Röntgenrannsóknir

Við almennar röntgenrannsóknir er röntgengeisli notaður til að taka myndir af beinum líkamans, kviðarholi eða lungum. Oftast eru teknar 2-4 myndir en fjöldi mynda fer eftir því hvað á að rannsaka.

Undirbúningur rannsóknar

Undirbúningur fyrir röntgenrannsókn felst fyrst og fremst í því að afklæðast ásamt því að fjarlægja skart og aðra fylgihluti sem skyggt geta á myndefnið og valdið myndgöllum.

Framkvæmd rannsóknar

Geislafræðingar sjá um framkvæmd rannsóknarinnar. Eðli rannsóknarinnar stýrir því hvort mynd er tekin í standandi, sitjandi eða liggjandi stöðu. Geislafræðingar sjá um að stilla þér inn og gefa viðeigandi fyrirmæli, t.d. um öndun. Röntgenrannsóknir taka að jafnaði 10-30 mínútur. Geislavarnir s.s. blýdúkar og svuntur eru notaðar eftir þörfum við röntgenmyndatökur en mikilvægasta geislavörnin felst í nákvæmum og réttum vinnubrögðum geislafræðinga. Að rannsókn lokinni les röntgenlæknir úr myndunum og svar er sent til þess læknis sem óskaði eftir rannsókninni. Sá aðili ber ábyrgð á því að upplýsa þig um niðurstöður rannsóknarinnar.

Ert þú barnshafandi?

Mikilvægt er að konur á barneignaraldri láti geislafræðing vita ef þær eru barnshafandi eða telja það mögulegt. Forðast er að mynda barnshafandi konur nema brýna nauðsyn beri til og er þá sýnd sérstök aðgæsla m.t.t. geislavarna. Reynt er eftir fremsta megni að velja aðrar rannsóknaraðferðir sé þess nokkur kostur.