Aðalfundur Læknafélags Íslands 2007 samþykkti tvær ályktanir sem tengjast Landspítala. Í þeim er hvatt til þess að nýbyggingu Landspítala verði hraðað, kannaðir verði kostir fjölbreyttari rekstrarforma á spítalanum og áhrif yfirlækna í stjórnun lækninga verði aukin:
Ályktun 1
Aðalfundur Læknafélags Íslands haldinn í Kópavogi 28. - 29. september 2007 hvetur yfirvöld heilbrigðis- og menntamála til að hraða byggingaráföngum Landspítala og heilbrigðisvísindadeilda Háskóla Íslands svo bæta megi sem fyrst starfsemi spítalans og aðstöðu fyrir sjúklinga.
Ályktun 2
Aðalfundur Læknafélags Íslands haldinn í Kópavogi 28. - 29. september 2007 hvetur heilbrigðisyfirvöld til að kanna kosti fjölbreyttari rekstarforma á þeirri starfsemi sem fer fram á Landspítala.
Ályktun 3
Aðalfundur Læknafélags Íslands haldinn 28. - 29. september 2007 hvetur heilbrigðisráðherra til þess að auka áhrif yfirlækna í stjórnun lækninga á Landspítala og að tryggja að beitt sé málefnalegum sjónarmiðum við ráðningu yfirmanna lækninga á sjúkrahúsinu eins og lög kveða á um. Í núverandi skipulagi Landspítala hafa áhrif lögskipaðra yfirlækna sérgreina verið rýrð með óheimilli tilfærslu verkefna þeirra til annarra stjórnenda, sem valdir hafa verið með ógagnsæjum hætti. Umboðsmaður Alþingis hefur fjallað ítarlega um þennan vanda og í greinargerð með nýjum lögum um heilbrigðisþjónustu er tekið undir sjónarmið umboðsmanns og hnykkt á mikilvægi yfirlæknisábyrgðar. Afar mikilvægt er, að ákvörðunarvald yfirlækna sérgreina verði aukið með þeim hætti, að fjárhagsleg ábyrgð, ráðningarvald og lögbundin fagleg ábyrgð fari saman í rekstri sérgreina. Samþætting faglegrar og fjárhagslegrar ábyrgðar myndi bæta stjórnun og auðvelda ákvarðanir með aukinni dreifistýringu og minnkaðri yfirbyggingu stjórnkerfis. Þá er afar þýðingarmikið, að allir yfirmenn lækninga verði ráðnir með gagnsæjum hætti byggt á málefnalegum forsendum.