Iðjuþjálfun Fossvogi og Hringbraut

Staðsetning á korti:

Hringbraut 
Fossvogur

Hafa samband símanúmer og netfang:

Fossvogur: 543 9141
Hringbraut: 543 9313

Yfiriðjuþjálfi í Fossvogi og við Hringbraut:

Guðríður Erna Guðmundsdóttir
netfang: gudrideg@landspitali.is
sími: 543 9133 / 825 9435

Landspítali í Fossvogi og við Hringbraut er bráðasjúkrahús þar sem einstaklingar koma í bráðatilvikum. Iðjuþjálfun á þessum stöðum er rekin sem ein eining. Í Fossvogi er iðjuþjálfun staðsett á 1. hæð í B álmu (B1) og á 4. hæð í D álmu (14D) við Hringbraut. Starfsemi iðjuþjálfunar heyrir undir flæðisvið LSH, endurhæfingardeild. Iðjuþjálfar sinna þar öllum deildum eftir þörfum og þjónusta einstaklinga sem eiga erfitt með að takast á við athafnir daglegs lífs eftir slys eða veikindi.

Orsakir færniskerðingar geta verið af ýmsum toga m.a. af völdum sjúkdóma eins og heilabilunar, hjarta-, lungna-, krabbameins-, smit- og taugasjúkdóma. Einnig í kjölfar liðskiptaaðgerða, heilablóðfalls og/eða annarra áfalla.

Í iðjuþjálfun bæði í Fossvogi og við Hringbraut eru þjálfunareldhús og salir þar sem fram fer mat, íhlutun, þjálfun og virkni eftir því sem við verður komið. Í Fossvogi er starfandi aðstoðarmaður iðjuþjálfa. Þar er einnig iðjuþjálfi í fullu starfi við spelkugerð sem starfar í náinni samvinnu við handaskurðlækna og sjúkraþjálfara. Samstarf er við iðjuþjálfunardeild Háskólans á Akureyri þar sem nemar í iðjuþjálfun koma í vettvangsnám á Landspítala.Iðjuþjálfun í Fossvogi og við Hringbraut er skjólstæðings- og iðjumiðuð. Iðjuþjálfar vinna fyrst og fremst eftir kanadíska færnilíkaninu (CMOP-E) þar sem unnið er að því að efla iðju og lögð er áhersla á samspil einstaklings, iðju og umhverfis. Notast er við þjónustuferlið Occupational Therapy Intervention Process Model (OTIPM). Eftir því sem við á er stuðst við aðrar kenningar og líkön t.d. kenningar um öldrun, Valdeflingu, Lífaflfræðilíkanið og A-ONE.

Mats- og markmiðslota

Iðjuþjálfar sinna yfirgripsmiklu heildrænu mati á færni skjólstæðinga sinna. Eftir því sem við á er færni skjólstæðings metin við athafnir daglegs lífs (ADL), gerð er skimun á vitrænni getu, aðstæður skjólstæðings metnar svo og hjálpartækjaþörf. Við mat á færni og getu eru í flestum tilvikum notuð viðurkennd stöðluð matstæki, spurninga- og gátlistar. 

Helstu matstæki,  spurninga- og gátlistar:

 • A-ONE (Árnadóttir OT-ADL Neurobehavioral Evaluation)
 • COPM (Canadian Occupational Performance Measurement) A-Two (Kitchen Task Observation)
 • Dynamometer 
 • Framkvæmdagreining
 • Gaumstolspróf
 • Iðjuhjólið
 • Klukkupróf
 • LOTCA (Lowenstein Occupational Therapy Cognitive Assessment)
 • Mat á færni við akstur
 • MMSE (The Mini Mental State Examination)
 • Modified Barthel Index 
 • MSQ (Mental Status Questionnaire) 
 • Purdue Pegboard 
Eftir mat á færni við iðju miðlar iðjuþjálfi niðurstöðum matsins til skjólstæðingsins. Í kjölfarið er gerð íhlutunaráætlun í samráði við skjólstæðinginn og teymi deildarinnar. Iðjuþjálfar eru virkir þátttakendur í þverfaglegri teymisvinnu á deildum spítalans þar sem unnið er í nánu samstarfi við aðrar fagstéttir. Áætlun er skipulögð með það að markmiði að auka færni skjólstæðingsins og undirbúa undir næstu endurhæfingarskref eða útskrift.
Við íhlutun iðjuþjálfa er valin ein eða fleiri af eftirtöldum leiðum; færniþjálfun og/eða að kenna skjólstæðingi nýjar leiðir til að framkvæma athafnir daglegs lífs, aðlögun á umhverfi, fræðsla og ráðgjöf. 

Iðjuþjálfar veita skjólstæðingum og hópum fræðslu, kennslu og ráðgjöf varðandi hjálpartæki og líkamsbeitingu. Auk þess sem þeir fara í heimilisathuganir. Með fræðslu er leitast við að stuðla að aukinni sjálfsbjargargetu og auknu öryggi heima við m.a. til að fyrirbyggja byltur. Eftir handarskaða getur íhlutun falist í spelkugerð. Aðallega er um að ræða spelkur fyrir efri útlimi og þá helst vegna skaða, skipulagðra aðgerða og eftir bruna. Spelkur geta þjónað margvíslegu hlutverki og má þar nefna hvíldarspelkur, spelkur til að auka færni og til að koma í veg fyrir kreppur. Spelkugerð er einnig sinnt í göngudeildarþjónustu og tekið er við beiðnum frá sérfræðingum utan Landspítala.

Þverfagleg teymisvinna fer einnig fram utan deilda, iðjuþjálfar starfa t.d. í MND teymi og útskriftarteymi Landspítala. Þá eiga þeir samstarf við ýmsa utan Landspítala og má þar helst nefna starfsfólk hjá Sjúkratryggingum Íslands, heilsugæslu, heimahjúkrun, félagsþjónustu, öðrum sjúkrastofnunum, hjúkrunarheimilum og svæðisskrifstofu fatlaðra. Einnig er samstarf við sérverslanir með hjálpartæki og heilbrigðisvörur og ýmsa verktaka.

Eftir íhlutun iðjuþjálfa og þegar við á er færni skjólstæðings endurmetin og íhlutunaráætlun aðlöguð eftir þörfum og vilja hans. Í stöku tilfellum er veitt eftirfylgni í kjölfar útskriftar t.d. vegna hjálpartækja.
Beiðnir um iðjuþjálfun berast frá deildum spítalans ýmist frá læknum, hjúkrunarfræðingum eða öðru fagfólki. Í samráði við teymi hverrar deildar er gerð áætlun um meðferð.