Hægðir

Hér verður gerð grein fyrir áhrifum krabbameinsmeðferðar á hægðir.
Hægðatregða er algengt vandamál sem oft er hægt að koma í veg fyrir eða meðhöndla. Mikilvægt er að láta vita á deildinni ef breyting verður á hægðum.

Hvað er hægðatregða?

Eðlilegar hægðir eru mjúkar og formaðar. Það er einstaklingsbundið hversu oft hægðalosun á sér stað. Hægðalosun tvisvar á dag eða á nokkurra daga fresti og allt þar á milli er talin eðlileg. Sá sem hefur hægðir sjaldnar en á 3-­5 daga fresti, eða hefur mjög harðar hægðir og minna magn en venjulega, er talinn vera með hægðatregðu. Hægðatregðunni getur fylgt þaninn kviður, verkir í kviði og við endaþarm, ógleði og niðurgangur (framhjáhlaup).

Orsakir hægðatregðu.

Orsakir hægðatregðu geta verið margar. Þar má nefna það að einstaklingurinn hafi drukkið of lítinn vökva, borðað lítið, hreyft sig lítið eða breytt um umhverfi. Einnig getur orsökin verið regluleg notkun ýmissa lyfja, t.d. verkjalyfja sem draga úr hreyfingum þarmanna. Auk þess getur hægðatregða verið bein afleiðing ákveðinna sjúkdóma. 

Nokkur bjargráð.


Vökvi.
Mikilvægt er að drekka mikinn vökva. Oft er betra að drekka lítið í einu en oftar, t.d. 1 glas á 1-2 tíma fresti. Mikilvægt er að velja þá drykki sem barnið eða unglinginn langar í. Fyrir þá sem þurfa á hitaeiningum að halda getur verið gott að drekka djús, heitt súkkulaði og næringardrykki. Við hægðatregðu reynist sumum vel að drekka sveskjusafa fyrir morgunmat. 

Fæði.
Trefjar eru kolvetni sem koma ómelt niður í ristilinn og stuðla að því að meltingarfærin starfi eðlilega. Mikilvægt er að hafa trefjar í daglegu fæði, þær draga m.a. til sín vatn og mýkja þannig hægðirnar. Trefjar eru í ávöxtum, grænmeti, grófu mjöli og korni. Reyndu því að auka neyslu á t.d. grófu brauði, hveitiklíði, hörfræi, grænmeti og ávöxtum, t.d. rúsínum, sveskjum, fíkjum og eplamauki. Að borða á ákveðnum og sömu tímum á hverju degi getur hjálpað til við að koma á reglulegri hægðalosun.

Hreyfing.
Mikilvægt er að barnið eða unglingurinn hreyfi sig eftir getu og ástandi, því öll hreyfing er til góðs.

Hægðalosun.
Takið eftir því hvenær dagsins barnið hefur hægðir og kennið því að fara á klósettið þegar þörfin gerir vart við sig. Mörgum finnst hjálplegt að fara á klósettið á sama tíma á hverjum degi. Strax eftir morgunverð er oft góður tími. Það skiptir máli að barnið hafi þægilega stellingu á klósettinu, með fæturna á gólfinu eða á skemli. Mikilvægt er að taka þann tíma sem þarf.
Við innlögn á sjúkrahús er algengt að hægðavenjur breytist og getur þá reynst nauðsynlegt að nota hægðalyf eða auka við hægðalyfin tímabundið.

Hægðalyf.
Ef barnið eða unglingurinn hefur átt erfitt með hægðir, hefur ekki haft hægðir í 3-5 daga eða ef hægðirnar eru mjög harðar, ætti að huga að notkun hægðalyfja. Mikilvægt er að ræða það fyrst við lækninn eða hjúkrunarfræðinginn. Til eru margar gerðir hægðalyfja og mismunandi hvað hentar hverjum og einum. Lyfin eru ýmist rúmmálsaukandi og mýkjandi eða örvandi. Með sumum þeirra þarf að drekka sérstaklega vel. Sum hægðalyf er einungis hægt að fá með lyfseðli. 


