Öldrunarlækningar

Öldrunarlækningar

Öldrunarlækningar Landspítala sinna sjúkrahúsþjónustu fyrir aldraða einstaklinga. Bráðaöldrunarlækningar eru á deild B4 í Fossvogi, einnig eru öldrunarlækningar á Landakoti á deildunum K1, K2, L4, L3 og L-0 (dagdeild). Innan deildanna er sinnt sérhæfðum verkefnum, almennum öldrunarlækningum, lungnasjúkdómum, hjartasjúkdómum, heilabilun og fleiru. Einnig er göngudeild öldrunarþjónustu staðsett á Landakoti. Á Vífilsstöðum eru sjúklingar sem lokið hafa meðferð og endurhæfingu á Landspítala, eru með gilt færni- og heilsumat og bíða varanlegrar vistunar á hjúkrunarheimili. Öldrunarlæknar sinna læknisþjónustu við nokkur hjúkrunarheimili og dagdeildir á höfuðborgarsvæðinu.
Á deildunum starfa læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar, félagsráðgjafar og heilbrigðisritarar ásamt aðstoðarfólki. Sálfræðingar, prestar og næringaráðgjafar veita þjónustu eftir þörfum.

Rannsóknarstofa Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum (RHLÖ) er staðsett á Öldugötu og stendur fyrir rannsóknarstarfsemi innan öldrunarlækninga. Unnar hafa verið umfangsmiklar fjölfaglegar vísindarannsóknir í samstarfi við innlenda og erlenda aðila. Virk kennslu- og fræðslustarfsemi fer fram í tengslum við öldrunarþjónustu. Nemendur í heilbrigðisfræðum aldraðra stunda hluta af náminu á öldrunarlækningadeildum. Virk upplýsingamiðlun er innan öldrunarþjónustu og eru útsendingar á fræðsluefni jafnan sendar frá Landakoti gegnum fjarfundabúnað til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni.