Leit
Loka

Geðrofsteymi

Teymið samanstendur af þverfaglegum hópi lækna, sálfræðinga, hjúkrunarfræðinga, iðjuþjálfa, félagsráðgjafa, sjúkraþjálfa og læknaritara.

Banner mynd fyrir  Geðrofsteymi

Staðsetning: Göngudeild geðsviðs Kleppi (GDKL)
Opnunartími: Alla virka daga 08:00 - 16:00
Sími: 543-4200

Hagnýtar upplýsingar

Teymið samanstendur af þverfaglegum hópi lækna, sálfræðinga, hjúkrunarfræðinga, iðjuþjálfa, félagsráðgjafa og heilbrigðisgagnafræðinga.
Teymisstjóri hefur umsjón með verkaskiptingu og daglegum rekstri teymisins.
Geðrofsteymi GDKL sinnir meðferð og stuðningi við einstaklinga með geðrofssjúkdóma sem þurfa þverfaglega þjónustu á sjúkrahúss göngudeild með það að markmiði að bæta heilsu og lífsgæði þeirra.

Sótt er um þjónustu geðrofsteymis með því að senda inn beiðni á inntökuteymi geðrofsmeðferðar. Aðeins er tekið við beiðnum frá fagaðilum. Þegar beiðni hefur borist teyminu er farið yfir hana innan tveggja vikna. Þá er metið hvort einstaklingur telst í markhópi geðrofsteymis. Ef svo reynist er viðkomandi kallaður í forviðtal eins fljótt og auðið er.

Skoðið hér hvað þarf að vera í tilvísunninni: Innihald beiðna til inntökuteymis geðrofsmeðferðar og Samfélagsgeðteymi

Geðrofsteymið beitir gagnreyndum batamiðuðum meðferðum skv. klínískum leiðbeiningum þ.m.t.:

  • Einstaklingsviðtöl
  • Lyfjameðferð
  • Vitjanir í heimahús
  • Efling félagslegrar virkni og tengsla út í samfélagið
  • Hugræn atferlismeðferð
  • Stuðningur við fjölskyldur
  • Stuðningur við nám og atvinnu
  • Ráðgjöf, fræðslu og stuðning við heilsueflingu

Hvað er geðrof og geðrofssjúkdómar?

Geðrof er heilkenni geðrænna einkenna sem geta verið tímabundið ástand t.d. í tengslum við notkun vímuefna eða vegna svo kallaðra geðrofssjúkdóma en þekktastur þeirra er geðklofi. Geðrof hefur áhrif á það hvernig einstaklingurinn skynjar umhverfi sitt, hvernig hann hugsar og hagar sér. Sá sem veikist af geðrofi missir að einhverju leyti tengsl við raunveruleikann og upplifir ofskynjanir og ranghugmyndir. Sjúkdómseinkenni eru mjög einstaklingsbundin. Sumir hafa fá einkenni en aðrir hafa mörg einkenni. Einkennin breytast oft með tímanum.

Algengustu einkenni geðrofs eru eftirfarandi:

Ranghugmyndir eru hugmyndir sem einstaklingurinn trúir staðfastlega þó svo að skýr rök eða sannanir séu fyrir því að þær geti ekki átt sér stoð í raunveruleikanum. Ranghugmyndir geta komið tímabundið fram í ýmsum geðröskunum t.d. þunglyndi. Aðsóknaranghugmyndir eru algengar í geðrofi t.d. getur viðkomandi haldið að nágrannar hans stjórni honum með rafsegulbylgjum. Tilvísunarranghugmyndir eru einnig algengar og lýsa sér t.d. með því að einstaklingurinn telur að ýmsir hlutir eða atburðir í umhverfinu hafi sérstaka merkingu sem beint sé til hans. Þannig getur viðkomandi talið að auglýsingaskilti eða persóna í sjónvarpsþætti sé að senda honum skilaboð. Enn önnur tegund eru stjórnunarranghugmyndir sem snúast gjarnan um að einstaklingnum sé stjórnað af einhverjum utanaðkomandi öflum.

Ofskynjanir geta tengst hvaða skynfæri sem er en heyrnarofskynjanir eru algengastar. Lýsa þær sér oftast með því að viðkomandi heyrir rödd eða raddir sem tala til eða um einstaklinginn. Raddir þessar lýsa gjarnan hegðun viðkomandi eða vara hann við einhverri aðsteðjandi hættu. Fólk í geðrofi vill oft ekki ræða um ofskynjanir sínar, jafnvel við sína nánustu.

Hugsanatruflanir lýsa sér með því að skipulag og flæði hugsana er truflað. Tengsl milli hugsana verða gjarnan órökrétt og erfitt getur reynst að skilja hvað viðkomandi á við þegar hann segir frá hugsunum sínum. Oft virðist einstaklingurinn tala í kringum hlutina eða flakka á milli hugsana.

Ýmis önnur einkenni geta fylgt geðrofi og geðrofssjúkdómum. Mörg þeirra eru kölluð einu nafni neikvæð einkenni og lýsa sér í stuttu máli með því að ýmislegt í hugsunum og viðfangsefnum viðkomandi breytist eða hverfur. Lýsir þetta sér oft sem tilfinningaflatneskja, áhugaleysi, framtaksleysi og erfiðleikum við að skipuleggja og framkvæma ýmsar athafnir daglegs lífs.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?