Leit
Loka

Hagnýtar upplýsingar

Sýna allt

Heilbrigður einstaklingur sem er við góða heilsu getur gefið annað nýrað sitt vegna þess að nýrun hafa mikla umframgetu og unnt er að lifa eðlilegu lífi með eitt nýra.

Hægt er að gefa nýra fram að sjötugsaldri ef heilsan er góð og nýrun starfa eðlilega.

Hér á landi er algengast að ígrætt nýra fáist frá lifandi gjöfum og undanfarna áratugi hafa íslenskir nýraþegar fengið nýra frá lifandi nýragjafa í 70% tilvika.  Engu að síður er skortur á líffærum til ígræðslu helsta vandamálið sem glímt er við, sérstaklega þegar um er að ræða að gefa líffæri við lífslok.

Margir hafa haldið því fram, að ef menn eru tilbúnir til að þiggja ígrætt líffæri þá eigi menn líka að vera reiðubúnir að gefa líffæri við lífslok.

Kynntu þér líffæragjöf á vef Landlæknis.

Það var heillaspor fyrir Landspítala og íslenskt samfélag að hefja ígræðslur nýrna hér á landi.  Þessi áfangi stórefldi ígræðslulækningar og hefur haft jákvæð áhrif á lækningastarfsemi stofnunarinnar í heild.

Nýraígræðslur á Íslandi er samstarfsverkefni nýrnalækninga- og þvagfæraskurðlækningaeininga Landspítala og Jóhanns Jónssonar ígræðsluskurðlæknis á Fairfax-sjúkrahúsinu í Virginíu í Bandaríkjunum.  Hann gerir aðgerðirnar ásamt Eiríki Jónssyni, yfirlækni þvagfæraskurðlækninga. Undirbúningi og langtímameðferð nýraþega er stjórnað af nýrnasérfræðingum í samvinnu við hjúkrunarfræðing á ígræðslugöngudeildinni.

Nýraígræðslur á Landspítala eru eingöngu frá lifandi gjöfum en ígræðslur frá látnum gjöfum eru erlendis.  Í tengslum við þessar ígræðslur var ígræðslugöngudeild spítalans efld en í ígræðsluteymi spítalans eru nýrnalæknar, þvagfæraskurðlæknar, hjúkrunarfræðingur, félagsráðgjafi, sálfræðingur og sérhæfðir starfsmenn Blóðbankans.

Hjúkrunarfræðingar og læknar á skurðstofum, gjörgæslu og legudeild tóku stóran þátt í skipulagningu og undirbúningi þegar byrjað var að gera þessar aðgerðir á Landspítala.  Það er því stór hópur sérhæfðra starfsmanna Landspítala sem kemur að nýraígræðslum. Þessi hópur myndar keðju þar sem sérhver hlekkur skiptir miklu máli til að tryggja öryggi nýragjafa og nýraþega fyrir og eftir aðgerð.

Frá árinu 2003 til 2012 hafa verið  63 árangursríkar nýraígræðslur á Landspítala, eða um níu aðgerðir á hverju ári.

Íslendingar eru aðilar að Norrænu líffæraígræðslustofnuninni Scandiatransplant.  Íslenskir nýrnalæknar hafa setið í stjórn samtakanna og þannig haft áhrif á stefnumótun og starfið innan þeirra.  Líffæri sem látnir Íslendingar gefa eru fjarlægð af læknum ígræðslusjúkrahúss sem Íslendingar eru með samning við hverju sinni og þeim útdeilt í samvinnu við Scandiatransplant.

Mestan ávinning af aukinni ígræðsluvirkni, fjölgun nýragjafa og þar með fjölgun ígræðsluaðgerða hafa sjúklingar með nýrnabilun á lokastigi. Nýraígræðsla hefur meiri lífsgæði í för með sér en unnt er að ná fram með skilunarmeðferðum.

