Eftir skurðaðgerð

brjóstamidstod_haus_13062017.png (48688 bytes)

Verkir

Verkir fylgja öllum skurðaðgerðum. Í brjóstaaðgerðum er beitt aðferðum bæði fyrir og eftir aðgerð til að draga úr verkjum eins mikið og unnt er og oftast nær er hægt að koma nær alveg í veg fyrir þá. Verkir eru þó mjög einstaklingsbundnir. 

Fyrir aðgerð er stundum gefin deyfing í bakið sem veldur því að skársaukaskynið á aðgerðarsvæðinu dofnar. Svæfingarlæknir ræðir við konuna um möguleikann á þessari tegund deyfingar í undirbúningi aðgerðar á göngudeild. Stundum er staðdeyfilyfi sprautað í brjóstið áður en aðgerð hefst en eftir að konan er sofnuð. 
Þegar konan er komin á legudeild eru verkjatöflur alltaf gefnar og verkjalyf í æð ef þarf. Eftir stórar aðgerðir er stundum notuð svokölluð sjúklingastýrð verkjameðferð (PCA). Þá getur konan gefið sér verkjalyf í æð eftir þörfum með því að ýta á hnapp. Þessi aðferð er yfirleitt notuð í 2-3 daga eftir aðgerð.

Útskrift af sjúkrahúsi

Fyrir útskrift af legudeild eftir aðgerð fer hjúkrunarfræðingur eða læknir yfir umhirðu sára og hvað konan má taka sér fyrir hendur næstu vikur. Sjúkraþjálfari fer yfir æfingar fyrir öxl ef aðgerð hefur verið gerð á holhönd. Konan fær endurkomutíma til eftirlits hjá lækni á göngudeild, vottorð eins og við eiga og lyfseðil ef þörf er á lyfseðilsskyldum lyfjum. Langflestum konum nægir að taka venjuleg verkjalyf sem marir eiga heima og hægt að kaupa án lyfseðils svo sem parasetamól (Panodil, Paratabs), Ibufen og Voltaren (Vóstar). Mælt er með reglulegri töku verkjalyfja í 1-2 vikur eftir aðgerð en verkjalyfjaþörf er þó mjög misjöfn.

Mar og bólgur

Það er algengt að mar myndist í brjósti eftir fleygskurð eða á brjóstvegg eftir brjóstnám. Bólgur er líka algengar og geta myndast í brjósti, brjóstvegg, öxl og handlegg. Mar og bólga er eðlilegur þáttur í því að sár grói. Stundum er mælt með því að konur noti sérstakan stuðningsbrjóstahaldara dag og nótt í allt að 6-8 vikur eftir aðgerð eða þangað til mesta marið og bólgan hefur horfið.

Vökvamyndun undir húð

Þegar drenslöngur hafa verið fjarlægðar er algengt að vökvi safnist fyrir undir húðinni. Þetta er ekki hættulegt og leysist af sjálfu sér en áður en það gerist þurfa sumar konur að koma á göngudeild þar sem hjúkrunarfræðingur stingur nál í vökvasafnið og tæmir það. Stundum þarf að gera þetta nokkrum sinnum áður en vökvasöfnunin hættir og einstöku sinnum tekur það nokkrar vikur. Svipuð vökvasöfnun getur átt sér stað í holhöndinni eftir eitlatöku.
Sjá nánar um vökvasöfnun undir húð (pdf).

Sýking

Sýking getur myndast hvenær sem er eftir brjóstaaðgerðir þar til skurðir hafa gróið sem tekur 2-3 vikur. 
Eftirfarandi einkenni geta verið merki um sýkingu:
 • Vaxandi eymsli/verkir, bólga eða hiti í eða kringum skurðinn 
 • Vaxandi roði í eða kringum skurðinn
 • Útferð úr skurði
 • Almenn vanlíðan með hækkuðum líkamshita Ef slík einkenni koma fram er mikilvægt að hafa samband  og fá skoðun á skurðsvæðinu. Því fyrr sem rétt sýklalyf eru gefin því líklegra er að uppræta megi sýkinguna án frekari skakkafalla.

Breytingar á skyni / Dofi

Ef þörf er á fullri eitlatöku úr holhönd geta fylgt skynbreytingar svo sem náladofi eða dofi við snertingu, einkum í holhöndinni sjálfri og á innanverðum upphandlegg. Ástæðan er sú að taugar sem veita húðinni á þessum svæðum tilfinningu liggja gegnum holhöndina og fara oft í sundur þegar eitlatakan er framkvæmd. Svipuð einkenni geta komið fram á brjóstvegg eftir brottnám á brjósti. Oftast minnka þessi einkenni smám saman og jafnvel hverfa en geta stundum varað ævilangt. Konur venjast þó þessum skynbreytingum með tímanum.

