Kynlíf

Hér eru upplýsingar ætlaðar unglingum sem hafa fengið krabbameinslyfjameðferð eða geislameðferð.

Karlmenn í geislameðferð vegna krabbameins í endaþarmi, þvagblöðru eða blöðruhálskirtli geta fundið fyrir eftirfarandi einkennum: 
  • minni kynlífslöngun 
  • minni kyngeta
  • minni frjósemi

Minnkuð kynlífslöngun

Geislameðferð við krabbameini er oftast engin hindrun fyrir eðlilegu samlífi. Andleg vanlíðan og aukaverkanir geislameðferðar svo sem þreyta, þróttleysi og slen geta valdið því að löngun til kynlífs minnkar. Breytt líkamsímynd getur einnig haft sömu áhrif. Líkamsímynd breytist t.d. oft vegna þyngdartaps, fölva eða þurrar og viðkvæmrar húðar, sérstaklega á og í kringum geislasvæðið. Þegar geislameðferð lýkur hverfa aukaverkanir smátt og smátt og þá kemur löngunin yfirleitt aftur með tímanum.

Minnkuð kyngeta - getuleysi

Geislameðferð getur raskað getu limsins til að verða stinnur við kynferðislega ertingu (og löngun) eða að hann viðhaldi stinningu sinni. Getuleysi sem upp getur komið er misalvarlegt og fer eftir geislaskammtinum og tímalengd meðferðarinnar. Mikilvægt er að þú ræðir við lækninn þinn eða þvagfærasérfræðing ef þetta verður vandamál hjá þér, því ýmsar leiðir eru til úrbóta.

Breyting á frjósemi

Geislun á eistun getur valdið varanlegri ófrjósemi. Ef þetta veldur þér áhyggjum varðandi framtíðaráætlanir, er mikilvægt að þú ræðir það við lækninn þinn áður en geislameðferð hefst. Mögulegt er að geyma fryst sæði. 

Það getur skipt miklu máli, að þú ræðir við einhvern um þau vandamál, sem upp koma, svo auðveldara verði að finna lausn á þeim. Fagfólk deildarinnar er ávallt reiðubúið til aðstoðar. 

Kynlíf einskorðast ekki við það að hafa samfarir. Samfarir eru ekki alltaf nauðsynlegar. Flestir geta verið án þeirra í skemmri eða lengri tíma. Snerting, nálægð og væntumþykja er stór hluti kynlífs og getur skipað stærri sess en samfarir meðan á meðferðinni stendur. Unnið af Herdísi Jónasdóttur, Dóru Halldórsdóttur og Ásdísi Emilsdóttur, hjúkrunarfræðingum, 1998. Breytt og staðfært af Sigrúnu Þóroddsdóttur og Önnu Ólafíu Sigurðardóttur hjúkrunarfræðingum á Barnaspítala Hringsins, árið 2002. Yfirfarið 2013.

Að fá krabbamein og vera í geislameðferð er oftast engin hindrun fyrir eðlilegu samlífi. Áhrif geislameðferðar á getu og löngun til samlífs eru yfirleitt ekki mikil nema þegar geislað er beint á kynfærin. Þegar geislum er beint að mjaðmagrindarsvæðinu eru ytri kynfæri yfirleitt utan meðferðasvæðisins. 

Andleg vanlíðan og aukaverkanir geislameðferðar, svo sem þreyta og slen geta valdið því að löngun til kynlífs minnkar. Einnig getur breytt líkamsímynd haft sömu áhrif. Breyting á líkamsímynd verður t.d. oft vegna þyngdartaps, fölva, þurrar og viðkvæmrar húðar, sérstaklega við og í kringum geislasvæðið. Eftir að geislameðferð er hætt og aukaverkanir hennar dvína og hverfa, kemur löngunin yfirleitt aftur með tímanum. 

Það getur skipt miklu máli, að þú ræðir við einhvern um þau vandamál, sem upp koma, svo auðveldara verði að finna lausn á þeim. Fagfólk deildarinnar er ávallt reiðubúið til aðstoðar. 

