Hvað gerist í líkamanum

Hér eru upplýsingar um hvað gerist í líkamanum meðan á krabbameinsmeðferð stendur og ýmis bjargráð við fækkun á blóðflögum og fækkun á hvítum og rauðum blóðkornum.

Blóðflögur myndast í beinmergnum og þær taka þátt í storknun blóðsins. Þegar æð rofnar verður blæðing. Blóðflögurnar mynda þá blóðflögutappa með því að loða við rifuna á æðinni og hver við aðra. Ef blóðflögurnar eru fáar er aukin hætta á blæðingu. Mörg krabbameinslyf og stundum geislameðferð hafa áhrif á beinmerginn og geta valdið fækkun á blóðflögum. 

Hætta á blæðingu er lítil ef blóðflögur eru fleiri 50 þúsund en mikil ef blóðflögur eru færri en 10 þúsund. Þegar blóðflögur fara niður fyrir 50 þúsund er mikilvægt að fara varlega til að komast hjá óhöppum. Það er einstaklingsbundið hvenær blóðflögur hafa náð lágmarki en oft er það á 10. til 14. degi eftir lyfjameðferðina. Blæðing getur orðið hvar sem er í líkamanum. Það er mikilvægt að fylgjast með einkennum og láta vita ef þau gera vart við sig.

Einkenni blæðinga - Hafið samband við deildina ef vart verður við:

· húðblæðingar, þær koma fram sem litlir rauðir dílar, aðallega á handleggjum og fótleggjum
· blæðingu frá tannholdi
· nefblæðingu
· blóð í uppköstum
· svartar hægðir
· blóð í þvagi
· höfuðverk eða kviðverk

Bjargráð:

· Fara varlega með oddhvassa hluti.
· Nota mjúkan tannbursta.
· Ef blóðflögur eru færri en 20 þúsund er gott að nota sérstaka munnhreinsisvampa eða munnskol í stað tannbursta.
· Snýta sér varlega.
· Ekki kroppa í sár.
· Nota krem á þurra húð og fylgjast vel með húðinni.
· Halda hægðum mjúkum, drekka vel og nota hægðalyf samkvæmt ráðleggingum.
· Nota hvorki endaþarmsstíla né endaþarmshitamæla.
· Ekki nota lyf sem innihalda acetýlsalisýlsýru (aspirín) t.d. Magnýl.
· Mikilvægt er að þrýsta á blæðingastaði í 5 til 10 mínútur eftir t.d. blóðsýnatökur
· Stundum getur þurft að gefa blóðflögur.

Unnið af Sigrúnu Önnu Jónsdóttur og Guðrúnu Jónsdóttur, hjúkrunarfræðingum, 1998. Breytt og staðfært árið 2002 af Sigrúnu Þóroddsdóttur og Önnu Ólafíu Sigurðardóttur hjúkrunarfræðingum á Barnaspítala Hringsins. Yfirfarið síðast 2013
Hvít blóðkorn myndast í beinmerg og eru hluti af varnarkerfi líkamans. Það eru á bilinu 3,8 til 10,2 þúsund hvít blóðkorn í hverjum mm3 blóðs. Til eru nokkrar tegundir hvítra blóðkorna og líftími þeirra er breytilegur. Hvítu blóðkornin drepa sýkla ef þeir komast í líkamann. "Neutrofilar" eru ein tegund hvítra blóðkorna og oft kallaðar gleypifrumur. Fjöldi þeirra er á bilinu 1,8 til 6,9 þúsund í hverjum mm3 blóðs. Hætta á sýkingum eykst eftir því sem hvítu blóðkornunum, sérstaklega gleypifrumum, fækkar. 
Öll höfum við okkar eigin bakteríuflóru sem lifir í sátt og samlyndi við okkur þar til varnir líkamans bregðast. Um 80% allra sýkinga stafa frá eigin bakteríuflóru. Flest krabbameinslyf hafa áhrif á beinmerginn, þó mismunandi mikil eftir tegundum lyfja og skammtastærðum. Yfirleitt er fjöldi hvítra blóðkorna minnstur 7 til 14 dögum eftir lyfjameðferð en verður eðlilegur 8 til 10 dögum þaðan í frá. Sum lyf hafa síðbúna verkun á beinmerg (14 til 60 dagar). Geislameðferð hefur stundum áhrif á merginn.