Margúll

Einstöku sinnum getur margúll (hematoma) eða blóðkökkur myndast undir húð á aðgerðarsvæðinu og valdið vaxandi bólgum, eymslum og stífleika í eftirstæðu brjósti eða á brjóstvegg. Ef þetta gerist fljótlega eftir aðgerðina og er hratt vaxandi er stundum þörf á því að taka konuna aftur til aðgerðar og tæma margúlinn. Ef margúll myndast hægar og á nokkrum dögum er yfirleitt ekki þörf á aðgerð en það getur tekið nokkrar vikur fyrir líkamanum að brjóta niður blóðkökkinn og frásoga.

Strengir

Eftir holhandaraðgerð geta myndast strengir frá holhöndinni og niður eftir upphandleggnum. Þessir strengir geta valdið stífleika við hreyfingu axlar og stundum eymslum eða verkjum. Á ensku er þetta kallað „axillary web syndrome“ og getur myndast 6-8 vikur eftir holhandaraðgerð eða jafnvel nokkrum mánuðum síðar. Ekki er vitað með vissu hvað veldur þessu en hugsanlega tengist það breytingum í sogæðum upphandleggs. Meðferðin er tog á þessum strengjum með hjálp sjúkraþjálfara.

Handarbjúgur

Bólgur myndast í kringum aðgerðarsvæðin á bringu og í holhönd fyrst eftir aðgerð en hjaðna oftast á nokkrum vikum. Langvarandi handarbjúgur getur verið fylgifiskur holhandaraðgerðar og getur myndast vikum, mánuðum eða jafnvel árum eftir aðgerð. Rannsóknir hafa sýnt að allt að 15-20% kvenna geta fengið einhver einkenni handarbjúgs eftir holhandaraðgerð en um 5% alvarlegt form af þessu vandamáli. Sérhæfð sjúkraþjálfun getur hjálpað við meðferð vegna þessa. 
 

 

Þegar ein til tvær vikur hafa liðið frá skurðaðgerð kemur endanleg vefjagreining á þeim vef úr brjósti og holhönd sem meinafræðingur hefur skoðað. Á grundvelli þeirrar greiningar er endanleg ákvörðun tekin um hvers konar framhaldsmeðferð sé ráðlögð. Það getur verið geislameðferð, meðferð með töflum eða krabbameinslyfjum í æð, allt eftir eðli og umfangi sjúkdóms hjá hverjum einstaklingi. Oftast er talið ráðlegt að veita eftirmeðferð af einhverri gerð til þess að draga úr líkum þess að sjúkdómurinn taki sig upp aftur. Konan fær tíma hjá krabbameinslækni tveimur til fjórum vikum eftir aðgerð til þess að ræða eftirmeðferðina nánar.

Þetta myndskeið um brjóstauppbyggingu gefur grunnupplýsingar um þá aðgerð en ítarlegri upplýsingar eru veittar í viðtölum á göngudeild fyrir aðgerð. Það er mikilvægt að konan, maki og aðrir nánir aðstandendur viti að ákvörðun um brjóstauppbyggingu er ákaflega persónuleg og enginn getur tekið þá ákvörðun fyrir þann sem í hlut á. Það skiptir miku máli að konur sem eru að hugleiða brjóstauppbyggingu kynni sér vel þær aðferðir sem til greina koma, skilji kosti þeirra og galla og hafi raunhæfar væntingar til útkomu.

Tafarlaus eða síðbúin uppbygging brjósta

Brjóstauppbygging getur verið tafarlaus eða síðbúin. Tafarlaus uppbygging er um leið og brjóstnámið fer fram en síðbúin uppbygging yfirleitt einu ári eftir brjóstnám eða síðar. Á brjóstaskurðlækningaeiningu Landspítala er öllum konum sem þurfa að gangast undir brjóstnám gefið tækifæri til þess að ræða möguleika á brjóstauppbyggingu. Um það bil þriðjungur kvenna sem gangast undir brjóstnám hér á landi fer í tafarlausa uppbyggingu.

Helsti munurinn á tafarlausri uppbyggingu og síðbúinni stafar af því að mun meiri brjóstahúð er fjarlægð við brjóstnám ef uppbygging er ekki gerð um leið. Vegna þess að minni húð er til staðar þarf að þenja vefinn á bringunni meira, eða flytja að meiri húð, til þess að ná tilætlaðri stærð á uppbyggða brjóstinu. Ef geisla hefur þurft bringuna eftir brjóstnám getur það einnig haft áhrif sem hamla uppbyggingu.

