Leit
Loka

Hagnýtar upplýsingar

Bakterían sem kölluð er Staphylococcus aureus er meðal algengustu sýkingavalda í mönnum. MÓSA (Methicillin Ónæmur Staphylococcus Aureus) er afbrigði þessarar bakteríu en er ónæm fyrir mjög mörgum sýklalyfjum.

Bakterían getur lifað á húð og í nefi án þess að valda neinum einkennum.

Það er ekki fyrr en hún kemst í gegnum varnir líkamans að hún veldur sýkingum.

Þar sem meðferðarmöguleikar gegn MÓSA eru takmarkaðir er bakterían einkum varasöm hjá einstaklingum sem eru með skert ónæmiskerfi.

Einnig getur reynst erfitt og kostnaðarsamt að uppræta hana ef hún nær bólfestu á sjúkrastofnunum.

MÓSA bakterían hefur ekki náð fótfestu hér á landi en hún er algeng víða um heim.

Hérlendis er lögð mikil vinna í að uppræta MÓSA, einkum á sjúkrahúsum.

Bakterían dreifist aðallega með snertingu.

Einnig getur hún smitast með svokölluðu dropasmiti t.d. með hósta eða hnerra.

Fólk sem leggst inn á sjúkrahús er spurt eftirfarandi spurninga:

  • Hefur þú greinst með MÓSA?
  • Hefur þú umgengist einstakling(a) með MÓSA?
  • Hefur þú legið á, unnið á eða fengið meðferð á sjúkrastofnun erlendis á síðustu 6 mánuðum?

Einangrun

Ef eitthvað af þessu er svarað játandi eru tekin sýni og einstaklingurinn hafður í einangrun þar til niðurstöður ræktana liggja fyrir, oftast í 2 - 3 daga.

Sýni eru tekin frá eftirtöldum stöðum:

  • Nösum
  • Hálsi
  • Spöng (kynfærum)
  • Sárum, húðopum við leggi eða dren,exemi og öðrum húðkvillum
  • Hrákasýni (ef fólk er með uppgang)
  • Þvagsýni (ef fólk er með þvaglegg)
Ef viðkomandi er neikvæður losnar hann strax úr einangrun.

Ef MÓSA ræktast þarf að halda áfram einangrun þar til viðeigandi meðferð er lokið og þrjú sýni eru neikvæð.
Allir sem koma inn á stofuna til sjúklings sem er í MÓSA einangrun eiga að vera í langerma sloppum, með hanska og í sumum tilfellum með grímur.
  • Líkamsþvottur með Hibiscrubsápu daglega, samkvæmt leiðbeiningum. Gætið þess vandlega að sápan berist ekki í augu eða eyru. Gott er að nota rakakrem á eftir því sápan getur ert viðkvæma húð. Nota má svitalyktareyði eða rakspíra eftir þvottinn.
  • Klórhexidín duft ( naflapúður) daglega. Ef líkaminn er þveginn að morgni á að nota duftið að kvöldi og öfugt. Setjið þunnt lag í allar fellingar með áherslu á nára og rass-skoru.
  • Lyfjameðferð skv. fyrirmælum lækna.

Þar sem Mósa smitast aðallega við snertingu er handþvottur áhrifaríkasta leiðin til að koma í veg fyrir að bakterían dreifi sér.

Einnig er mjög gott að bera spritt á hendurnar eftir þvottinn. Gætið þess að hendurnar séu orðnar þurrar þegar sprittið er sett á. Leyfið sprittinu að þorna af sjálfu sér.

Ef þú hefur greinst með MÓSA, hvort sem þú ert laus við það núna eða ekki, ertu vinsamlegast beðin(n) að láta vita af því þegar þú leitar þjónustu á heilsugæslustöð, sjúkrahúsi eða hjá heilbrigðisstarfsmanni.

Þetta er nauðsynlegt til að sporna við smitun milli einstaklinga.

Þér er velkomið að hafa samband við deildina ef eitthvað kemur upp á eftir að heim er komið.


Útgefandi:
Landspítali- Háskólasjúkrahús
Lyflækningasvið I
Lyflækningadeild A7
Ágúst 2006 – 1. Útgáfa


HÖFUNDUR OG ÁBYRGÐARMAÐUR:

Berglind Guðrún Chu, Hjúkrunarfræðingur A7

FAGLEG RÁÐGJÖF:
Stefanía Arnardóttir, Deildarstjóri A7
Már Kristjánsson, Yfirlæknir Smitsjúkdómadeildar LSH
Sigríður Antonsdóttir, Deildarstjóri Sýkingavarnardeildar LSH

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?