 • Árið 1943 setti hollenski læknirinn Willem Kolff saman fyrstu nothæfu blóðskilunarvélina og tveimur árum seinna náði hann þeim stóra áfanga að bjarga lífi sjúklings sem haldinn var alvarlegri bráðri nýrnabilun með því að beita blóðskilunarmeðferð
 • Árið 1960 hóf fyrsti sjúklingurinn blóðskilunarmeðferð til langframa vegna nýrnabilunar á lokastigi og lifði hann í 11 ár. Það sem gerði kleift að veita slíka meðferð svo lengi var útvortis tenging milli slagæðar og bláæðar (arteriovenous shunt) úr teflóni sem var hönnuð af bandaríska lækninum Belding Scribner og var síðan við hann kennd
 • Árið 1985 tókst að einangra erfðavísi rauðkornahvatans erýtrópoietíns í mönnum og í framhaldi af því hófst framleiðsla þess í hamstursfrumum með samrunaerfðatækni. Fáeinum árum síðar var lyf sem innihélt erýtrópoietín komið á markað og var þá í fyrsta sinn völ á virkri meðferð við blóðleysi af völdum nýrnabilunar. Þessi merka uppgötvun stórbætti líðan og lífsgæði skilunarsjúklinga
 • Á Þorláksmessu árið 1954 var fyrsta árangursríka líffæraígræðslan. Þessi sögulega aðgerð fór fram á Peter Bent Brigham-sjúkrahúsinu í Boston og var stjórnað af bandaríska skurðlækninum Joseph E. Murray. Nýra var þá grætt í ungan mann og var gjafinn eineggja tvíburabróðir mannsins. Þar sem vefjaflokkamynstur mannanna voru eins mynduðust engin höfnunarviðbrögð gegn nýranu þó að ekki væri beitt ónæmisbælandi meðferð sem ekki var komin til sögunnar á þessum tíma
 • Fyrsti Íslendingurinn gekkst undir ígræðslu nýra í desember 1970. Aðgerðin fór fram á sjúkrahúsi í London
 • Fram til ársins 1991 voru Íslendingar öðrum háðir um líffæri til ígræðslu en þá urðu mikil tímamót því sett voru lög hér á landi sem skilgreindu heiladauða og heimiluðu brottnám líffæra úr látnum til ígræðslu
 • Ísland gerir samning við eitt af Norðurlöndunum vegna ígræðsluaðgerða þar sem um er að ræða líffæri frá látnum gjöfum. Frá árinu 2010 er samningur í gildi við Sahlgrenska-háskólasjúkrahúsið í Gautaborg í Svíþjóð
 • Fyrsta nýraígræðslan fór fram á Íslandi í desember 2003 en fram að þeim tíma voru allar nýrnaígræðslur erlendis
 • Frá janúar árið 2003 til desember 2012 hafa 63 Íslendingar fengið ígrætt nýra á Landspítala

Tímamót urðu árið 1991 þegar lög voru sett hér á landi sem skilgreindu heiladauða og heimiluðu brottnám líffæra til ígræðslu.  Slík lög eru víðast í gildi m.a. á hinum Norðurlanna. Þau hafa það í för með sér að þegar um heiladauða er að ræða má úrskurða fólk látið enda þótt hjartað slái enn og viðkomandi sé í öndunarvél. Á hverju ári koma upp nokkur slík tilfelli hér á landi.

Andlát vegna heiladauða er forsenda þess að unnt sé að nýta líffæri látinna einstaklinga til ígræðslu. Heiladauði merkir að átt hefur sér stað óafturkræf stöðvun á starfsemi heilans. Þegar heiladauði hefur verið staðfestur er starfsemi annarra nauðsynlegra líffærakerfa hins látna haldið gangandi með vélbúnaði og lyfjum þar til gjafalíffærin hafa verið numin brott .

Fjarlægja má líffæri til ígræðslu úr nýlátnum einstaklingi ef hann hefur áður veitt til þess samþykki sitt eða ef nánasti ættingi gefur til þess leyfi enda sé ekki vitað til þess að hinn látni hafi verið mótfallinn líffæragjöf.

Óheimilt er að greina líffæraþega frá nafni látna gjafans og aðstandendur gjafans fá ekki að vita hverjir njóta góðs af líffærum hans. Líffæraþegi getur þó sent ættingjum gjafans þakkarbréf, en slíkt bréf er þá sent til Sahlgrenska sjúkrahússins sem kemur því nafnlaust til viðtakenda.

Lög um líffæragjöf eru svipuð hér og annars staðar á Norðurlöndunum. Sá sem orðinn er 18 ára getur gefið líffæri til ígræðslu. Lifandi líffæragjafi getur gefið annað nýra sitt, hluta af lifur og einnig er hægt að gefa hluta af lunga. Algengast er að gefa annað nýra sitt. Skylt er að veita hinum verðandi gjafa ítarlega fræðslu um aðgerðina og hugsanlega áhættu. Þess skal gætt til hins ítrasta að leggja gjafann í sem minnsta hættu við brottnám líffærisins.

Þrátt fyrir það að Íslendingar fái nýra frá lifandi gjafa í um 70% tilvika (þetta hlutfall er sérstaklega hátt hér á landi) þá er skortur á nýrum vaxandi vandamál hér sem annars staðar.  Aðstandendur látinna einstaklinga synja ósk um líffæragjöf í 30-40% tilvika hér á landi.  Ekki er vitað hverjar eru meginástæður fyrir neitun um líffæragjöf en þetta er afar viðkvæmt málefni.  Fjölskylda mögulegs líffæragjafa upplifir mikla sorg og missi á sama tíma og óskað er eftir að hún gefi líffæri hans.  Umræða og skoðanaskipti í fjölskyldu - og vinahópum um líffæragjafir, áður en slys eða veikindi koma upp, þar sem vilji hvers og eins kemur fram getur auðveldað aðstandendum að taka þessa erfiðu ákvörðun, ef á það reynir.

