Viðar Eðvarðsson barnalæknir við Landspítala - háskólasjúkrahús hefur fengið viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Óskars Þórðarsonar barnalæknis fyrir rannsóknir á steinsjúkdómi í nýrum. Viðurkenninging var afhent þriðjudaginn 27. febrúar 2007.
Viðar hefur undanfarin ár leitt rannsóknir á sjúkdómnum bæði hjá börnum og fullorðnum. Rannsóknir Viðars benda til þess að algengi nýrnasteina í fullorðnum Íslendingum sé svipað og gerist í öðrum vestrænum samfélögum en nýgengi sjúkdómsins sé hátt í íslenskum börnum, þegar miðað er við sambærilegar erlendar rannsóknir. Rannsóknir Viðars og félaga benda einnig til þess að myndun nýrnasteina sé ættlæg. Athyglisvert er að algengi vandamálsins virðist hafa aukist umtalsvert hér á landi síðustu 20-25 árin.
Mynd: Viðurkenningin afhent. Guðlaug Þorsteinsdóttir læknir á LSH og eiginkona Viðars, Margaret Scheving Thorsteinsson, Viðar Eðvarðsson barnalæknir og verðlaunahafi, Bent Scheving Thorsteinsson stofnandi sjóðsins, Kristín Ingólfsdóttir rektor og Stefán B. Sigurðsson forseti læknadeildar.