Ýmsar frábendingar geta verið gegn tafarlausri uppbyggingu brjósta.  
Þessar helst:

 • Slæmt almennt heilsufar, einkum hjarta/æða- eða lungnasjúkdómur
 • Reykingar
 • Ef geislameðferð þarf eftir brjóstnámið eða miklar líkur eru á því
Í þessu myndskeiði er einkum fjallað um tafarlausa uppbyggingu. Tekið skal fram að ef frábendingar eru gegn tafarlausri uppbyggingu eða konan sjálf kýs frekar síðbúna uppbyggingu er slík uppbygging oftast gerð á sama hátt og sú tafarlausa.

Sílíkonpúði

Brjóstauppbyggingum má skipta í tvær megin gerðir. Annars vegar er sett inn ígræði, þ.e. sílíkonpúði, og hins vegar er eiginn vefur konunnar notaður og þá oftast vöðvi, fita og húð af bakinu. Einnig er til að nota bæði ígræði og eiginn vef.

Uppbygging með púða er oftast í tveimur áföngum. Í fyrri aðgerðinni er gert húðsparandi brjóstnám þar sem geirvarta er fjarlægð og vörtubaugur með brjóstkirtlinum en brjósthúð að öðru leyti skilin eftir.  Vefjaþenjara er svo komið fyrir undir brjósthúðinni og brjóstvöðvanum. Vefjaþenjari er nokkurs konar blaðra sem hægt er að sprauta saltvatni í og búa þannig til holrými undir húð og vöðva. Fyllt er á vefjaþenjarann þangað til því rúmmáli er náð sem er sambærilegt við rúmmál heilbrigða brjóstsins. Vefjaþenjara er svo skipt út fyrir silikonpúða í annarri styttri aðgerð, yfirleitt þremur til sex mánuðum eftir þá fyrri. Stundum er uppbygging með ígræði gerð í einum áfanga, þ.e. silikonpúði settur strax. Það ræðst meðal annars af eiginleikum brjósthúðarinnar og ákvörðun skurðlæknisins hvor leiðin er farin.

Oft er mælt með því að gera einnig aðgerð á heilbrigða brjóstinu til þess að samræmi verði sem best á milli uppbyggða brjóstsins og þess heilbrigða. Hér getur verið um að ræða brjóstaminnkun, lyftingu eða jafnvel stækkun. Endanleg ákvörðun um þetta er alfarið í höndum konunnar og mikilvægt að ræða opinskátt um þær væntingar sem hún hefur um útkomu.

Eftir uppbyggingu með ígræði má vænta samræmis á stærð og lögun uppbyggða brjóstsins og þess heilbrigða sé konan í brjóstahaldara, en án hans er oftast sjáanlegur munur þótt hann geti verið minni ef gerð var aðgerð á heilbrigða brjóstinu. Þegar fram líða stundir má búast við að misræmi á stöðu brjóstanna aukist vegna þess að heilbrigða brjóstið sígur náttúrulega en uppbyggða brjóstið ekki. Auk þessa getur myndast örvefur í kringum púðann sem getur valdið því að uppbyggða brjóstið verði harðara viðkomu eða valdið breytingu á lögun þess. Af þessum ástæðum er all algengt að endurtaka aðgerðina nokkrum árum síðar til þess að viðhalda samræmi brjóstanna.

Alvarlegasti snemmkomni fylgikvillinn eftir uppbyggingu með ígræði er sýking. Gerist það er eina lausnin stundum sú að taka ígræðið, gefa sýklalyf og byrja uppbygginguna aftur frá grunni eftir nokkra mánuði. Þessi áhætta er þó lítil eða innan við 1-2%.

Nokkrum mánuðum eftir að endanlegur púði hefur verið settur er hægt að búa til nýja geirvörtu ef konan kýs. Þar má t.d. nota brjósthúðina eða hluta af geirvörtu heilbrigða brjóstsins ef hún er nógu stór. Uppbygging á geirvörtu er yfirleitt gerð í staðdeyfingu á göngudeild. Lokahnykkurinn á brjóstauppbyggingu er svo litun eða „tattúering“ á geirvörtu og vörtubaug tveimur til þremur mánuðum eftir geirvörtuaðgerðina. Litun er gerð af hjúkrunarfræðingi á göngudeild og þarf yfirleitt að gera hana tvisvar til þrisvar sinnum svo liturinn haldi sér til lengri tíma.

