Utanspítalaþjónusta

Í greiningarsveit Landspítala eru tveir hjúkrunarfræðingar og tveir læknar af bráðasviði Landspítala. Þessi sveit er til staðar alla daga, allan sólarhringinn, allt árið um kring. Sveitin fer í þau útköll sem hún er beðin um og þörf er fyrir hana.  Það tekur sveitina um það bil 10-15 mínútur að ferðbúast.

Landhelgisgæslan og þyrlan

Landhelgisgæslan rekur björgunarþyrlur sem eru að mestu mannaðar starfsfólki gæslunnar en læknar sem tilheyra þyrluáhöfninni koma meðal annars af bráðasviði. Einnig er samstarfssamningur milli bráðasviðs og Landhelgisgæslunnar um gagnkvæma þjálfun starfsmanna.

Áhöfn landlæknis í Samhæfingarstöð almannavarnar

Samhæfingarstöð almannavarna við Skógarhlíð 14 er stjórnstöð sem er mönnuð viðbragðsaðilum þegar einhvers konar vá steðjar að. Landlæknir ber ábyrgð á að manna stöðu fyrir heilbrigðisþjónustu og hefur hann fengið heilbrigðisstarfsfólk frá Landspítala til þess að vera hluti af áhöfn. Nokkrir þessara starfsmanna koma frá bráðasviði. Verkefnastjóri utanspítalaþjónustu á bráðasviði er tengiliður Landspítala við landlækni og starfsfólk almannavarna ríkislögreglustjóra.

Læknisfræðileg forsjá Neyðarlínunnar 112

Á milli Landspítala og Neyðarlínu 112 er í gildi samstarfssamningur sem felur í sér að LSH er læknisfræðilegur umsjónaraðili og ráðgjafi hennar um heilbrigðisþjónustu. Landspítali veitir ráðgjöf um læknisfræðileg álitaefni á öllum tímum sólarhringsins árið um kring og fer yfir og þróar verklagsreglur Neyðarlínunnar sem lúta að svörun og viðbrögðum við slysum, sjúkdómum og öðru sem snertir bráða heilbrigðisþjónustu. Spítalinn sér einnig um reglulega fræðslu fyrir starfsmenn Neyðarlínunnar. Sérfræðilæknir frá bráðasviði sinnir þessum skyldum Landspítala.