Kvennadeildir

ATH: Vegna sýkingarhættu RS-veiru eru allar heimsóknir barna yngri en 12 ára bannaðar á Vökudeild, Fæðingarvakt, Meðgöngu- og sængurlegudeild og Göngudeild mæðraverndar. Jafnframt er óskað eftir að heimsóknir annarra séu takmarkaðar.

Kvennadeildahús Landspítala

Kvennadeildir eru í húsi númer 2 á Landspítalalóð, aðkoma frá Barónsstíg. Húsið skiptist í A, B og C álmu. Klínísk starfsemi fer aðallega fram í A og B álmu en skrifstofur og kennsluaðstaða er í C álmu, gamla Ljósmæðraskólanum.

Um kvennadeildir

Á kvennadeildum er veitt sérhæfð heilbrigðisþjónusta fyrir konur í meðgöngu, fæðingu og sængurlegu og konur með vandamál vegna almennra og illkynja kvensjúkdóma. Veitt er víðtæk ráðgjöf til heilbrigðisstofnana og til almennings. Grunn- og framhaldsmenntun og rannsóknar- og vísindastarf um heilbrigði kvenna er mikilvægur hluti af starfseminni. Framhaldsnám í fæðingar- og kvensjúkdómalækningum ásamt ljósmæðranámi er ríkur þáttur í daglegu starfi kvennadeilda. Megin starfsemin er við Hringbraut en læknar eru einnig, samkvæmt sérstökum samningum, í hlutastarfi við krabbameinsskoðun í leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands, kvensjúkdómaþjónustu hjá öldrunardeildum á LSH og við skoðanir í Barnahúsi.

Meðgöngu- og sængurkvennadeild - heimsóknartími milli kl. 16:00 og 19:30 alla daga.  Opið er fyrir maka frá kl. 09:00 á morgnana og geta þeir verið hjá móður og barni fram á kvöld.  

Kvenlækningadeildir 1. hæð kl. 18:30-20:00. 

 


Fæðingarvakt 23B - Þjónusta við konur í eðlilegri fæðingu auk þjónustu við konur með áhættuþætti sem þurfa sérhæft eftirlit í fæðingu. Markmið er að veita faglega þjónustu þar sem velferð móður og barns er höfð að leiðarljósi. Leitast er við að skapa þægilegt og rólegt umhverfi þar sem konan getur verið sjálf við stjórnvölinn í fæðingunni með góðum stuðningi frá aðstandanda og fagfólki.

Meðgöngu- og sængurlegudeild 22A - Á deildinni dvelja fjölskyldur í sængurlegu auk kvenna sem þurfa náið eftirlit á meðgöngu og í kjölfar missis á meðgöngu.
Eftir eðlilega fæðingu býðst foreldrum að dvelja í allt að sólarhring og þiggja síðan heimaþjónustu frá ljósmóður fyrstu vikuna. Eftir fæðingu með keisaraskurði býðst foreldrum að dvelja í allt að 48 klst. á deildinni og þiggja síðan heimaþjónustu frá ljósmóður. Þegar konur og börn þurfa sérhæfða þjónustu í sængurlegu getur sjúkrahúsdvölin verið lengri.
Í sængurlegunni er lögð áhersla á hvíld, tengslamyndun og farsælt upphaf brjóstagjafar og næringu nýburans. Starfsfólk deildarinnar veitir faglega þjónustu og stuðning með fjölskylduhjúkrun að leiðarljósi.

Fósturgreiningardeild sérhæfir sig í fósturskimunum, fósturgreiningum og ómskoðunum á meðgöngu. Öllum verðandi foreldrum stendur til boða fósturskimun við 11-14 vikur og aftur við 19-20 vikur. Fyrri skoðunin staðfestir meðgöngulengd , fjölda fóstra og er líkamsgerð fósturs skoðuð með tilliti til fósturgalla. Skimað er fyrir litningagöllum með mælingum á hnakkaþykkt fósturs og lífefnavísum í blóði konu. Um það bil 2-3 % kvenna sem fara í slíka skoðun fá auknar líkur á litningagalla og er þeim boðin litningarannsókn til greiningar á litningagalla. Þessi skoðun hefur dregið verulega úr legástungum en um það bil 80 % kvenna þiggja þessa skoðun. Skimunin við 19-20 vikur staðfestir meðgöngulengd ef það hefur ekki verið gert áður, skimað er fyrir fósturgöllum og fylgjustaðsetning staðfest. Á seinni hluta meðgöngu eru gerðar vaxtarmælingar, blóðflæðirannsóknir og mæling á legvatnsmagni vegna sérstakra ábendinga frá læknum og ljósmæðrum mæðraverndar. Sérhæft eftirlit er vegna rhesus næmingar en það er einnig unnið í samvinnu við mæðravernd LSH og Blóðbankann. Þéttara eftirlit er með fjölburameðgöngum og er fósturgreiningardeildin í samstarfi við sjúkrahús í Belgíu ef þörf er á laserbrennslu hjá eineggja tvíburum vegna twin to twin syndrome. Erfðaráðgjafi starfar á deildinni ásamt erfðalækni og er veitt ráðgjöf vegna arfgengra sjúkdóma, litningagalla og annara fósturgalla. Deildin er einnig í samstarfi við barnahjartalækna og aðra sérfæðinga vegna sértækra vandamála.
Á deildinni starfa fimm ljósmæður og tveir fæðingarlæknar sem öll hafa sérhæft sig í fósturgreiningum og uppfylla kröfur í samræmi við alþjóðlega gæðastaðla á sviði ómskoðana. Deildin er vel búin tækjum og góð aðstaða er til skoðana og ráðgjafar. Á ári hverju eru framkvæmdar um tíu þúsund ómskoðanir , auk legástungna, viðtala og ráðgjafar. Kvenfélagið Hringurinn hefur styrkt deildina rausnarlega með fjárframlögum til tækjakaupa auk þess sem deildin hefur fengið mikilvægan fjárstuðning frá “Sonja foundation” í Bandaríkjunum.

