Ómskoðanir

Við ómun eru notaðar hljóðbylgjur sem eru sendar inn í líkamann. Endurvarp frá líkamanum er breytt í merki og gefur það mynd á skjá. Ómskoðanir nýtast við margskonar rannsóknir á kviðarholslíffærum, æðum, vöðvum, sinum, eitlum o.fl.

Undirbúningur rannsóknar

Undirbúningur fer eftir því hvaða líkamshluta á að rannsaka. Undirbúnings er aðeins krafist fyrir ómskoðun á lifur, galli og brisi og ef um ástungu er að ræða. Þegar undirbúnings er krafist eru upplýsingar og leiðbeiningar um slíkt sendar heim með bréfi tímanlega fyrir rannsóknina. Við ómskoðun þarf að afklæðast á þeim líkamshluta sem á að rannsaka.

Framkvæmd rannsóknar

Röntgenlæknir framkvæmir rannsóknina. Þú leggst á rannsóknarbekk og sérstakt, hættulaust gel sett á húð þína og ómhaus því næst rennt eftir húðinni. Ómskoðun er hættulaus og tekur um 20 – 60 mín.
Að rannsókn lokinni les röntgenlæknir úr myndunum og svar er sent til þess læknis sem óskaði eftir rannsókninni. Sá aðili ber ábyrgð á því að upplýsa þig um niðurstöður rannsóknarinnar.