Skurð og svæfingadeildir

Svæfingadeildir eru við skurðstofueiningarnar í Fossvogi og við Hringbraut. Auk skurðstofanna sinna þær einnig m.a. röntgen-, geð-, bráða- og hjartadeildum ásamt mörgum sérhæfðum verkefnum á ýmsum sviðum spítalans svo sem verkjameðferð, ísetningu æðaleggja og endurlífgun.

Skurðstofur eru samtals 20 talsins í fjórum húsum. Í Fossvogi eru 8 skurðstofur og þar fara fram heila- og tauga, háls-, nef- og eyrna, æða-, lýta- og bæklunarskurðaðgerðir. Í aðalbyggingu við Hringbraut eru sjö skurðstofur þar sem fara fram almennar skurðaðgerðir, barna-, þvagfæra-, brjósthols- og augnskurðaðgerðir.

Í kvennadeildahúsinu við Hringbraut eru að auki 3 skurðstofur sem sinna kvenna- og fæðingardeild auk skurðaðgerða vegna brjóstameina. Loks eru 2 skurðstofur á dagdeild augnlækninga við Eiríksgötu þar sem fyrst og fremst eru gerðar augasteinsaðgerðir og inndælingar lyfja í augu.