Skyggnirannsóknir

Skyggnirannsókn er röntgenrannsókn þar sem hægt er að fylgjast með hreyfingum líffæra eða æða. Skyggning er notuð til að rannsaka útlit og/eða starfsemi líffæra eins og vélinda, meltingarfæra, nýrna, æða o.fl. Skyggnirannsókn er röntgenrannsókn þar sem röntgengeisli fer í gegnum líkamann og í búnað sem kallaður er skyggnimagnari sem sendir mynd á sjónvarpsskjá þannig er hægt að sjá hreyfingu. Það eru mjög fjölbreytilegar rannsóknir sem framkvæmdar eru með skyggningu. Einnig er skyggning notuð við aðgerðir á skurðstofu.

Undirbúningur rannsóknar

Það fer eftir tegund rannsóknar hvort þörf er á undirbúningi fyrir rannsókn. Undirbúningur er oftast fasta á mat og drykk í nokkrar klukkustundir. Undirbúningur fyrir rannsókn á ristli er fljótandi fæði og taka þarf hægðarlyf daginn fyrir rannsókn. Leiðbeiningar um rannsókn og undirbúning eru sendar heim með bréfi. Áður en rannsókn hefst þarft þú að afklæðast skv. fyrirmælum geislafræðings og fjarlægja skartgripi og aðra málmhluti þegar við á. Gott er að koma í léttum fatnaði og koma ekki með mikið af skartgripum.

Börn þurfa oftast að fasta skemur en fullorðnir og stundum þurfa ung börn að fá róandi lyf fyrir rannsókn svo þau liggi kyrr. Dagdeild barna hefur umsjón með þeirri lyfjagjöf.
Upplýsingar um einstaka rannsóknir má finna á vef Landspítala undir Þjónustuhandbók rannsókna

Framkvæmd rannsóknar

Röntgenlæknir og/eða geislafræðingur framkvæmir rannsóknina. Það fer eftir tegund rannsóknar hvort þú þarft að liggja eða standa í rannsókninni. Við skyggnirannsóknir er oftast gefið skuggaefni sem ýmist er drukkið eða gefið í æð. Læknir ákveður hvaða skuggaefni skuli notað við rannsókn. Í flestum meltingafærarannsóknum þarf að drekka baríum skuggaefnisblöndu svo hægt sé að fá myndir af útlínum maga og þarma. Sumar rannsóknir eru þess eðlis að setja þarf upp nál og gefa joðskuggaefni í æð.

Barium- skuggaefni er duft sem hrært er út í vatn og er eins og þykk mjólk. Það er drukkið við rannsókn á t.d vélinda, maga eða þörmum og gerir lækni kleift að greina milli líffæra og annara vefja. Magn skuggaefnis er misjafnt eftir rannsókn en oftast þarf að drekka um 2 glös. Ef um ristilrannsókn er að ræða er baríum gefið í endaþarm. Ofnæmi við bariumskuggaefni eru óþekkt en eftir rannsókn er gott að drekka vel af vökva svo skuggaefnið hreinsist úr meltingarfærunum til að hindra hægðatregðu. Það getur tekið baríum um 2 sólahringa að tæmast úr meltingarvegi.

Joðskuggaefni er glært og sætt á bragðið. Það er oftast gefið í bláæð og er notað til að greina á milli líffæra, meta ástand þeirra og gera æðar sýnilegar á mynd. Við skuggaefnisgjöf í æð er eðlilegt að finna hitastraum frá brjósti og niður í þvagblöðru, tilfinningin líkist því að þvaglát eigi sér stað, og oft finnst vont bragð í munni. Þessi viðbrögð líða hratt hjá. Einstaka sinnum kemur upp óþol eða ofnæmisviðbrögð fyrir skuggaefninu. Ef þú ert með þekkt skuggaefnisofnæmi skaltu láta þann lækni sem óskaði eftir rannsókn vita af því en einnig getur þú haft samband við afgreiðslu myndgreiningardeildar eða látið geislafræðing vita af því fyrir rannsókn. Mikilvægt er að láta vita af skuggaefnisofnæmi með fyrirvara svo sérstakur undirbúningur geti átt sér stað eða önnur rannsóknaraðferð orðið fyrir valinu. Einkenni ofnæmis geta verið roði eða útbrot á húð, ógleði eða uppköst. Joðskuggaefni skilst úr líkamanum gegnum nýrun og því er mælt með að drukkið sé vel af vökva eftir skuggaefnisgjöf.

Sykursýki 

Þeir sjúklingar sem eru með sykursýki og nota lyfin Glucophage, Eucreas,Janumet eða Avandamet sem öll innihalda Metformin, skulu hætta inntöku lyfsins í tvo sólarhringa eftir skyggnirannsókn með joðskuggaefni í æð. Mælt er með því að drukkið sé vel af vatni fyrstu klukkustundirnar eftir joðskuggaefnisgjöf. 

Tímalengd rannsóknar
Skyggnirannsóknir taka að jafnaði 20-40 mínútur. Að rannsókn lokinni les röntgenlæknir úr myndunum og svar er sent innan fárra daga til þess læknis sem óskaði eftir rannsókninni. Sá aðili ber ábyrgð á því að upplýsa þig um niðurstöður rannsóknarinnar.

Ert þú barnshafandi?
Mikilvægt er að konur á barneignaraldri láti geislafræðing vita ef þær eru barnshafandi eða telja það mögulegt. Forðast er að mynda barnshafandi konur nema brýna nauðsyn beri til og er þá sýnd sérstök aðgæsla m.t.t. geislavarna. Reynt er eftir fremsta megni að velja aðrar rannsóknaraðferðir sé þess nokkur kostur.