Fæðingarvakt 23B

 ATH: Vegna sýkingarhættu RS-veiru eru allar heimsóknir barna yngri en 12 ára bannaðar á Vökudeild, Fæðingarvakt, Meðgöngu- og sængurlegudeild og Göngudeild mæðraverndar. Jafnframt er óskað eftir að heimsóknir annarra séu takmarkaðar.


Á fæðingarvakt 23B er veitt þjónusta við konur í eðlilegri fæðingu auk þjónustu við konur með áhættuþætti sem þurfa sérhæft eftirlit í fæðingu. Markmið er að veita faglega þjónustu þar sem velferð móður og barns er höfð að leiðarljósi. Leitast er við að skapa þægilegt og rólegt umhverfi þar sem konan getur verið sjálf við stjórnvölinn í fæðingunni með góðum stuðningi frá aðstandanda og fagfólki. 
Við stöndum vörð um eðlilegar fæðingar og reynum að takmarka inngrip án þess þó að skerða öryggi móður og barns. Traust, virðing og trúnaður er ætíð hafður að leiðarljósi og þess gætt að veita skjólstæðingum sem bestar upplýsingar á hverjum tíma.

Yfirljósmóðir er Anna Sigríður Vernharðsdóttir annavern@landspitali.is   
Yfirlæknir er Hildur Harðardóttir hhard@landspitali.is

Heimsóknir. Fæðingin og tíminn fyrst eftir fæðingu er mikilvægur fyrir tengslamyndun foreldra og nýbura. Grunnurinn að brjóstagjöf er lagður á fyrstu tímunum eftir fæðingu og mikilvægt að móðir og barn fái frið og tíma til að leggja þann mikilvæga grunn. Því eru heimsóknir á fæðingarvakt til fæðandi kvenna og heimsóknir fyrstu tímana eftir fæðingu ekki æskilegar nema í algjörum undantekningartilvikum. Á fæðingarvaktinni dvelja konur meðan á fæðingu stendur og í u.þ.b. 2 tíma eftir fæðingu. Eftir það flytjast þær á meðgöngu- og sængurlegudeild.  

Viðvera aðstandenda við fæðingar.  Fæðingarferlið er viðkvæmt ferli sem ekki ætti að trufla. Þess vegna mælast ljósmæður og læknar fæðingarvaktar til þess að eingöngu einn stuðningsaðili sé viðstaddur fæðingu. Auk þess býður aðstaða á deildinni ekki upp á að fleiri séu viðstaddir. Við biðjum verðandi foreldra að hafa þetta í huga en að sjálfsögðu viljum við heyra ykkar óskir ef þær eru á annan veg. Við biðjum konur sem þurfa á því að halda að hafa annan stuðningsaðila með sér í fæðingunni að ræða það þegar hringt er á deildina í aðdraganda fæðingar eða við komu á deildina. 

Sími 543 3049
Staðsetning á 3. hæð í kvennadeildahúsi 

Framtíðarsýn fæðingarvaktar

 • Fæðingarvakt Landspítala er framúrskarandi og eftirsóttur vinnustaður
 • Fæðingarvakt Landspítala er framúrskarandi og eftirsóttur námsstaður
 • Starfsfólk fæðingarvaktar hefur brennandi áhuga á að veita faglega og góða þjónustu
 • Á fæðingarvakt Landspítala er  leitast við að nota vinnubrögð sem samræmast bestu þekkingu hverju sinni
 • Starfsfólk fæðingarvaktar viðheldur þekkingu sinni með reglulegri endurmenntun og þjálfun
 • Árangur fæðingarvaktar samkvæmt gæðavísum og árangursmælikvörðum er sambærilegur við það besta í heiminum
 • Starfsfólk fæðingarvaktar stendur vörð um eðlilegar fæðingar
 • Ljósmæður leiða umönnun kvenna í eðlilegri fæðingu
 • Ljósmæður og læknar koma saman að umönnun kvenna með áhættuþætti
 • Yfirseta er mikilvægur þáttur. Ljósmæður og stjórnendur eru sammála um mikilvægi hennar
 • Starfsfólk fæðingarvaktar nota inngrip á markvissan hátt þegar ábending liggur fyrir
 • Starfsfólk fæðingarvaktar virðir óskir skjólstæðinga og kemur til móts við þeirra þarfir eftir bestu getu
 • Starfsfólki fæðingarvaktar er mikið í mun að upplifun fólks af þeim einstaka atburði að verða foreldri verði sem best