Kynlíf einskorðast ekki við það að hafa samfarir. Samfarir eru ekki alltaf nauðsynlegar. Flestir geta verið án þeirra í skemmri eða lengri tíma. Snerting, nálægð og væntumþykja er stór hluti kynlífs og getur skipað stærri sess en samfarir meðan á meðferðinni stendur. 

 

Unnið af Herdísi Jónasdóttur, Dóru Halldórsdóttur og Ásdísi Emilsdóttur, hjúkrunarfræðingum, 1998. Breytt og staðfært af Sigrúnu Þóroddsdóttur og Önnu Ólafíu Sigurðardóttur hjúkrunarfræðingum á Barnaspítala Hringsins, árið 2002. Yfirfarið árið 2013.

Krabbameinslyfjameðferð getur valdið eftirfarandi:

  • minnkaðri kynlífslöngun
  • aumri og þurri slímhúð í leggöngum
  • vandamálum sem tengjast fækkun blóðfruma
  • breytingu á tíðahring og frjósemi

Minnkuð kynlífslöngun


Að fá krabbamein og vera í krabbameinslyfjameðferð er öllu jafna engin hindrun fyrir eðlilegu samlífi. Andleg vanlíðan ásamt aukaverkunum krabbameinslyfja, svo sem ógleði, uppköstum, þreytu og þróttleysi, geta valdið því að löngun til kynlífs minnkar hjá þér. Einnig getur breytt líkamsímynd haft sömu áhrif. Breyting á líkamsímynd getur orðið t.d. vegna þyngdartaps og hármissis.

Aum og þurr slímhúð í leggöngum

Mörg krabbameinslyf hafa áhrif á slímhúð líkamans. Slímhúðin í leggöngunum verður oft þurr, aum og viðkvæm. Einnig getur átt sér stað minnkuð tilfinning við snertingu og að kynfæri blotna ekki við kynferðislega ertingu. Þetta getur valdið sársauka við samfarir og erfiðleikum við að ná fullnægingu. Ef leggöngin eru þurr er hægt að nota rakakrem. Mikilvægt er að kremið sé vatnsleysanlegt og innihaldi ekki olíu eða fitu. Krem eru notuð á mismunandi hátt eftir tegundum, þess vegna skaltu tala við hjúkrunarfræðing eða lækni um notkun þeirra. Gagni þetta ekki skaltu ráðfæra þig við krabbameins- eða kvensjúkdómalækni um það hvort lyf sem innihalda kvenhormón (estrógen) henti þér. Estrógen viðheldur eðlilegri slímhúð í leggöngum. Það er til sem töflur, stílar, krem, plástrar og sílikonhringur sem settur er upp í leggöngin.

Fækkun á blóðfrumum

Krabbameinslyfjameðferð getur valdið fækkun á hvítum og rauðum blóðkornum og blóðflögum. Ef mikil fækkun verður á blóðflögum geta tíðablæðingar orðið meiri en venjulega og varað lengur. Við fækkun á hvítum blóðkornum er hætta á sýkingum. Meðan þetta ástand varir, er ekki ráðlegt að þú hafir samfarir.

Breytingar á tíðarhring og frjósemi

Krabbameinslyfjameðferð getur valdið breytingu á tíðarhringnum og tíðahvarfseinkennum svo sem óreglulegum blæðingum og jafnvel blæðingastoppi. Einnig getur hún valdið ótímabærum tíðahvörfum hjá konum sem eru 40 ára og eldri en þetta gengur yfirleitt til baka hjá yngri konum. Einkennin eru hita- og svitakóf, þreyta, pirringur, svefntruflanir, þurrkur í slímhúð leggangna og þvagrásar og stundum geta komið smávægilegar blæðingar eftir samfarir.

Mikilvægt er að þú ræðir við lækninn þinn ef þú finnur fyrir ofangreindum kvillum. Sum krabbameinslyf hafa áhrif á hormónaframleiðslu eggjastokkanna. Einnig geta sum hormónalyf sem eru notuð við krabbameinslækningar aukið á frjósemi kvenna. Ekki er ráðlagt að verða þunguð meðan á lyfjameðferð stendur. Mikilvægt er að ræða við lækninn um æskilega getnaðarvörn.

