Öll börn sem fæðast á Landspítala - háskólasjúkrahúsi (LSH) á næstu tveimur árum verða heyrnarmæld í fimmdagaskoðun nýbura á göngudeild Barnaspítala Hringsins. Þetta er samstarfsverkefni Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands (HTÍ) og LSH. Hjúkrunarfræðingar barnasviðs munu sjá um mælingarnar en HTÍ hefur séð um þjálfun starfsfólksins og leggur til tækjabúnað. Rúmlega 70% fæðinga á Íslandi eru á LSH. Til þessa hafa einungis börn sem talin eru í áhættuhópum verið heyrnarmæld, t.d. fyrirburar og börn með ættarsögu um heyrnarskerðingu eða heyrnarleysi, um 50 börn á ári. Á þessum tveimur árum verður hægt að meta kostnað, árangur og ávinning af heyrnarmælingunni og öðlast þekkingu sem gæti nýst til þess að ákveða hvort heyrnarmælingar skulu gerðar á öllum nýfæddum börnum á Íslandi.
Á Íslandi fæðast rúmlega 4.000 börn árlega og má áætla að um 10 þeirra séu heyrnarskert. Hjá HTÍ eru á skrá um 160 heyrnarskert eða heyrnarlaus börn. Greiningaraldur flestra barna er um 3,5 ár. Rannsóknir sýna að mikilvægt er að byrja að meðhöndla börn í síðasta lagi þegar þau eru sex mánaða til þess að þau eigi möguleika á að ná góðum tökum á máli, þrátt fyrir heyrnarskerðinguna.
Búnaðurinn sem hefur verið valinn til heyrnarmælinganna er frá GN Otometrics og er sami og notaður er í Danmörku, Bretlandi og í mörgum sveitarfélögum í Svíþjóð. Heyrnarmælingin sjálf tekur innan við 10 sekúndur á hvort eyra. Búnaðurinn er fyrirferðarlítill, einfaldur í notkun og tekur yfirleitt ekki nema nokkrar mínútur að læra á hann. Auðvelt er að tengja hann tölvu og senda upplýsingar rafrænt frá LSH til HTÍ.
Börnum sem einhverra hluta vegna næst ekki að mæla verður vísað á HTÍ þar sem hægt er að gera nákvæmari mælingar og meiri tækjabúnaður er til staðar. Í upphafi má gera ráð fyrir því að ekki takist að mæla um 2 til 4% barna. Það þarf þó ekki að vera vísbending um heyrnarskerðingu, barnið þarf að vera rólegt meðan á mælingunni stendur og umhverfishávaði má heldur ekki vera of mikill. Fósturfita í hlust getur einnig komið í veg fyrir mælingu. Þegar starfsfólk sem vinnur við mælingarnar hefur náð valdi á búnaðinum má ætla að einungis um 1% barna þurfi að vísa áfram til HTÍ vegna þess að mæling hefur ekki tekist.
Í Danmörku var farið af stað með tveggja ára verkefni í byrjun árs 2005 þar sem öll börn sem fæddust þar voru heyrnarmæld. Á Norður Jótlandi voru rúmlega 8000 börn heyrnarmæld eða 99,8% þeirra sem fæddust þar á tímabilinu. Af þeim voru 22 heyrnarskert. Fjöldi fæddra barna á Norður Jótlandi er svipaður og hér á landi. Danska þingið hefur nú samþykkt að framvegis verði öll börn í Danmörku heyrnarmæld á öðrum til fimmta degi frá fæðingu. Danmörk bætist þar með í hóp landa eins og Bretlands, Austurríkis, Póllands, Þýskalands og Svíþjóðar.
Samningur Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands og Landspítala - háskólasjúkrahúss um heyrnarskimun nýbura var undirritaður á Barnaspítala Hringsins miðvikudaginn 28. mars 2007. |