Unnið af Svandísi Írisi Hálfdánardóttur hjúkrunarfæðingi, 1999. Breytt og staðfært árið 2002 af Sigrúnu Þóroddsdóttur og Önnu Ólafíu Sigurðardóttur hjúkrunarfræðingum á Barnaspítala Hringsins. Yfirfarið 2013.


Sum krabbameinslyf valda niðurgangi vegna skaða sem þau valda á slímhúð meltingarvegarins eða þegar fækkun verður á hvítum blóðkornum. Þetta hvort tveggja er tímabundið ástand. 

Hægðirnar verða þá mjög linar eða vatnskenndar, og koma oftar en tvisvar á sólarhring og stundum fylgja þeim verkir og hiti. Það er svo háð tegund og skammtastærð lyfjanna hversu mikill og langvarandi niðurgangurinn verður.

Dæmi um lyf sem geta valdið niðurgangi eru methotrexat, fluorouracilum og doxorubicin. Niðurgangur getur leitt til máttleysis, svima, þyngdartaps, næringar- og vökvaskorts, breytinga á salt- og steinefnabúskap líkamans, og særinda í og við endaþarm. 

Mikilvægt er að láta vita um leið og vart verður við niðurgang eða önnur óþægindi, svo sem uppþembu, verki eða hita (> 38°c). Einnig ef vart verður við svima, blóð í hægðum eða dökkt þvag. 

Nauðsynlegt getur verið að taka hægðasýni til rannsóknar, breyta mataræði eða taka lyf til að stöðva niðurganginn. 

Nokkrar ráðleggingar 

Mikilvægt er að draga úr vökvatapi líkamans. Drekktu vel af vökva, veldu: vatn, sykur-saltvatn (fæst í apótekum), sódavatn, tærar súpur t.d. kjötseyði, hrísgrjóna-og hafraseyði síaða bláberja- eða eplasúpu. Mikilvægt er að drekka vel á milli máltíða. 
Það er misjafnt hversu vel einstaklingar þola mjög feitan mat og mjólkurvörur. Notið AB mjólk, LGG+ eða sambærilegt á hverjum degi. Mikilvægt er að borða fjölbreyttan mat og tyggja vel. 

Borða oft og smáar máltíðir, 6-8 sinnum yfir daginn. Borða spaghettí, pasta, hrísgrjón, egg (soðin þar til hvítan er stíf), soðið grænmeti, þroskaða banana, franskbrauð, kjúkling og kalkún, kotasælu og léttjógúrt. Ráðlegt er að sjóða og ofnbaka mat fremur en að steikja. Forðist sykurríka drykki og matvörur og mjög heita eða mjög kalda drykki. Forðist: sveskjur og sveskjusafa, súkkulaði, poppkorn, sterkt kryddaðan mat, hnetur og hrátt grænmeti. Gott getur verið að drekka næringardrykki. Leitaðu frekari upplýsinga hjá næringarfræðingi/ráðgjafa eða hjúkrunarfræðingi. 

Húðhirða við endaþarminn

Við langvarandi niðurgang getur húðin við endaþarminn orðið viðkvæm og sár geta myndast. Nauðsynlegt er að halda svæðinu eins hreinu og kostur er, þvo vel með mildri sápu eða sleppa sápunni og þurrka með mjúkum klút. Gott er að nota barnaklúta án ilmefna sem hægt er að kaupa í matvöru og lyfjaverslunum. Bera síðan á húðina feitan áburð eða krem sem hrindir frá sér raka, t.d. A-D krem, júgursmyrsl, vaselín, Natusan salva eða Penaten í samráði við hjúkrunarfræðing eða lækni. 

Unnið af Nínu Hrólfsdóttur hjúkrunarfræðingi, 1998. Yfirfarið af Sigrúnu Þóroddsdóttur og Önnu Ólafíu Sigurðardóttur hjúkrunarfræðingum á Barnaspítala Hringsins árið 2002 Yfirfarið árið 2013.