Krabbameinslyfjameðferð getur einnig valdið tímabundinni, en sjaldan varanlegri ófrjósemi. Ef þetta veldur þér áhyggjum varðandi framtíðaráætlanir er mikilvægt að þú ræðir það við lækninn þinn áður en lyfjameðferð hefst.

Það getur skipt miklu máli, að þú ræðir við einhvern um þau vandamál, sem upp koma, svo auðveldara verði að finna lausn á þeim. Fagfólk deildarinnar er ávallt reiðubúið til aðstoðar. Kynlíf einskorðast ekki við það að hafa samfarir. Samfarir eru ekki alltaf nauðsynlegar. Flestir geta verið án þeirra í skemmri eða lengri tíma. Snerting, nálægð og væntumþykja er stór hluti kynlífs og getur skipað stærri sess en samfarir meðan á meðferðinni stendur

Oftast nær hefur krabbameinslyfjameðferð ekki mikil áhrif á kynlíf hjá karlmönnum, en getur þó valdið eftirfarandi:
  • minnkaðri kynlífslöngun 
  • viðkvæmri húð á getnaðarlimi 
  • minnkaðri frjósemi

Minnkuð kynlífslöngun 


Að fá krabbamein og vera í lyfjameðferð er öllu jafna engin hindrun fyrir eðlilegu samlífi. Andleg vanlíðan ásamt aukaverkunum krabbameinslyfja, svo sem ógleði, uppköst, þreyta og þróttleysi, geta valdið því að löngun til kynlífs minnkar hjá þér. Einnig getur breytt líkamsímynd haft sömu áhrif. Breyting á líkamsímynd getur t.d. orðið vegna hármissis og þyngdartaps. Eftir að lyfjameðferð er hætt og aukaverkanir dvína og hverfa, kemur löngunin yfirleitt aftur með tímanum.

Viðkvæm húð getnaðarlims


Mörg krabbameinslyf hafa áhrif á húð og slímhúðir líkamans. Slímhúðin fremst á limnum og í þvagrásinni verður oft þurr, aum og viðkvæm. Verði húðin á limnum aum, er rétt að bíða með samfarir og ráðfæra sig við lækni.

Minnkuð frjósemi


Krabbameinslyfjameðferð getur valdið tímabundinni eða jafnvel varanlegri ófrjósemi og fer þetta eftir lyfjategundum, skammtastærðum og tímalengd lyfjameðferðarinnar. Ef þetta veldur þér áhyggjum varðandi framtíðaráætlanir, er mikilvægt að þú ræðir þetta við lækninn þinn, áður en lyfjameðferðin hefst. Mögulegt er að geyma fryst sæði. Mikilvægt er að nota smokka við samfarir meðan á krabbameinslyfjameðferð stendur. Meginrökin eru þau að sum krabbameinslyf geta borist tímabundið í sæði. 

Krabbamein smitast þó ekki við samfarir. Vegna áhrifa krabbameinslyfja á sæðisfrumur er mælt með getnaðarvörnum í a.m.k. 2 ár eftir að meðferð er lokið. Það getur skipt miklu máli að þú ræðir við einhvern um þau vandamál, sem upp koma, svo auðveldara verði að finna lausn á þeim. Fagfólk deildarinnar er ávallt reiðubúið til aðstoðar. 

Kynlíf einskorðast ekki við það að hafa samfarir. Samfarir eru ekki alltaf nauðsynlegar. Flestir geta verið án þeirra í skemmri eða lengri tíma. Snerting, nálægð og væntumþykja er stór hluti kynlífs og getur skipað stærri sess en samfarir meðan á meðferðinni stendur. 

 

 

Unnið af Herdísi Jónasdóttur, Dóru Halldórsdóttur og Ásdísi Emilsdóttur, hjúkrunarfræðingum, 1998. Breytt og staðfært af Sigrúnu Þóroddsdóttur og Önnu Ólafíu Sigurðardóttur hjúkrunarfræðingum á Barnaspítala Hringsins, árið 2002. Yfirfarið 2013.