Spurt og svarað

brjóstamidstod_haus_13062017.png (48688 bytes)
Hér er að finna nokkrar af algengustu spurningum og svörum sem koma upp í viðtölum við konur sem greinast með brjóstakrabbamein. 

Tíminn frá greiningu að aðgerð fer að hluta eftir tegund sjúkdóms. Ef um ífarandi krabbamein er að ræða fer aðgerð yfirleitt fram tveimur til fjórum vikum eftir greiningu ef konan sjálf óskar ekki eftir lengri frest. Ef um flókna aðgerð eins og brjóstauppbyggingu er að ræða veldur aukin þörf á upplýsingum og fræðslu því að lengri tíma þarf til ákvörðunar. Langoftast er aðgerð þó framkvæmd innan sex vikna frá greiningu. Engar rannsóknir benda til þess að bið eftir aðgerð í 6 til 8 vikur, hafi áhrif á horfur. Ef um setkrabbamein er að ræða (ductal carcinoma in situ, DCIS) er óhætt að bíða í nokkra mánuði.
Yfirleitt mælum við með því að þú keyrir ekki í eina til tvær vikur eftir skurðaðgerð. Þetta fer þó eftir því hvernig aðgerð var gerð á brjósti og holhönd. Ef þú hefur farið í brjóstauppbyggingu eða mikla holhandaraðgerð mælum við með því að keyra ekki í þrjár til fjórar vikur eftir aðgerð.
Ef vatnsheldar umbúðir hafa verið settar á skurðinn er óhætt að fara í sturtu daginn eftir aðgerðina. Eftir fjórar vikur er óhætt að fara í bað eða leggja sárið í bleyti á sambærilegan hátt, svo framarlega sem skurðir hafi gróið eðlilega. Forðast skal að fara í mjög heit böð eða sundlaugarpotta, en snöggar hitabreytingar á handlegg, þeim megin sem eitlar úr holhönd voru teknir, geta aukið hættu á myndun handarbjúgs.
Krem má fara á aðgerðarsvæðið og húðina í kring þegar skurður er gróinn og engin sýkingarmerki eru fyrir hendi (yfirleitt 2 vikur). Við mælum með því að nota ekki svitalyktareyði í fjórar til sex vikur eftir aðgerð. Það er einkum vegna þess að sár í holhönd getur tekið lengri tíma að gróa en sár á brjósti eða brjóstvegg.
Þetta fer eftir umfangi aðgerðarinnar. Eftir fleygskurð er yfirleitt miðað við tvær vikur, eftir brottnám fjórar vikur og eftir brjóstauppbyggingu er viðmiðunartími fjórar til sex vikur.
Almennt er óhætt að fara aftur í ræktina um það bil 4-6 vikum eftir aðgerðina en getur verið síðar, fer eftir umfangi hennar. Ef þú vilt lyfta lóðum þá skaltu byrja með mjög létta þyngd og hægt og bítandi (á nokkrum vikum) vinna þig upp í þyngd.

Ef varðeitlataka hefur verið gerð má vænta stífleika sem ætti að fara minnkandi með hverjum degi í u.þ.b. 2 vikur og þú ættir að vera komin með fulla hreyfigetu eftir það. Ef margir eitlar hafa verið teknir, á að stefna að því að vera kominn með fulla hreyfigetu eftir fjórar til sex vikur. Áður en þú útskrifast af sjúkrahúsinu færð þú fræðslu um æfingar fyrir öxl og handlegg og kennslu hjá sjúkraþjálfara.
Sjá mjög gott kennslumyndskeið um æfingar eftir skurðaðgerð vegna brjóstakrabbameins.

 

Við aðgerðir á holhönd verða óhjákvæmilegar skemmdir á taugum sem miðla tilfinningu frá húðinni á holhandarsvæðinu, aftur undir herðablað og niður eftir upphandlegg innan- og aftanverðum, ekki þó niður fyrir olnboga. Tilfinning í húðinni á þessum svæðum getur eftir aðgerð verið eins og alger dofi, nálardofi, hiti eða kuldi eða að húðin sé rök. Þetta ástand getur að hluta gengið til baka á löngum tíma en ekki er við því að búast að tilfinningin verði alveg eðlileg.

Vessi sem í byrjun er blóðlitaður lekur alltaf út í það holrúm sem myndast eftir brjóstnám eða eitlatöku úr holhönd. Sogslanga er höfð í holrúminu fyrstu dagana eftir aðgerð til þess að leiða þennan vessa út. Það er mjög algengt að vessaleki standi eitthvað lengur en slangan er höfð inni í líkamanum. Stundum þarf þá að tæma vökvann út, einu sinni eða oftar, með einfaldri ástungu sem er sársaukalaus.

Vökvasöfnun undir húð eftir brottnám á brjósti og eitlum (pdf)

Meðferð við brjóstakrabbameini ræðst af ýmsum þáttum sem geta verið mismunandi milli einstaklinga. Meðferðin er því sniðin að sjúkdómnum í hverju einstöku tilfelli og ekki er hægt að bera saman við önnur tilfelli. Þetta á jafnt við um skurðaðgerðir og viðbótarmeðferð með geislum og lyfjum.
Ef skurðmeðferðin felst í fleygskurði er oftast mælt með geislameðferð á brjóstið sem hluta af viðbótarmeðferð eftir aðgerð. Hvaða önnur viðbótarmeðferð er ráðlögð fer eftir mörgum þáttum svo sem tegund brjóstakrabbameins, stærð, vaxtarhraða, næmi fyrir hormónum og ástandi holhandareitla, auk þess sem taka þarf tillit til aldurs og heilsufars konunnar. Margir af þessum þáttum eru ekki þekktir fyrir skurðaðgerð. Því er oft engin leið að ákvarða um þörf fyrir viðbótarmeðferð fyrr en niðurstaða allra rannsókna liggur fyrir, en það getur tekið allt að tveimur vikum frá aðgerð að telja.
Ráðleggingar um það hvort taka skuli hluta af brjósti eða brjóstið allt fer einkum eftir stærð og staðsetningu æxlis í brjóstinu og stærð og lögun brjóstsins. Eins og gildir um viðbótarmeðferð eftir aðgerð þarf stundum einnig að taka tillit til aldurs konu og almennrar heilsu.