Iðjuþjálfun Grensási

Símanúmer iðjuþjálfunar: 543 9121

Yfiriðjuþjálfi:

Sigrún Garðarsdóttir
netfang: sigrgard@landspitali.is
sími: 543 9108 og 825 5072

Heimilisfang:
Landspítali Grensási
við Álmgerði, 108 Reykjavík

Staðsetning Grensásdeildar LSH á götukorti >>

Einstaklingar sem koma í endurhæfingu á Grensási eftir slys eða veikindi eiga flestir í erfiðleikum með að takast á við sitt daglega líf. Hlutir sem áður voru einfaldir eins og að klæðast, elda mat, vinna vinnuna sína, keyra bíl og stunda áhugamál geta reynst flóknir og óyfirstíganlegir. 

Sérþekking iðjuþjálfa felst í því að greina styrkleika einstaklinga og hvað reynist þeim erfitt við dagleg verk, finna leiðir til að yfirstíga þessa erfiðleika og þjálfa aftur upp færni til að takast á við daglegt líf. 

Samhliða færniþjálfun til eigin umsjár, heimilisstarfa, atvinnu og tómstunda er farið í heimilis- og vinnustaðarathuganir og mat á akstursfærni þegar þörf krefur. Auk þess eru veittar ráðleggingar við val og útvegun hjálpartækja .

Hugmyndafræðin sem unnið er eftir í iðjuþjálfun á Grensási eru A-ONE, Giles behaviour modification, Kvartettalíkanið (Quadrophonic líkanið), hugmyndafræði Toglia og MOHO (Model Of Human Occupation). Þjónustuferlið sem unnið er eftir kallast OTIPM (Occupational Therapy Intervention Process Model).

Mats- og markmiðslota

Iðjuþjálfar á Grensási nota þjónustuferlið OTIPM til að leiða þjónustu sína. Þjónustan flokkast í þrjá hluta þ.e. mat, íhlutun og endurmat.

Byrjað er á að koma á tengslum og skjólstæðingsmiðuðu umhverfi til að þróa gagnkvæmt traust milli þjónustuþega og iðjuþjálfa. Í því tilefni er m.a. aflað skjólstæðingsmiðaðra upplýsinga um iðju, aðstæður og forgangsröðun með aðstoð gát- og spurningalista ásamt matstækjum s.s. COPM og OSA. Í framhaldi af þessari upplýsingaöflun fer fram mat á framkvæmd við iðju til að afla upplýsinga um hvar skórinn kreppir þ.e. hver vandinn er og hvað er að valda honum en það getur verið af líkamlegum, vitrænum og/eða andlegum toga en einnig getur umhverfið í víðum skilningi verið stór áhrifavaldur. 

Við matið eru notuð mats- og mælitæki eins og A-ONE, AMPS, gátlisti um ökufærni og heimilisathugun, mælitæki til að mæla grip- og fingragripskraft, gróf- og fínhreyfingar svo eitthvað sé nefnt. Þegar búið er að greina iðjuvandann þá eru sett markmið í samráði við skjólstæðinginn og þau skráð niður.

Helstu mats- og mælitæki sem notuð eru á Grensási:

 • Assessment of Motor and Process Skills (AMPS)
 • Árnadóttir OT-ADL Neurobehavioral Evaluation (A-ONE) 
 • Box and block 
 • Dynamometer
 • Iðjuhjólið 
 • Mat á eigin iðju / Occupational Self Assessment (OSA) 
 • Mat á færni við akstur 
 • Mæling á færni við iðju / Canadian Occupational Performance Measure (COPM) 
 • Pinch mælir 
 • Purdue Pegboard
 • Sollerman 
 • Viðtal um starfshlutverk / Worker Role Interview (WRI)

Í íhlutun eru valdar ein eða fleiri leiðir af fjórum mögulegum sem byggja á faglíkönum til íhlutunar til að leysa iðjuvandann. Leiðirnar eru nefndar: Jöfnunarlíkan (compensatory model), Leiknilíkan (model of occupational skills training), Lagfæringalíkan (model for enhancement of person factors and body functions), og Fræðslulíkan (model for education and teaching), þ.e. íhlutun iðjuþjálfans getur falist í færniþjálfun og/eða að kenna viðkomandi nýjar leiðir til að framkvæma athafnir daglegs lífs (eigin umsjá, heimilisstörf, vinna, áhugamál o.fl.), að aðlaga umhverfi viðkomandi s.s. á heimili eða vinnustað, fræðslu, ráðgjöf og útvegun og kennslu í notkun hjálpartækja.

Eftir að íhlutun hefur átt sér stað er framkvæmd endurmetin með mats- eða mælitækjum og viðkomandi útskrifast eða markmið eru endurskoðuð og ferlið hefst þá á ný. Í gegnum allt ferli viðkomandi á Grensási er unnið heildrænt og í öflugri þverfaglegri teymisvinnu í samvinnu við skjólstæðinginn.
Iðjuþjálfar meta þörf fyrir iðjuþjálfun í samvinnu við skjólstæðinginn og aðra teymismeðlimi.