfu og hnetusmjör
- Nota alltaf smjör eða smjörlíki, einnig á brauðið
- Velja orkuríka drykki eins og t.d. nýmjólk, ávaxtasafa, malt eða gos í staðinn fyrir vatn
- Bæta rjóma, matarolíu, smjöri eða 36% sýrðum rjóma í súpur, sósur og kartöflumús
- Nota smjör, matarolíu eða majónes með kartöflum, hrísgrjónum og pasta
- Nota kaldar majonessósur eins og t.d. pítusósu, kokteilsósu eða olíuediksósu með grænmeti
- Nota smjör eða feiti með fisk eða kjötréttum
- Nota eftirrétti, gjarnan með rjóma eða ís
Næringarríkir bitar á milli mála
Litlir skammtar á milli mála henta vel til að auka orku- og próteininnihald fæðunnar.
Þegar borðað er lítið í einu þarf að borða oftar. Látið ekki líða nema 2-3 klst. milli máltíða.
Hugmyndir um snarl á milli mála:
- Skyr, rjómaskyr, skólaskyr. Jógúrt, þykkmjólk, engjaþykkni, ABT mjólk, hrísmjólk
- Morgunkorn með mjólk eða sýrðum mjólkurvörum
- Ostur - notið feitar tegundir t.d. búra, brie, rjómaost
- Ostakökur, ostabökur
- Brauð, rúnnstykki, langlokur, hrökkbrauð með smjöri og áleggi. Dæmi um álegg: Ostur, kæfa, egg, majónessalat, hangikjöt, spægipylsa, hnetusmjör, sulta
- Kex með smjöri og áleggi. Snúðar, vínarbrauð, kleinur, formkökur, tertur
- Vöfflur og pönnukökur t.d. með sultu og rjóma eða ís
- Smákökur, kremkex, súkkulaðikex, sælgæti
- Ávaxtabökur t.d. með þeyttum rjóma eða ís
- Grautar og súpur e.t.v. með rjóma
- Bananar, niðursoðnir ávextir, avókadó, ólífur
- Þurrkaðir ávextir t.d. sveskjur, rúsínur, döðlur, fíkjur, apríkósur, bananaflögur
- Hnetur, möndlur. Búðingar, ávaxtahlaup, ís, frómas
- Kakómjólk, heitt kakó, mjólkurhristingur
- Tilbúnir næringardrykkir
- Snakk, nasl, ídýfur, poppkorn, franskar kartöflur
- Harðfiskur með smjöri
Unnið af næringarstofu LSH, 1998, yfirfarið árið 2013.
Meðferð með frumueyðandi lyfjum getur valdið ógleði og/eða uppköstum. Sum lyf valda ekki ógleði, önnur geta leitt til mismikillar ógleði eða uppkasta. Stærð lyfjaskammta hefur einnig áhrif.
Mismunandi er hversu fljótt eftir lyfjagjöf ógleði eða uppköst byrja.
Stundum gerist það eftir nokkra tíma og stundum á næstu 2-3 dögum eftir hverja meðferð.
Einnig er mismunandi hversu lengi einkennin vara og fer það líka eftir því hvernig ógleðilyfin verka.
Ógleðin getur verið svo væg að einstaklingurinn taki varla eftir henni og lýsir henni sem ólgu í maganum, klígju eða lystarleysi. Ógleðin getur einnig verið svo slæm að hún hindri barnið eða unglinginn í að sinna einföldustu hlutum.
Ógleðinni fylgja oft mörg einkenni svo sem hraður hjartsláttur, sviti, fölvi, aukin munnvatnsframleiðsla, hröð og djúp öndun og slappleiki. Yfirleitt er hægt að fyrirbyggja og draga úr ógleði og uppköstum með lyfjum og ýmsum öðrum ráðum.
Forvarnir
Oftast er hægt að fyrirbyggja og vinna á ógleði og uppköstum vegna lyfjameðferðar með ýmsum ráðum, m.a. lyfjum og þið fáið sérstakar upplýsingar um það.
Almenn ráð
Mikilvægt er að taka lyf við ógleðinni samkvæmt ráðleggingum.
- Slökunaræfingar hafa reynst vel.