Mæðravernd LSH á 21B er hluti af móttökudeild kvenna og þangað koma konur í mæðravernd sem hafa sérstök vandamál á meðgöngu. Stuðst er við flokkun landlæknis varðandi áhættuþætti á meðgöngu og með góðri samvinnu við heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fer almenn mæðravernd nú fram í heilsugæslu ef engir áhættuþættir eru til staðar. Ef vandamál koma upp er konan send á LSH til samráðs og í framhaldi af því er ákveðið hvort mæðravernd flyst alfarið á LSH eða hvort samvinna er með áframhaldandi mæðravernd. Í ákveðnum tilfellum fer konan beint í mæðravernd á LSH, t.d. ef um sykursýki er að ræða fyrir þungun, sjá nánar leiðbeiningar landlæknis. Samstarf er við göngudeild sykursjúkra og einu sinni í viku kemur læknir þaðan í mæðravernd LSH og sinnir konum með sykursýki um leið og þær koma í mæðraskoðun. Næringarráðgjöf er einnig veitt frá göngudeild sykursjúkra. Í mæðravernd LSH koma konur sem eru með virk áfengis- og /eða fíkniefnavandamál og fá sérhæfða þjónustu ljósmæðra og lækna.

Brjóstagjafaráðgjöf er veitt á kvennadeildum og einnig til kvenna á fyrstu vikum eftir fæðingu. Brjóstagjafaráðgjafar veita einnig víðtæka fræðslu og ráðgjöf bæði inn á deildum sviðsins og einnig út fyrir stofnunina.

Kvenlækningadeild 21A er dag- og legudeild fyrir konur með bráða kvensjúkdóma og konur sem þurfa skurðaðgerð vegna góðkynja eða illkynja sjúkdóma í grindarholi og brjóstum. Lögð er áhersla á nákvæma og einstaklingsmiðaða hjúkrun með góðri eftirfylgd. Með góðum undirbúningi og framþróun í aðgerðatækni hefur legutími eftir aðgerðir styst verulega á seinustu árum. Árið 2007 hófst innleiðing á flýtibata við legnám (fast track surgery) og hefur það ferli haft i för með sér að legutími hefur styst enn frekar, líðan sjúklinga eftir aðgerðir batnað og fylgikvillum hefur fækkað.

Móttaka kvenna 21AM er göngudeild fyrir konur með bráða kvensjúkdóma, blæðingar í og utan þungunar og þar fer einnig fram stór hluti samráðskvaðninga frá öðrum deildum, meðal annars sérhæfð móttaka fyrir innkirtlakvensjúkdóma. Hér er einnig göngudeild krabbameinslækna kvenna sem sinnir eftirfylgni eftir greiningu og meðferð krabbameina í grindarholi. Skoðanir og önnur þjónusta vegna fóstureyðinga fer fram á 21AM og getnaðarvarnaráðgjöf er opin átta klukkustundir í viku.

Fóstureyðingar fara nú í vaxandi mæli fram með lyfjum í stað skurðaðgerðar og fer sú meðferð fram í samvinnu móttöku- og legudeildar kvenlækninga. Um er að ræða sérhæfða lyfjameðferð sem hafin er á móttökueildinni og síðan fylgt eftir með stuttri innlögn á deild 21A.

Á skurðstofum kvennadeilda 23A er sinnt sérhæfðum og almennum skurðaðgerðum í kviðar- og grindarholi, auk brjóstaaðgerða á vegum skurðlækningasviðs. Ýmsar tegundir kviðsjár- og legspeglunaraðgerða eru gerðar, bæði til greininga og meðferða, m.a. vegna verkja, æxla, utanlegsþungana og blæðingarvandamála. Opnar kviðarholsaðgerðir og aðgerðir um leggöng eru gerðar vegna margvíslegra vandamála, t.d. legsigs og blöðrusigs, einnig aðgerðir vegna þvagleka með ísetningu gerviefnanets. Auk þess eru gerðar fóstureyðingar, útskaf frá legi, keiluskurðir, legnám, með og án brottnáms eggjastokka, aðgerðir vegna legslímuflakks og aðgerðir vegna ýmissa æxla á eggjastokkum. Hér fer einnig fram fæðingarinngrip, þar á meðal allir keisaraskurðir og sum með sogklukku eða töng og þegar sækja þarf fylgju eftir fæðingu eða sauma stærri rifur eftir fæðingar.

Ritaramiðstöð er staðsett á annari hæð í kvennadeildahúsinu, Þar er unnið að sjúkraskrám kvennadeilda og hefur tekist einkar vel með framkvæmd og skil skráninga. Ritarar kvennadeilda eru lykilstarfsmenn þegar kemur að DRG greiningu en kvennadeildir hafa lengi verið framarlega í flokki við DRG flokkun. Stöðugt er unnið að umbótum á rafrænni sjúkraskrá með öryggi sjúklinga að leiðarljósi.

Kvenna- og barnasvið er vörsluaðili landsskrár um fæðingar fyrir Embætti landlæknis sem er ábyrgðaraðili. Árlega er gefin út skýrsla með yfirliti yfir fæðingar á Íslandi. Við fæðingarskrá starfar einn ritari í hálfu starfi og læknir frá barnaspítalanum og frá kvennadeildum, hvor í 5% starfi.

Á vefsíðu kvennadeilda eru upplýsingar um starfsemina og fræðsluefni fyrir almenning.