Iðjuþjálfun á BUGL

Starfsemi í iðjuþjálfun er frá kl. 8:00 til 16:00 alla virka daga.
Skrifstofa: 543 4354, 543 4326, 543 4329

Yfiriðjuþjálfi á geðsviði: Auður Hafsteinsdóttir, s. 543 4004 og 825 3582 
 

Staðsetning BUGL á götukorti >>

Á BUGL er tekið á móti börnum og unglingum upp að 18 ára aldri sem eiga við geðheilsuvanda að stríða. Þar er veitt sérhæfð þjónusta sem miðar að þörfum barna og fjölskylda þeirra. Mikil samvinna er við þá sem sinna frumgreiningu, s.s. heilsugæslu og félagsþjónustu auk annarra fagaðila sem sinna barni og fjölskyldu í nærumhverfi.

Á BUGL vinna iðjuþjálfar í þverfaglegum teymum og sinna margvíslegum verkefnum á staðnum. Iðjuþjálfarnir starfa í tengslum við allar deildir, þ.e. göngudeild (almennt teymi, átröskunarteymi og vettvangsteymi) og legudeild.
Iðjuþjálfar á BUGL styðjast við hugmyndafræðina um líkan mannsins eða MOHO ásamt kenningum um skynúrvinnslu.

Hugmyndafræðin hentar með í íhlutun með börnum sem glíma við sálfélagslegan vanda. Með líkaninu má t.d. skoða þátttöku barna í leik og starfi og meta færni þeirra. Þá er einnig stuðst við kenningar um skynúrvinnslu en þær fjalla um m.a. um túlkun og úrvinnslu einstaklinga á hinum ýmsu áreitum og hvernig slíkt getur haft áhrif á þroska og lærdómsgetu þeirra. Þannig veita kenningarnar góða innsýn í hvernig hægt sé að komast til móts við þarfir barna með skynúrvinnsluvanda en stór hluti skjólstæðinga á BUGL glíma við slíkan vanda.
Þegar börn eiga erfitt með að sinna sínum daglegu verkefnum á fullnægjandi hátt hafa þau mögulega þörf fyrir iðjuþjálfun. Algengt er að sú færni breytist í kjölfar sjúkdóms eða álags. Börn geta átt erfitt með að annast sig og eiga samskipti við foreldra og vini, stunda skólann, sinna áhugamálum sínum eða njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða. Iðjuþjálfi metur þessa færni við iðju.

Hér er átt við þátttöku barnsins og færni við að inna af hendi dagleg viðfangsefni á heimili, í skóla, við leik og tómstundaiðju. Ýmsir umhverfisþættir eru athugaðir og metið hvort þeir ýta undir eða torvelda þátttöku og virkni. Til þess að afla upplýsinga um ofangreinda þætti eru notuð ýmis matstæki. Kröfur eru aðlagaðar að getu hvers og eins og barninu kennt að nýta styrkleika sína.

Markmiðið er að styrkja sjálfsmynd og stuðla að aukinni vellíðan til að barnið verði betur í stakk búið til að takast á við fjölbreytt verkefni. Íhlutunin er ávallt skjólstæðingsmiðuð og er veitt bæði sem einstaklings- og hópþjálfun.

Eigin umsjá og heimilishald
Meta færni og þátttöku við eigin umsjá (COPM, FBDI, COSA og Færnimat).
 • Auka færni og efla sjálfstæði við eigin umsjá, t.d. við klæðnað, snyrtingu og borðhald.
 • Skipulagning og þátttaka í heimilisstörfum.
 • Ráðgjöf varðandi tímastjórnum (Iðja/starf, stundaskrá, Iðjuhjólið).
 • Ráðgjöf/þjálfun varðandi slökun/grounding og svefn (einstaklings- og hópastarf).

Ráðgjöf varðandi frítíma og samverustundir fjölskyldu
Meta þörf og áhugasvið (Play- profile, Áhugalistinn, áhugasviðskönnun, Tómstundaánægjukvarði, Tómstundaiðjuskrá).

 • Upplýsingaöflun – hvað er í boði, hvert á að leita, tengja við úrræði út í bæ.
 • Kynning á tómstundum og tengdum úrræðum (tómstundahandbók).
 • Skipulagning frítíma og tómstunda (einstaklings- og hópastarf).

Skólafærni
Mat á skólafærni – (MNS). Áhorf og greining á skólaumhverfi (SFA matstæki).

 • Ráðgjöf í skóla – bæði til skjólstæðings og kennara. Aðlögun inn í skóla.
 • Vinna með samskipti og félagsfærni inn í bekk.
 • Skipulagning á heimanámi og námsleiðum.
 • Kynning og val á skólaúrræðum fyrir unglinga (heimsóknir í skóla, hitta námsráðgjafa, upplýsingaöflun).

Félagsfærni og sjálfstyrking
Mat á félagsfærni og sjálfsmati.

 • Félagsfærniþjálfun – í minni hópum og einstaklingsmeðferð.
 • Hópaúrræði – t.d. Ævintýrahópur og Sjálfstyrkingarhópur.

Vinnutengd ráðgjöf
Meta færni til vinnu.

 • Kynning og val á vinnu.
 • Stuðningur við að sækja um og hefja nýtt starf.

Skyn- og hreyfifærni
Mat á skyn- og hreyfifærni (BOT-2, Sensory profile).

 • Þjálfun.
 • Fræðsla og ráðgjöf til foreldra varðandi ofangreinda þætti.
Auk þess að vinna að sömu þáttum og iðjuþjálfar á göngudeild sér iðjuþjálfi á legudeild einnig um að virkja börn og unglinga í innlögn til þátttöku í starfi deildarinnar. Hann tekur þátt í að veita ráðgjöf til starfsmanna varðandi mikilvægi og útfærslur á verkefnum fyrir börnin, sniðið eftir þörfum hvers og eins.

Þetta geta verið verkefni eins og að taka til, búa um rúm, aðstoða í eldhúsinu, hugsa um blómin, sjá um garðverk og margt fleira. Aðstoða við gerð hópa m.t.t. að auka virkni, hreyfingu, heilsu, slökun og rútínu.
Iðjuþjálfinn hittir foreldra þeirra barna sem hann sinnir í upphafi innlagnar og fer yfir færniþætti barnsins með þeim. Hann fer með foreldrum yfir samverustundir og tómstundir ásamt þátttöku barnsins í heimilishaldi og veitir rágjöf og stuðning við að efla þessa þætti.

 

Tilvísanir á BUGL koma frá öllu landinu. Á göngudeild berst iðjuþjálfa tilvísun frá öðrum fagaðilum innan síns teymi. Við skimun á þörf fyrir iðjuþjálfun styðst iðjuþjálfi við upplýsingar frá foreldrum og öðrum fagaðilum. Sé vísbending um þörf fyrir frekara mat þá tekur hann fyrsta viðtal við barn og foreldra og ákvarðar í framhaldi þörf fyrir þjónustu sína.

Iðjuþjálfar á innlagnardeildum sinna þeim börnum sem hann og teymi deildar metur að þurfi á íhlutun iðjuþjálfa að halda. Iðjuþjálfi metur stöðu barnsins og gerir út frá því meðferðaráætlun í samvinnu við barn og foreldra. Sú íhlutun getur falið í sér alla neðangreinda þætti (sjá kafla um íhlutun) en jafnframt sinnir iðjuþjálfi á deild deildarmeðferð í samvinnu við annað starfsfólk deildarinnar.