- Vel getur reynst að stunda gönguferðir
- Mörgum finnst gott að lesa, hlusta á tónlist eða horfa á myndband til að draga athyglina frá ógleðinni
Þegar barnið finnur fyrir ógleði getur verið gott að
- Anda hægt með opinn munn
- Velta ísmola í munninum
- Fá sér súran brjóstsykur (getur verið frískandi)
- Halda munni og tönnum hreinum
- Anda að sér hreinu lofti
Nokkur ráð varðandi máltíðir
- Forðast stórar máltíðir rétt fyrir lyfjameðferð og í 3-4 tíma eftir meðferðina
- Hvíla sig fyrir máltíðir og borða sitjandi. Borða hægt og tyggja matinn vel
- Borða mest á þeim tíma dags sem lystin er góð. Borða annars oft og litlar máltíðir í einu
- Mörgum þykir magurt og ljóst kjöt betra, t.d. kjúklingur, kalkúnn eða kálfakjöt
- Kaldir réttir þykja oft lystarmeiri en heitir (engin matarlykt) og margt súrmeti þolist vel
- Fituminni matvörur meltast betur t.d. undanrenna, skyr, jógúrt, ostar, ávextir, te og ristað brauð, kaldar súpur og grautar, kjötseyði
- Oft gott að narta í einhverja þurra fæðu eins og kex, hrökkbrauð, tvíbökur eða kringlur
- Drekka hægt en nægilega mikið. Mörgum þykir gott að drekka eplasafa og kolsýrða drykki (Kók, Ginger ale)
Þegar ógleði gerir vart við sig er mælt með því að forðast heitar máltíðir sem mikil lykt er af, steiktan, brasaðan, sætan og mikið kryddaðan og reyktan mat.
Þá mætti einnig reyna uppáhaldsmat barnsins.
Mikilvægt er að hafa samband við deildina þegar
- Barnið er með ógleði sem velgjuvarnarlyfin verka ekki á
- Einnig ef ógleðin stendur yfir í nokkra daga
- Ef barnið kastar upp oftar en tvisvar á dag í 2 daga
- Ef barnið getur ekki haldið niðri neinum vökva eða fæðu
- Einkenni um mikið vökvatap eru þorsti, munnþurrkur, lítið og dökkt þvag, þreyta og þurr húð
Unnið af Lilju Jónasdóttur og Stefaníu V. Sigurjónsdóttur hjúkrunarfræðingum, 1999. Breytt og staðfært árið 2002 af Sigrúnu Þóroddsdóttur og Önnu Ólafíu Sigurðardóttur hjúkrunarfræðingum á Barnaspítala Hringsins. Yfirfarið árið 2013
Krabbameinslyfjameðferð
Meðferð með krabbameinslyfjum getur haft áhrif á slímhúðina í munninum. Áhrifin koma fram vegna þess að lyfin valda tímabundnum skaða í frumum munnslímhúðar eða vegna fækkunar á hvítum blóðkornum. Einkennin sem koma fram eru einstaklingsbundin, þau eru meðal annars háð lyfjategund, hvernig lyfið er gefið, skammtastærð og fjölda lyfjakúra. Oftast verður vart við einkenni 7-14 dögum eftir lyfjameðferð. Tíminn sem það tekur fyrir slímhúðina að jafna sig er einstaklingsbundinn, oftast tekur það 7-14 daga.
Fyrstu einkennin geta verið vægur roði og þroti í munnslímhúð, bjúgur á mótum vara og slímhúðar, sviði í tungu og munnþurrkur. Síðari einkenni geta verið breytt bragðskyn, verkur, sár og blæðing í munninum, sýking í munnslímhúðinni, ásamt hita, frunsum og erfiðleikum við að borða og tala. Þegar niðurbrot verður á munnslímhúðinni er auðvelt fyrir sýkingar að taka sér þar bólfestu. Sýking í munni getur verið af völdum sveppa, veira eða baktería. Sveppasýking lýsir sér sem hrjúfar hvítar skellur á tungunni og innan á kinn og oft með málmbragði í munninum. Veirusýking einkennist af blöðrum sem myndast fyrst á vörunum, en springa síðan og þorna. Bakteríusýking getur myndast alls staðar í munninum. Hún lýsir sér sem hvítt upphleypt sár og gulleitar skellur. Láttu vita strax ef vart verður við þessi einkenni. Gott er að láta tannlækni fylgjast með ástandi tannanna fyrir og eftir meðferð.
