Áhrif - Kynjamunur

Flestir rannsakendur sem hafa skoðað kynjamun hafa komist að þeirri niðurstöðu að kynin bregðast ólíkt við álagi og nota mismunandi aðferðir til að vinna úr því, hvort sem um lærða hegðun er að ræða eða ekki. Rannsakendur eru ekki sammála um áhrif krabbameins barna á líðan foreldra, þar sem sumir hafa sýnt fram á meira þunglyndi og kvíða meðal mæðra en feðra sem er í raun sambærilegt því sem almennt gerist í þjóðfélaginu, en aðrir greina engan slíkan mun.

Að viðhalda fjölskyldustarfsemi þegar barn er með krabbamein felst í því að tvinna saman fyrri verkefnum og umönnun veika barnsins. Foreldrarnir hafa í mörg horn að líta og þurfa að forgangsraða verkefnum. Líðan veika barnsins er oft hvað mest aðkallandi og önnur hlutverk eru oft vanrækt, sérstaklega fyrst eftir greiningu sjúkdómsins. Sagt er að hvernig fjölskyldan skiptir með sér verkum sé mikilvæg vísbending um hvernig henni takist að fást við aukið álag sem fylgir langvinnum veikindum hjá börnum. Rannsakendur sem skoðuðu hugsanlegan kynjamun foreldra krabbameinsveikra barna, hvað varðar upplifun og viðbrögð þeirra við veikindunum komust að eftirfarandi niðurstöðum þar sem fimm meginverkefni voru greind sem foreldrarnir fengust við:

1) Að fást við læknisfræðilega hlið veikindanna. Felst í samskiptum við heilbrigðisstarfsfólk, gefa lyf, fara á meðferðarstofnunina og fleiri verk tengd því. Foreldrarnir voru sammála að það væri mikilvægasta verkefnið en mæðurnar töldu það einnig tímafrekast, mest streituvaldandi og þær bera persónulega meiri ábyrgð á því.

2) Fjármál heimilisins. Þar sem fengist er við aukin útgjöld í kjölfar veikindanna ásamt minni innkomu. Foreldrunum fannst það mest streituvaldandi verkefnið ásamt því að feðurnir sögðu það tímafrekast.

3) Að verja tíma með öðrum fjölskyldumeðlimum. Foreldrum fannst það jafn mikilvægt og streituvaldandi, en feður sögðu það næst tímafrekasta verkefnið sitt.

4) Að upplýsa fjölskyldu og vini. Sá hópur getur verið uppspretta mikils félagslegs stuðnings, en einnig valdið streitu með síendurteknum spurningum og mishjálplegum ráðleggingum. Mæður eru líklegri til að leita eftir félagslegum stuðningi og hafa samband við stuðningsnet sitt en feður og er þetta verkefni því meira á þeirra herðum.

5) Heimilisstörf. Foreldrarnir voru sammála um að þetta væri léttvægasta verkefnið, en mæður sögðu það tímafrekara og meira streituvaldandi en feður.
Sá kynjamunur sem fram kom í þessari rannsókn reyndist því endurspegla hefðbundin kynjahlutverk. Þar sem mæður verja meiri tíma í umönnun barnsins en feðurnir í að afla tekna fyrir heimilið. Hvort þetta endurspegli íslenskan raunveruleika skal ósagt látið.

Áhrif veikinda barns á samband foreldra

Langvinn veikindi barna hafa ýmis áhrif á samband foreldra. Auknar umönnunarkröfur kalla á að foreldrarnir leggi meira á sig til að viðhalda fjölskyldulífinu og stöðugleika í fjármálunum sem og að finni tíma fyrir hin börnin.

Ólíkt því sem margir áætla þá veldur þetta aukna álag ekki fleiri hjónaskilnuðum en það sem almennt gerist í þjóðfélaginu. Miklar breytingar verða þó jafna á sambandi þeirra. Í flestum rannsóknum greina foreldrar langveikra barna frá miklu álagi á hjónabandið og yfirleitt meiri óánægju en foreldrar heilbrigðra barna þó það sé engan veginn algilt.

Fyrstu viðbrögð við sjúkdómsgreiningunni er yfirleitt aukin samheldni og gagnkvæmur stuðningur foreldra. En afturkippir sem ógna heilsu barnsins og aðrir erfiðleikar takmarka möguleika fjölskyldunnar til að viðhalda bjartsýninni og hafa neikvæð áhrif á samband hjónanna og auka álagið. Það hversu samheldin fjölskyldan er hefur mikil áhrif á aðlögun meðlima hennar. Þar sem sterk fjölskyldutengsl auka líkurnar á því að fjölskyldan verði nánari í kjölfar sjúkdómsins.

Aðrir þættir sem hafa áhrif á ánægju foreldra með samband þeirra eru t.d.: viðbrögð barnsins við meðferð, aðlögun þess að sjúkdómsástandinu, samheldni fjölskyldunnar fyrir sjúkdómsgreiningu, truflun á fjölskyldulífinu vegna endurtekinna sjúkrahúsinnlagna, ólíkir persónuleikar foreldra og ólíkar hugmyndir um uppeldi barns með krabbamein. Foreldrar þurfa að vera meðvitaðir um nauðsyn þess að gefa sér tíma til að hlúa að sambandi þeirra þar sem auðvelt er að "týna" hvort öðru í daglegu amstri.

Unnið af Jórunni Maríu Ólafsdóttur hjúkrunarfræðingi, árið 2002, undir leiðsögn Erlu Kolbrúnar Svavarsdóttur prófessors. Yfirfarið árið 2013.