Ísótópar

Ísótóparannsóknir gefa myndrænar og/eða starfrænar upplýsingar um líffærakerfi líkamans. Geislavirku efni er blandað saman við áhengjur en tegund þeirra fer eftir því hvaða líffæri eða líffærakerfi á að rannsaka. Áhengjur stjórna hvar geislavirka efnið sest í líkamann. Við myndatökuna nema gammamyndavélar geislun frá líkamanum og gefa myndrænar upplýsingar á tölvuskjá.

Undirbúningur rannsóknar

Undirbúningur felst í að fjarlægja af sér málmhluti s.s. úr, skartgripi, fatnað með málm í og tæma þvagblöðru (þegar á við). Þegar þörf er á frekari undirbúningi fyrir rannsókn færð þú leiðbeiningar sendar heim með bréfi.

Framkvæmd rannsóknar

Rannsóknin skiptist í tvennt, inndælingu efnis og myndatöku. Inndæling geislavirks efnis er í bláæð. Það er háð tegund rannsóknar hvort myndataka er framkvæmd strax eða eftir 2-4 klst. Við myndatöku átt þú að liggja á rannsóknarbekk, þér er stillt inn fyrir rannsókn og þarft að liggja kyrr þar til myndatökunni lýkur. Gammvélmyndavélum er komið fyrir eins nærri þér og kostur er. Myndatakan tekur 30 - 120 mínútur en tímalengdin ræðst af því hvers konar rannsókn er um að ræða. Ef þú átt erfitt með að liggja kyrr vegna verkja er æskilegt að þú takir verkjalyf fyrir rannsókn.

Brjóstagjöf

Það er háð framkvæmd rannsóknar hvort konur með börn á brjósti þurfi að gera hlé á brjóstagjöf. Sumar tegundir geislavirkra efnasambanda skiljast út með móðurmjólk.
Konur með börn á brjósti er bent á að hafa samband við geislafræðing/lífeindafræðing á ísótópastofu LSH á Hringbraut í síma 543-5050 eða í Fossvogi í síma 543-8373 til að fá ítarlegar upplýsingar um brjóstagjöf eftir inngjöf geislavirks efnis.
Þegar konum er ráðlagt að gefa börnum sínum pela eftir ísótóparannsókn er mælt með að einhver annar gefi pelann í 24 klst. á eftir þar sem nærvera móður veldur geislaálagi á barnið. Áhersla er lögð á að forðast að hafa börn í fanginu.

Aðrar upplýsingar

Takir þú lyf að staðaldri skaltu taka þau eins og venjulega en ert vinsamlegast beðinn um að upplýsa um lyfjainntöku þegar þér er gefinn tími í rannsóknina
Þeim sem hafa fengið geislavirkt efni í æð er bent á að forðast mikla snertingu við aðra í 24 klst. eftir inngjöf efnis. Sérstök áhersla er lögð á að umvefja ekki barnshafandi konur og forðast að hafa börn í fanginu þar sem börn eru viðkvæmari fyrir geislun en fullorðnir.