Bakfellsvöðvinn notaður

Hin tegund tafarlausrar brjóstauppbyggingar er oft kölluð „bakaðgerðin“. Þá er notaður bakfellsvöðvi (latissimus dorsi), oftast með þeirri fitu og húð sem yfir honum er. Gert er húðsparandi brjóstnám og með skálægum skurði á bakinu er vöðvinn losaður frá festum sínum og fluttur undir húðina þar sem brjóstkirtillinn var. Oftast er hægt að byggja upp geirvörtu í sömu aðgerð þannig að aðeins litun er eftir nokkrum mánuðum síðar.

Bakaðgerðin er í eðli sínu ólík uppbyggingu með ígræði vegna þess að notaður er eiginn vefur konunnar þótt stöku sinnum sé einnig þörf á litlum púða til fyllingar. Brjóst sem er uppbyggt með eigin vef er að sumu leyti náttúrulegra en ef ígræði er notað. Það hreyfist og er viðkomu eins og eðlilegt brjóst og getur stækkað eða minnkað ef konan þyngist eða léttist. Þessi aðgerð er töluvert stærri og lengri en uppbygging með ígræði. Sjúkrahúslegan er lengri og meiri tíma tekur að ná fyrri færni. Áhætta fylgir þessari aðgerð sem felst í því að æðarnar sem næra vöðvann verði fyrir álagi við flutninginn svo að blóðflæði um þær skerðist svo mikið að drep myndist í vöðvanum sem þá þarf að fjarlægja. Þetta gerist þó í innan við 1% tilfella þannig að almennt eru þessar aðgerðir áhættulitlar.

Bakfellsvöðvinn er oft kallaður klifurvöðvi líkamans. Apar eru með mjög sterka bakfellsvöðva og við notum hann daglega, meðal annars til að lyfta okkur upp af stól, við sund eða við að toga niður stöngina í ræktinni. Þegar vöðvinn er fluttur getur verið greinanlegur munur á styrk við ákveðnar hreyfingar. Þeim mun duglegri sem konan er í sjúkraþjálfun og líkamsrækt eftir aðgerð nær hún fljótar og betur fyrri færni. Hálfu ári eftir aðgerð finna rúmlega 90% af konum ekki lengur mun á hreyfigetu eða styrk við daglegar athafnir.

Endursköpun brjósts með bakfellsflipa (PDF)

 • Fara varlega með húðflúrið til að liturinn haldist og til að koma í veg fyrir sýkingar.
 • Vaselín er borið á húðflúrið eftir meðferðina og daglega þar til hrúðrið dettur af (tekur 4-7 daga).
 • Það má taka umbúðinar af um kvöldið eða þegar heim er komið.
 • Æskilegt að láta lofta vel um húðflúrið. Ef farið er í brjóstahaldara þá þarf að setja grisju inn í hreinan brjóstahaldara. 
 • Ekki klóra eða nudda svæðið fyrstu vikuna. Ef það er mikill kláði þá má bera vasilín yfir húðflúrið.
 • Mikilvægt er að halda húðflúrinu þurru og ekki bleyta það, ekki fara í sturtu né leikfimi (ekki svitna).
 • Bera sólarvörn á húðflúrið ef þú ert í sól (þó að þú sért í bol eða sundfötum).
 • Því minna sem átt er við húðflúrið því meiri líkur að það haldist.
 • Meðferðin er að minnsta kosti tvö eða fleiri skipti í byrjun. Húðflúrið dugar ú 12-18 mánuði, þá þarf að endurlita.

Mikilvægt að hafa í huga

 • 40-60 % af litnum dofnar eftir 1-2 vikur 
 • Ljósari litir fölna fyrr en dökkir 
 • Oftast verður einhver munur á lit á vörtubaugnum eftir meðferðina 
 • Næsta meðferð/lagfæring verður ekki fyrr en eftir 6 vikur en ekki síðar en eftir 6 mánuði
 • Þú þarft að láta vita ef þú ferð í segulómskoðunar-rannsókn (MRI) eða tölvusneiðmynd (CT-skann). Liturinn sem notaður er, gæti verið sýnilegur með ákveðnum hætti á þessum rannsóknum.

Tattúið á að gróa á u.þ.b. viku. Ef ekki, hafðu þá samband við okkur á göngudeild 10E í síma 825 3520.

Jarþrúður Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur á göngudeild 10 E

 

 

Æfingar eftir aðgerð á brjósti og holhönd
Markmið með æfingum eftir aðgerð á brjósti og holhönd er að koma í veg fyrir hreyfiskerðingu í öxl og vöðvabólgu í herðum sem getur verið afleiðing af aðgerðinni.