Holæðaleggur

Holæðaleggur (CVK) er örmjó slanga sem þrædd er niður í stóra bláæð. Hann er alltaf settur í á skurðstofu og sjúklingurinn er svæfður fyrst. Stungið er á bláæð og slangan þrædd inn og staðsett í skyggningu. Holæðaleggurinn er festur með saumum í húðina og umbúðir settar yfir. Aðgerðin tekur um hálfa klukkustund og að henni lokinni er alltaf tekin röntgenmynd.

Mikilvægt er að hafa samband við lækni eða hjúkrunarfræðing ef eftirtalin einkenni gera vart við sig fyrstu dagana eftir svæfingu:

  • Hiti og kuldahrollur.
  • Andþyngsli og brjóstverkur.
  • Bólga á hálsi
  • Bólga og roði kringum holæðalegginn

 

Í gegnum holæðalegg er hægt að gefa öll lyf, vökva, næringu og blóðhluta. Einnig má nota hann til að taka blóðsýni. Eftir nokun þarf fyrst að skola holæðalegginn með saltvatni og síðan með blöndu af saltvatni og blóðþynningarefni til að koma í veg fyrir blóðstorknun í honum. Þegar holæðaleggur er ekki í stöðugri notkun þarf að skola hann tvisvar til þrisvar í viku. Holæðaleggurinn getur dugað í nokkra mánuði.

Unnið af Sigrúnu Þóroddsóttur hjúkrunarfræðingi Barnaspítala Hringsins árið 2002. Yfirfarið og breytt síðast yfirfarið 2013