„Blóðbankinn stendur á tímamótum í dag, 14. nóvember 2006, en fyrir 53 árum tók hann til starfa. Enn er hann í húsinu við Eiríksgötu og þar hefur þrengt að starfseminni með sífellt auknum umsvifum. Of fáir gera sér grein fyrir mikilvægi þessa banka, sem höndlar með afar dýrmæta afurð, blóð og blóðhluta úr mönnum. Þessi afurð er einstök að því leyti að hún verður aðeins ,,framleidd" í mannslíkamanum. Margir þurfa blóð vegna sjúkdóma og slysa. Með hækkandi aldri þjóðarinnar eykst þörfin fyrir blóð og þar með nýja blóðgjafa.
Blóð er heilbrigðisþjónustunni nauðsyn. Í raun gegnir það hlutverki lyfs eða lyfja, en ekki þarf þó að kaupa það hérlendis, því enn er nægt framboð. Blóðbankinn hefur sýnt þrautseigju við að afla nýrra blóðgjafa, uppá síðkastið með aðstoð OG Vodafone, sem nú heitir Vodafone. Það er ánægjulegt að fyrirtæki vilja styðja þennan þarfa málstað. Sem fyrr segir hefur verið þröngt og örðugt um starfsemina lengi. Það stendur nú til bóta og mun Blóðbankinn flytjast á Snorrabraut í hús sem kennt hefur verið við Skátabúðina og er það mikil framför frá því sem verið hefur, þótt okkur velunnurum bankans hafi þótt við hæfi að hann fengi allt húsið til afnota.
Það eru sannarlega tímamót að nú sé nýtt hús í sjónmáli og ástæða til að fagna því merka framtaki og viðurkenningu á starfi Blóðbankans. Vonandi tekst vel að innrétta og ganga frá húsinu til þeirrar notkunar sem því verður ætlað. Á árinu urðu önnur tímamót. Blóðgjafafélag Íslands, sem stofnað var í skjóli Blóðbankans 16. júlí 1981, hefur lifað aldarfjórðung. Félagið er málsvari blóðgjafa og samstarfsaðili Blóðbankans á flestum sviðum. Það starfar sjálfstætt og áskilur sér rétt til að halda fram skoðunum sínum og standa vörð um rétt blóðgjafa, en virkir eru um tíuþúsund. Skráðir félagsmenn eru ríflega þrjú þúsund. Bæði Blóðbankinn og Blóðgjafélag Íslands óska þess að félögum fjölgi.
Blóðgjafafélagið gerir sér grein fyrir þeirri skyldu sinni að fræða almenning og blóðgjafa um mikilvægi starfsemi Blóðbankans fyrir almenning á Íslandi og stóð á árinu fyrir ráðstefnu Norðurlandanna og Eystrasaltslandanna um blóðgjöf, blóðgjafarstarfsemi og hvernig staðið er að öflun nýrra blóðgjafa. Hún heppnaðist vel og opnaði augu okkar fyrir því hve mikilvægt er að styðja vel starf Blóðbankans. Enn ein tímamót verða á árinu þegar fyrsti Íslendingurinn mun gefa blóð í 150. sinn.
Almenningur hefur vissulega styrka stoð af starfi Blóðbankans og án þessa merka banka myndi heilbrigðisþjónustan vera mun fátækari en hún er. Starfsfólki Blóðbankans og þjóðinni er óskað til hamingju með daginn og bankanum gæfu og gengis í mikilvægu starfi sínu.“
Ólafur Helgi Kjartansson er formaður Blóðgjafafélags Íslands, stjórnarmaður í International Federation of Blood Donor Organizations, sýslumaður á Selfossi og mikill áhugamaður um málefni blóðgjafa og Blóðbankans
Ólafur Helgi Kjartansson er formaður Blóðgjafafélags Íslands, stjórnarmaður í International Federation of Blood Donor Organizations, sýslumaður á Selfossi og mikill áhugamaður um málefni blóðgjafa og Blóðbankans