Helstu sýkingarstaðir eru:

Slímhúð í munni, lungu, húð, þvagfæri, endaþarmur og blóð. Þegar hvítu blóðkornin eru fá er ekki víst að barnið eða unglingurinn verði var við roða og bólgu. Hiti er stundum eina einkennið. 

Einkenni sýkinga:

Ef eitthvert eftirfarandi einkenna kemur fram er mikilvægt að hafa samband við deildina. Þá getur þurft að taka blóðprufu, og ef til vill að gefa sýklalyf: 
 • Hiti 38°C eða hærri og hrollur. 
 • Hósti með eða án uppgangs, brjóstverkur. 
 • Særindi í hálsi eða munni. 
 • Særindi við þvaglát. 
 • Niðurgangur. 
 • Eymsli við endaþarm. 
 • Eymsli við æðalegg. 
 • Almenn flensueinkenni. 
 • Ef barnið eða unglingurinn sker sig eða fær sár, hvar sem er á líkamanum. 

Bjargráð: 

Til að draga úr hættu á sýkingum er mikilvægt að hafa í huga og fara eftir eftirtöldum ráðleggingum:

 • Gott hreinlæti, handþvottur fyrir máltíðir og eftir salernisferðir. 
 • Forðast margmenni meðan hvítu blóðkornin eru fá. 
 • Forðast fólk með smitsjúkdóma. 
 • Góð munnhirða er nauðsynleg, nota munnskol og mjúkan tannbursta. 
 • Ekki kreista bólur eða sár. 
 • Halda hægðum mjúkum. Drekka vel, og nota hægðalyf eftir þörfum. 
 • Athugið að Parasetamol og fleiri lyf hafa hitalækkandi áhrif, látið líða a.m.k. 4 klst. frá síðustu töku slíkra lyfja áður en barnið er mælt. 
 • Stundum eru gefin lyf sem örva myndun hvítra blóðkorna. 

Unnið af Sigrúnu Önnu Jónsdóttur og Guðrúnu Jónsdóttur, hjúkrunarfræðingum, 1998. Breytt og staðfært árið 2002 af Sigrúnu Þóroddsdóttur og Önnu Ólafíu Sigurðardóttur hjúkrunarfræðingum á Barnaspítala Hringsins. Yfirfarið 2013.


Rauðu blóðkornin myndast í beinmerg. Þau innihalda blóðrauða (hemóglóbín, Hb) sem sér um að flytja súrefni frá lungunum til vefja líkamans. Meðferð með flestum krabbameinslyfjum veldur mergbælingu og þar af leiðandi minni framleiðslu rauðra blóðkorna. Þetta orsakar blóðleysi. Í daglegu tali er rætt um lækkun á hemóglóbíni.

Geislameðferð getur haft áhrif á beinmerginn ef geislað er á bringubein, hrygg eða mjaðmagrind. Líftími rauðra blóðkorna er u.þ.b.120 dagar og fækkar þeim því hægar en hvítum blóðkornum og blóðflögum.

Einkenni blóðleysis:

Einkenni blóðleysis eru mörg og fara m.a. eftir því hversu hratt hemóglóbín lækkar.

Hafðu samband við deildina ef eftirtalin einkenni gera vart við sig:

 • Þreyta og slappleiki 
 • Svefnhöfgi 
 • Mæði við hreyfingu og í hvíld 
 • Mikill húðfölvi 
 • Höfuðverkur og suð fyrir eyrum 
 • Verkur fyrir brjósti 
 • Svimi 

Bjargráð:

 • Vertu vakandi fyrir einkennum. 
 • Ætlaðu þér ekki of mikið, mikilvægt er að hvílast vel og fá nægan svefn. 
 • Hreyfðu þig rólega, ekki rísa snöggt upp. 
 • Blóðgjöf er oft nauðsynleg


Unnið af Sigrúnu Önnu Jónsdóttur og Guðrúnu Jónsdóttur, hjúkrunarfræðingum, 1998. Breytt og staðfært árið 2002 af Sigrúnu Þóroddsdóttur og Önnu Ólafíu Sigurðardóttur hjúkrunarfræðingum á Barnaspítala Hringsins. Yfirfarið 2013.