Krabbamein hjá börnum og unglingum
Meðhöndlun krabbameins hjá börnum og unglingum felst fyrst og fremst í lyfjameðferð, skurðaðgerðum og geislameðferð.
Hægt er að meðhöndla með þessum aðferðum hverri fyrir sig eða saman.
Algengast er að nota lyfjameðferð.
Á Íslandi greinast 10-12 börn undir 18 ára aldri með krabbamein árlega og er það svipað hlutfall og annars staðar á Vesturlöndum.
Ef frá eru talin slys þá er krabbamein algengasta dánarorsök barna á Vesturlöndum.
Algengustu krabbamein hjá börnum eru hvítblæði og heilaæxli en þessar tvær tegundir ná yfir rúmlega helming allra krabbameinstilfella hjá börnum.
Aðrar krabbameinstegundir sem finnast hjá börnum eru t.d. eitlaæxli, beinæxli og fósturvefsæxli.
Skurðaðgerð
Tilgangur skurðaðgerðar er að fjarlægja æxli, annað hvort í heilu lagi eða að hluta til, eða að taka sýni úr æxlinu.
Aðgerðin og niðurstaða sýnatöku geta skipt sköpum við val á áframhaldandi meðferð.
Í vissum tilvikum getur verið betra að byrja með lyfja- eða geislameðferð áður en æxlið er tekið með skurðaðgerð.
Ef aðeins tekst að fjarlægja æxlið að hluta með aðgerð getur lyfja- og/eða geislameðferð samt borið árangur.
Kynnið ykkur einnig:
- Að eiga veikt systkyni
- Krabbamein í börnum
- Hvítblæði hjá börnum
- Æxli hjá börnum
- Krabbameinslyfjameðferð barna
- Geislameðferð barna