Erlendis hafa ýmsar leiðir verið reyndar til fjölga líffæragjöfum og hafa þær oft á tíðum verið umdeildar.  Meðal annars hafa verið gefin út sérstök líffæragjafakort eða að ósk um að vera líffæragjafi hefur verið skráð í ökuskírteini. Athygli vekur að líffæragjafakort hafa lítil áhrif haft á fjölda gjafa í Bandaríkjunum. 

Víða í Evrópu hafa verið sett lög sem gera ráð fyrir ætluðu samþykki. Er þá gengið út frá því að allir séu líffæragjafar nema þeir komi á framfæri að þeir vilji ekki gefa líffæri sín við lífslok.  Í flestum löndum er leitað eftir samþykki fjölskyldu hins látna þrátt fyrir að stuðst sé við ætlað samþykki.

Þjóðir sem hafa hæsta tíðni líffæragjafa búa flestar við löggjöf sem gerir ráð fyrir ætluðu samþykki en þær hafa undantekningarlaust beitt margvíslegum aðferðum til að stuðla að fjölgun gjafa, einkum öflugu skipulagi er lýtur að greiningu mögulegra líffæragjafa og ósk um gjöf og víðtækri almenningsfræðslu.

... að nauðsynlegt er að huga að heilsunni á meðan beðið er eftir nýra til ígræðslu?

 • Meðan beðið er eftir ígræðslu nýra er nauðsynlegt að einstaklingurinn undirbúi sig fyrir ígræðsluna með því að stunda líkamsþjálfun.  Einnig er mikilvægt að hirða húðina vel, sérstaklega á það við einstaklinga með sykursýki því hætta á fótasárum er talsverð mikil hjá þeim
 • Sýkingar seinka eða geta komið í veg fyrir líffæraígræðslu
 • Enginn sjúklingur með ígrætt líffæri ætti að reykja og allra síst þeir sem eru með sykursýki 

... að hjá hluta þeirra sem hafa fengið ígrætt nýra er sykursýki orsök nýrnabilunarinnar?

 • Sykursýki getur með tímanum leitt til nýrnabilunar. Í slíkum tilfellum er stundum er hægt að græða bæði nýra og bris samtímis í einstakling.  Insúlíngjöf er þá í flestum tilfellum óþörf þar sem ígrædda brisið sér um insúlínstjórnunina.  Þessar aðgerðir eru stærri og flóknari en þegar einungis er um að ræða nýraígræðslu

... að ef ekki er hægt að bjarga nýranu eftir höfnun er aftur hafin skilunarmeðferð?

 • Hægt er að setja sjúkling á biðlista fyrir ígræðslu nýra ef ástand hans leyfir. Venjulega eru góðar líkur á að endurtekin nýraígræðsla heppnist.  Eftir endurteknar ígræðslur myndast ofstast mótefni gegn vefjaflokkum sem gera það að verkum að erfiðara er að finna nýra sem hentarr

... að hægt er að græða nýra í mjög ung börn?

 • Oftast fá börn nýra frá lifandi gjafa.  Barn sem er 10 kíló að þyngd getur venjulega þegið nýra frá fullorðnum
 • Hjá litlum börnum er nýrað sett inn í kviðarholið
 • Hjá stærri börnum er nýrað sett neðst í kviðarholið, utan lífhimnu og blóðrásin tengd við æðar í nára eins og hjá fullorðnum
 • Sérfræðingar í nýrnasjúkdómum barna á Barnaspítala Hringsins veita upplýsingar um nýraígræðslur hjá börnum

... að órói og vanlíðan getur verið mikill hjá börnum og unglingum sem bíða eftir ígræðslu?

 • Langvarandi veikindi hafa áhrif á líðan og starfsgetu barna og unglinga.  Það er því mikilvægt að vera vakandi fyrir vanlíðan þeirra og að sjá til þess að börn og unglingar fái aðstoð við að ráða fram úr vandamálum sem kunna að vera fyrir hendi.  Stuðningur við fjölskyldur langveikra barna og unglinga er einnig nauðsynlegur
 • Lyfjagjöf fyrir og eftir ígræðsluaðgerð getur valdið breytingum á útliti og þroska líkamans. Best er að tala við heilbrigðisstarfsfólk um þessi vandamál. Þá getur einnig verið gagnlegt að ræða við skólastjórnendur og kennara til að þeir séu upplýstir og meðvitaðir um stöðu og vandamál þessara einstaklinga