Ráðin hjúkrunardeildarstjóri á hjúkrunar- og hvíldarinnlagnadeild K-2 á öldrunarsviði Gerður Baldursdóttir hjúkrunarfræðingur hefur verið ráðin til að gegna starfi hjúkrunardeildarstjóra á hjúkrunar- og hvíldarinnlagnadeild K-2 á öldrunarsviði á Landakoti frá 14. ágúst 2006. Ráðning hennar er á grundvelli umsóknar um stöðuna, umfjöllunar í stöðunefnd hjúkrunarráðs LSH og viðtals. Gerður lauk hjúkrunarprófi frá Hjúkrunarskóla Íslands árið 1975, stjórnunarnámi frá Nýja Hjúkrunarskólanum 1988 og 15 eininga námi í stjórnun og rekstri á heilbrigðissviði frá Endurmenntun Háskóla Íslands árið 2001. Gerður hefur starfað við hjúkrun óslitið frá því hún lauk námi, lengst af á Landspítala á ýmsum sviðum hjúkrunar; var hún m.a. aðstoðardeildarstjóri í 8 ár. Frá árinu 2000 hefur Gerður starfað við öldrunarhjúkrun. Hún rak hjúkrunardeildir fyrir aldraða á LSH í 2 ár sem verktaki, bæði í samvinnu við aðra og sjálfstætt. Gerður kemur nú aftur til starfa á LSH eftir að hafa verið deildarstjóri á hjúkrunarheimilinu Eir frá árinu 2004 þar sem hún sá um að skipuleggja og opna dagdeild fyrir minnissjúka aldraða. |
||
Fastráðin hjúkrunardeildarstjóri á kvenlækningadeild 21A á kvennasviði Hanna Kristín Guðjónsdóttir ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur hefur verið ráðin til að gegna starfi hjúkrunardeildarstjóra kvenlækningadeildar 21A á kvennasviði frá 1. september 2006 en hún var sett í stöðuna í ágúst 2005. Ráðning hennar nú er á grundvelli umsóknar um stöðuna, umfjöllunar í stöðunefnd hjúkrunarráðs LSH og viðtals. Hanna Kristín útskrifaðist sem ljósmóðir frá Ljósmæðraskólanum árið 1982 og sem hjúkrunarfræðingur frá Nýja Hjúkrunarskólanum 1986. Hún sótti námskeið við Háskóla Íslands um fjölskyldur og fjölskyldustefnur 2000-2001. Auk þess hefur hún sótt fjölda annarra námskeiða á sínu fagsviði, bæði innan stjórnunar og í klíník. Hanna Kristín hefur langa starfsreynslu sem ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur. Hún starfaði á krabbameinslækningadeild LSH í rúm 2 ár og á kvennasviði hefur hún starfað í 13 ár. Hanna Kristín hefur tekið virkan þátt í þróunarvinnu á kvennasviði, meðal annars að mótun vinnu- og verklagsreglna fyrir hjúkrun kvenna eftir krabbameins- og aðrar skurðaðgerðir, gæðahandbókar og leiðbeininga um atvikaskrá og verklagsreglna um störf vaktstjóra deildar 21A. Hún hefur auk þess sinnt kennslu og skipulagt fræðslunámskeið af ýmsu tagi fyrir starfsfólk deildarinnar. Hanna Kristín hefur starfað í þverfaglegri skurðstofunefnd kvennadeildar og setið í gæðaráði frá árinu 2005. |
||
Ráðin hjúkrunardeildarstjóri á skurðdeild E-5 á svæfinga-, gjörgæslu- og skurðstofusviði Ingibjörg Helgadóttir hjúkrunarfræðingur hefur verið ráðin til að gegna starfi hjúkrunardeildarstjóra skurðdeildar E-5 á svæfinga-, gjörgæslu- og skurðstofusviði frá 1. september 2006. Ráðning hennar er á grundvelli umsóknar um stöðuna, umfjöllunar í stöðunefnd hjúkrunarráðs LSH og viðtals. Ingibjörg lauk hjúkrunarprófi frá Hjúkrunarskóla Íslands árið 1985, viðbótarnámi í skurðhjúkrun frá Háskóla Íslands 1996 og sérskipulögðu BSc námi í hjúkrun frá Háskóla Íslands 1997. Ingibjörg hefur unnið við hjúkrun nær óslitið frá árinu 1985, við skurðhjúkrun frá árinu 1993. Hún var markaðs- og sölustjóri hjá Lyfjaverslun Íslands 1998 - 2000. Síðastliðin 4 ár var Ingibjörg deildarstjóri á skurðdeild, speglunardeild og dauðhreinsunardeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri (FSA). Þar tók hún virkan þátt í þróunarvinnu, m.a. að gæðamálum skurðstofa, gerð verklagsreglna og stefnumiðaðs árangursmats ásamt því að hafa yfirumsjón með stefnumótunarvinnu fyrir sínar deildir. Hún var fulltrúi FSA við undirbúning og framkvæmd á diplómanámi við Háskóla Íslands í skurð-, svæfinga-, gjörgæslu- og bráðahjúkrun. Ingibjörg sá um bóklega og verklega kennslu í skurðhjúkrun hjá 3. árs nemum við Háskólann á Akureyri.
Hjúkrunardeildarstjórar á LSH starfa samkvæmt starfslýsingu. |
Þrír hjúkrunardeildarstjórar ráðnir
Gerður Baldursdóttir, Hanna Kristín Guðjónsdóttir og Ingibjörg Helgadóttir hafa nýlega verið verið ráðnar deildarstjórar hjúkrunar á LSH.