Starfshópur á vegum framkvæmdastjórnar LSH hefur skilað tillögu að breyttu fyrirkomulagi starfsmannamála á Landspítala.
Skýrslan er til umfjöllunar hjá framkvæmdastjórn.
Í starfshópnum voru Anna Lilja Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri skrifstofu fjárreiðna og upplýsinga, formaður, Erna Einarsdóttir sviðsstjóri skrifstofu starfsmannamála,
Lilja Stefánsdóttir sviðsstjóri hjúkrunar á skurðlækningasviði og Pálmi V. Jónsson sviðsstjóri lækninga á öldrunarsviði.
Með hópnum starfaði Dagrún Hálfdánardóttir lögfræðingur á skrifstofu starfamannamála.
Skýrslan er í heild hér en tillagan sjálf er birt hér neðan.
Tillaga starfshópsins
Lagt er til að skrifstofa starfsmannamála verði endurskipulögð og hlutverk hennar eflt. Lagt er til að skrifstofan verði stefnumótandi í mun meira mæli en verið hefur og að verkefni skrifstofunnar nái til allra meginþátta í starfsmannamálum. Starfshópurinn leggur til að við næstu endurskoðun stjórnskipulags spítalans verði stofnuð ný staða framkvæmdastjóra starfsmannamála sem komi í stað sviðsstjóra skrifstofu starfsmannamála og að framkvæmdastjórinn sitji í framkvæmdastjórn spítalans. Þangað til sú endurskoðun á sér stað verði breytingin undirbúin og sviðsstjóri skrifstofu starfsmannamála sitji alla fundi framkvæmdastjórnar og hafi þar málfrelsi og tillögurétt. Starfshópurinn telur æskilegt að endurskoðun stjórnskipulags spítalans með tilliti til framkvæmdastjórastöðu yfirmanns starfsmannamála fari fram hið fyrsta.
Með víðtækari þátttöku sviðsstjóra starfsmannamála í vinnu framkvæmdastjórnar er lagt til að starfsmannatengd málefni annarra framkvæmdastjóra verði endurskipulögð og færð að hluta til eða öllu leyti til skrifstofu starfsmannamála.
Með því að stjórnandi skrifstofu starfsmannamála fái sæti í framkvæmdastjórn spítalans telur starfshópurinn að forsendur séu fyrir því að launafulltrúar færist undir starfsmannaskrifstofuna og að yfirmaður þeirra komi þaðan. Samhliða þessari breytingu flytjist launabókhald SFU til skrifstofu starfsmannamála sem, ásamt launafulltrúum, myndi launadeild LSH. Jafnframt er lagt til að launaeftirlit verði sameinað SFU og að umsjón með starfsmannamöppum verði á skrifstofu starfsmannamála. Þá er lagt til að almenn greiningarvinna í launamálum verði á hag- og upplýsingasviði en ábyrgð á mati og endurgjöf á hendi KOL.
Lagt er til að skilgreindir verði sérstakir starfsmannaráðgjafar á sviðum spítalans sem verði tengiliðir milli skrifstofu starfsmannamála og sviðanna. Starfsmannaráðgjafarnir skulu hafa sérþekkingu á starfsmannamálum. Hlutverk þeirra er að samhæfa vinnubrögð í samræmi við verklagsreglur skrifstofu starfsmannamála. Verkefni starfsmannaráðgjafa eru m.a. umsjón með ráðningarferlinu, móttaka nýrra starfsmanna, aðstoð og ráðgjöf vegna Vinnustundar og önnur tilfallandi starfsmannatengd verkefni. Lagt er til að við flutning fjárheimilda til skrifstofu starfsmannamála vegna tilflutnings launafulltrúa verði skildir eftir á sviðunum þeir viðbótarfjármunir sem var bætt við á árinu 2005 (15 m.kr.) þegar fjárheimildir vegna launafulltrúa voru fluttar til sviða spítalans. Þessir fjármunir verði nýttir til að byggja upp störf starfsmannaráðgjafa og leggi sviðin til fjármuni á móti eftir þörfum hvers sviðs.
Lagt er til að starfsumhverfi launafulltrúa verði bætt eins og kostur er. Launafulltrúar verði allir staðsettir í sama húsnæði. Launafulltrúar beri ábyrgð á launavinnslu ákveðinna sviða og eigi nú sem fyrr gott samstarf við stjórnendur og starfsmenn þess. Samkomulag verði gert við hvert svið um viðtalstíma/viðveru launafulltrúa á sviðinu.
Starfshópurinn telur ráðlegt að á stækkaðri starfsmannaskrifstofu verði málaflokkum skipt í þá veru að launavinnsla verði aðskilin frá öðrum starfsmannamálum. Þá verði þau verkefni sem deild kjaramála hefur haft með höndum aðskilin frá öðrum verkefnum, sem og þau verkefni sem tengjast starfsumhverfi og starfsþróun.
Lagt er til að ábyrgð handhafa ráðningarvalds verði óbreytt. Hins vegar verði framsali ráðningarvalds breytt á þann veg að texti erindisbréfs handhafa ráðningarvalds verði skýrari og feli í sér skýra skyldu þeirra að leita leiðsagnar skrifstofu starfsmannamála áður en launasetning er gerð ef minnsti vafi leikur á hvernig launasetning skuli framkvæmd.
Lagt er til að erindisbréf kjara- og launanefndar verði endurskoðað í þá veru að skerpa á hlutverki nefndarinnar sem ákvörðunar- og eftirlitsaðila í kjara- og launamálum LSH.