Tölvusneiðmyndir

Við tölvusneiðmyndarannsókn eru röntgengeislar notaðir til að fá sneiðmyndir af líffærum, líffærakerfum eða ákveðnum líkamshlutum. Sneiðmyndir er hægt að skoða í öllum mögulegum sniðum og í tví- og þrívídd. Þær geta m.a. gefið ítarlegar upplýsingar um ástand líffæra og æða og afstöðu þeirra ásamt því að geta greint brot í beini sem ekki sést við almenna röntgenmyndatöku.

Undirbúningur fyrir rannsókn

Undirbúningur veltur á því hvaða hluta líkamans á að rannsaka og hvaða spurningum á að svara. Fyrir rannsókn þarf að afklæðast (sérstaklega ef málmur eða málmþræðir eru í fatnaði), fjarlægja skart og aðra fylgihluti sem geta skyggt á og gefið myndgalla. 

Fyrir meltingafærarannsóknir þarf iðulega að drekka einn lítra af vatni eðaskuggaefnisblöndu í jöfnum skömmtum í 1-3 klst. en slíkar leiðbeiningar eru sendar heim með bréfi tímanlega fyrir rannsókn. Oft þarf að gefa joðskuggaefni í æð við rannsókn.

Joðskuggaefni

Joðskuggaefni er gefið í bláæð og er notað til að greina á milli líffæra, meta ástand þeirra og gera æðar sýnilegar á mynd. Við skuggaefnisgjöf er eðlilegt að finna hitastraum frá brjósti og niður í þvagblöðru, tilfinningin líkist því að þvaglát eigi sér stað, og oft finnst vont bragð í munni. Þessi viðbrögð líða hratt hjá. Einstaka sinnum kemur upp óþol eða ofnæmisviðbrögð fyrir skuggaefninu. Ef þú ert með þekkt skuggaefnisofnæmi skaltu láta þann lækni sem óskaði eftir tölvusneiðmyndarannsókn vita af því en einnig getur þú haft samband við afgreiðslu myndgreiningardeildar eða látið geislafræðing vita af því fyrir rannsókn. Mikilvægt er að láta vita af skuggaefnisofnæmi með fyrirvara svo sérstakur undirbúningur geti átt sér stað eða önnur rannsóknaraðferð orðið fyrir valinu. 

Sykursýkissjúklingar sem nota lyfin Glucophage, Glucovance eða Avandamet eiga að hætta inntöku lyfsins í tvo sólarhringa fyrir og eftir tölvusneiðmyndarannsókn með joðskuggaefni. Mælt er með því að drukkið sé vel af vatni fyrstu klukkustundirnar eftir joðskuggaefnisgjöf.

Framkvæmd rannsóknar

Geislafræðingar framkvæma tölvusneiðmyndarannsóknir. Við myndatökuna liggur þú á rannsóknarbekk og ert keyrður inn í tölvusneiðmyndatækið sem líkist einna helst stórum kleinuhring. Þér er stillt inn og eftir það er mikilvægt að liggja alveg kyrr. Nokkur hávaði heyrist í tölvusneiðmyndatækinu á meðan myndatöku stendur og rannsóknarbekkurinn hreyfist rólega samtímis.

Tímalengd rannsókna

Tölvusneiðmyndarannsókn tekur að jafnaði 10-20 mínútur. Að rannsókn lokinni les röntgenlæknir úr myndunum og svar er sent til þess læknis sem óskaði eftir rannsókninni. Sá aðili ber ábyrgð á því að upplýsa þig um niðurstöður rannsóknarinnar.

Ert þú barnshafandi?

Mikilvægt er að konur á barneignaraldri láti geislafræðing vita ef þær eru barnshafandi eða telja það mögulegt. Forðast er að mynda barnshafandi konur nema brýna nauðsyn beri til og er þá sýnd sérstök aðgæsla m.t.t. geislavarna. Reynt er eftir fremsta megni að velja aðrar rannsóknaraðferðir sé þess nokkur kostur.