Munnhirða
Skolið munninn oft á dag með volgu vatni. Tannburstun er einfaldasta og áhrifaríkasta leiðin til að fjarlægja sýkla og matarleifar úr tönnunum. Notið mjúkan tannbursta og flúortannkrem eftir hverja máltíð. Í stað tannbursta er hægt að nota grisjur eða svamppinna sem fást í apótekum. Farið varlega ef þið notið tannþráð og tannstöngla svo þið særið ekki viðkvæmt tannholdið. Skiptið reglulega um tannbursta. Skolið munninn vel eftir burstun og þrýstið vökvanum vel út á milli tannanna. Ef það blæðir úr munnslímhúðinni er gott að setja ísmola í grisju og þrýsta við blæðingarstaðinn eða láta ísmola renna í munninum.
Munnskol
Mörg munnskolsefni eru til og gott að ráðfæra sig við um notkun þeirra við hjúkrunarfræðing eða lækni. Forðist skol sem innihalda alkóhól, þau valda munnþurrki. Saltvatn (0,9% NaCl lausn), fjarlægir laus óhreinindi og sýkla og skaðar ekki slímhúðina.
Matarsódi (natriumbíkarbonat) leysir upp óhreinindi í munni. Hrærið 1 teskeið út í glas af vatni, óhætt er að kyngja þessu. Hexadent 2mg/ml (chlorhexidin) er sýkla - og sveppadrepandi lyf. Skolið með 10 ml tvisvar á dag, má ekki kyngja. Brúnar skellur geta myndast á glerungi tannanna við langtíma notkun, en þær hverfa eftir að notkun er hætt. Biotene er bakteríudrepandi lyf. Skolið með 15 ml tvisvar á dag. Andolex er bólgueyðandi og deyfandi skol. Skolið með 15 ml þrisvar til fjórum sinnum á dag, má ekki kyngja.
Deyfiskol
Við verk í munni og hálsi eru til munnskol sem deyfa staðbundið. Xylocain 5 mg/ml þunnfljótandi. Nota 30 ml í senn mest 4 sinnum á sólarhring, gjarnan fyrir máltíðir. Skola munnholið fyrst vel með 15 ml og síðan má kyngja hinum 15 ml. Xylocain þykkfljótandi/hlaup. Nota 10 ml mest þrisvar á sólarhring, gjarnan fyrir máltíðir, dreifa vel um allan munninn og kyngja. Parasetamól töflur muldar eða í mixtúru formi má blanda í rjóma eða mjólk, velta í munninum og kyngja varlega 30 mín. fyrir máltíðir. Magical Mouthwash er sér útbúin blanda og deyfir staðbundið. Notist eftir þörfum, má kyngja.
Lyf
Mycostatin er notað til að meðhöndla sveppasýkingu. Því er velt í munni 1 ml í senn fjórum til sex sinnum á dag og síðan kyngt. Mikilvægt að nota þetta 20-30 mínútum eftir önnur munnskol og ekki drekka í 20 mínútur á eftir. Fungizone munnsogstöflur eru notaðar gegn sveppasýkingu í munni, ein tafla fjórum sinnum á dag og látin renna í munni.
Öll munnskol og lyf skal notuð í samráði við lækna og hjúkrunarfræðinga.
Næring
Oft er erfitt að neyta fastrar fæðu vegna verkja í munninum og vegna bragðskynsbreytinga. Fæðan þarf að vera hitaeininga- og próteinrík. Borðið oft og lítið í einu. Borðið mjúkan og bragðmildan mat. Notið smjör, rjóma eða soð til að mýkja fæðuna. Hafraseyði er mjög gott, það hlífir slímhúðinni. Nauðsynlegt er að drekka vel og hafa alla fæðu við stofuhita. Forðist steiktan, grófan og súran mat. Gott er að nota tilbúna næringardrykki. Það er nokkuð einstaklingsbundið hvað af þessu virkar best og þess vegna er um að gera að prófa sig áfram og finna hvað hentar með aðstoð næringarráðgjafa.
Unnið af Hrönn Finnsdóttur, hjúkrunarfræðingi, 1998. Breytt og staðfært árið 2002 af Sigrúnu Þóroddsdóttur og Önnu Ólafíu Sigurðardóttur hjúkrunarfræðingum á Barnaspítala Hringsins. Yfirfarið 2013