Litningarannsóknir

Hlutverk litningarannsóknardeildar erfða- og sameindalæknisfræðideildar (ESD) er að annast alla almenna þjónustu við lækna og sjúkrastofnanir á landinu öllu vegna litningarannsókna á mönnum.

Ábendingar til litningarannsókna eru margvíslegar en megináhersla hefur verið lögð á fósturgreiningu, þ.e. á greiningu alvarlegra litningagalla hjá fóstri snemma á meðgöngutíma, en til þess eru notuð legvatns- eða fylgjuvefssýni. Litningarannsóknir má einnig gera á blóði, húð, beinmerg og fleiri lifandi vefjum.

Litningarannsókn á blóði barna er einkum gerð þegar verið er að kanna orsakir vanskapnaðar eða vangefni en einnig þegar kynþroski er síðbúinn eða líkamsvöxtur óeðlilega hægur.

Litningarannsókn á blóði fullorðinna er hins vegar fyrst og fremst gerð þegar um er að ræða endurtekin fósturlát eða ófrjósemisvandamál, en einnig við rannsóknir á vissum tegundum illkynja æxla, einkum hvítblæði.