Leit
Loka

Hagnýtar upplýsingar

Það er hægt að hjálpa þér!

Þegar þér líður mjög illa finnst þér kannski að enginn skilji þig.

Mikil vanlíðan getur haft þau áhrif að þú farir að trúa því að öllum sé sama um þig. 

Kannski þekkirðu þessa tilfinningu og finnst jafnvel ólíklegt að einhver sem þú hefur aldrei hitt áður, hafi raunverulegan áhuga á að hlusta á þig eða geti hjálpað þér. 

Þú hefur ef til vill reynt að leita til foreldra þinna og ekki fundist þeir skilja þig nógu vel. Þú getur samt verið viss um að mörgum er umhugað um hvernig þér líður og vilja gjarnan reyna að hjálpa þér.

Fagfólk sem vinnur með unglingum í vanda gerir sitt besta til að hjálpa þeim og
foreldrum þeirra. 

Þessar leiðbeiningar eru fyrir unglinga sem líður illa, eru jafnvel með hugsanir um að vilja ekki lifa eða löngun til að skaða sig.

Leiðbeiningarnar geta hjálpað þér að skilja betur það sem þú ert að ganga í gegnum og veita upplýsingar um hvaða aðstoð er í boði.

Það getur verið erfitt fyrir þig að segja frá mikilli vanlíðan, erfiðum og oft ruglingslegum hugsunum og tilfinningum, hvort sem þú talar við foreldra þína eða fagfólk. 

Við vitum þó að það hjálpar að segja frá og stundum er það besta leiðin til að komast í gegnum erfiðleika. 

Það er mikilvægt að fá stuðning frá foreldrum eða öðrum fullorðnum sem þú
getur talað við og treyst.

Þótt vinir geti verið hjálpsamir þá eru þeir oft ekki færir um að aðstoða þig þegar þér líður mjög illa og það er heldur ekki þeirra hlutverk. 

Flestir unglingar geta leitað til foreldra sinna en ef þér finnst þú ekki geta leitað til þinna foreldra geturðu hugleitt að fá stuðning frá öðrum, s.s. ættingjum, kennara þínum, námsráðgjafa, skólahjúkrunarfræðingi, æskulýðsfulltrúa eða ef þú hefur aðgang að félagsráðgjafa geturðu leitað til hans.

Ef þú notar sjálfsskaða sem leið til að takast á við erfiðleika, og þig langar til að hætta því, getur það stundum reynst erfitt.

Ýmislegt er til ráða og það er hjálplegt að fá aðstoð við að segja frá og finna færar leiðir til að draga úr, eða hætta að skaða sjálfa/n sig.

Það er hægt að hjálpa þér og foreldrum þínum að skilja ástæður þess að þú skaðar þig og hvernig þú getur tekist á við erfiðar hugsanir og tilfinningar á annan hátt. 

Einnig geta foreldrar þínir fengið leiðbeiningar um hvernig þeir geta stutt þig sem best.

Kannski ertu ekki tilbúin/n að prófa nýjar aðferðir og leiðir núna og það er allt í lagi því þú getur geymt þessar upplýsingar þangað til þér finnst þú vera tilbúin/n.

Þú og foreldrar þínir fáið viðtal við starfsmann sem er reyndur hlustandi og þekkir vel vanda unglinga með sjálfsskaðahegðun og áhyggjur foreldra af líðan þeirra.

Starfsmaðurinn mun gefa sér góðan tíma og byrja á að ræða við þig og foreldra þína saman. Hann mun leggja sig fram um að skilja vandann og sýna ykkur stuðning. 

Hann mun líka ræða einslega við þig til að skilja sem best líðan þína og aðstæður út frá þínu sjónarhorni. 

Hann mun hjálpa þér að segja frá, ekki hneykslast á neinu sem þú segir og
ekki dæma þig. 

Síðan mun hann ræða við þig og foreldra þína saman og gera með ykkur áætlun um þann stuðning sem hentar bæði þér og foreldrum þínum. 

Þið munuð fá upplýsingar um það hvar viðeigandi stuðningur stendur ykkur til boða, s.s. á heilsugæslustöð, í félagsþjónustu, hjá sérfræðingi á stofu eða frekari meðferð á BUGL ef starfsmaðurinn metur vandann þess eðlis.

Það hjálpar að segja frá og tala við einhvern sem hefur þekkingu, reynslu og færni í að aðstoða unglinga í vanda og foreldra þeirra. 

Þótt foreldrar þínir séu allir af vilja gerðir til að aðstoða þig er ekki víst að þér finnist gagnlegt að leita til þeirra því áhyggjur þeirra geta gert það að verkum að þeir vita ekki hvernig þeir geta hjálpað þér.

Þegar unglingum líður mjög illa finnst þeim stundum að þeir hafi engan til að leita til og líður eins og þeir geti ekki talað við neinn, ekki einu sinni við foreldra, vini eða ættingja.

Oftast er þó einhver nákominn til staðar sem vill gjarnan hlusta og reyna að hjálpa. 

Til þess þarf viðkomandi að vita hvernig unglingnum líður.

Þegar þér líður mjög illa og hefur ef til vill þörf fyrir að skaða þig getur verið hjálplegt að:

  • Tala við foreldra, vin eða ættingja
  • Hafa samband heilsugæslu
  • Hafa samband við bráðamóttöku á næsta sjúkrahúsi eða BUGL
  • Hafa samband við einhvern af listanum hér fyrir neðan

Já, það er ýmislegt hægt að gera. Þú getur til dæmis útbúið svokallaða öryggisáætlun ef þú upplifir hugsanir um að skaða þig.

Öryggisáætlun er áætlun sem hjálpar þér að gæta öryggis og inniheldur leiðbeiningar um hvað þú ætlar að gera og/eða við hvern þú ætlar að tala þegar þér líður illa og hefur ef til vill þörf fyrir að skaða þig.

 Öryggisáætlunin er líkleg til að virka vegna þess að þú hefur gert hana og valið hvað þú ætlar að gera og hvaða stuðning þú þarft. 

Oft er gagnlegt að fá einhvern í fjölskyldunni, vin eða fagaðila til þess að hjálpa þér að búa til áætlunina. 

Geymdu hana svo þar sem þú sérð hana reglulega eða þar sem auðvelt er að ná í hana. 

Skrifaðu niður það sem þú ætlar að gera til að tryggja öryggi þitt.

Fylgdu svo áætluninni.

Þeir sem veita einstaklingum og fjölskyldum þeirra sem glíma við, sjálfsvígshugsanir og sjálfsskaðahegðun stuðning eru:

  • Heilsugæslustöðvar
  • Bráðamóttökur sjúkrahúsa
  • Hjálparsími Rauða Krossins
  • Barna- og unglingageðdeild BUGL

ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI - BUGL JÚLÍ 2017

ÁBYRGÐARMENN: UNNUR HEBA STEINGRÍMSDÓTTIR OG VILBORG G. GUÐNADÓTTIR

UMSJÓN: HUGRÚN HRÖNN KRISTJÁNSDÓTTIR

 HEITI Á FRUMMÁLI: FEELING ON THE EDGE ÞÝTT OG STAÐFÆRT: MEÐ LEYFI ROYAL COLLEGE OF PSYCHIATRISTS (WWW.RCPSYCH.AC.UK/INFO)

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?