Fyrirtækið Cintamani færði greiningarsveit slysa- og bráðasviðs að gjöf átta galla á bráðadeginum sem var haldinn 7. mars 2008. Þetta er alfatnaður, þ.e. ullarflíkur hið innra, jakkar, buxur og utanyfirgallar. Greiningarsveitin er ávallt viðbúin og hefur á að skipa vel menntuðu og þjálfuðu fólki til þess að sinna útköllum sem verða vegna hópslysa. Hún fer hvert á land sem er, jafnvel út fyrir landsteinana ef eftir því er leitað. Greiningarsveit LSH þarf að hafa til umráða besta útbúnað sem völ er á hverju sinni því eðli málsins samkvæmt geta aðstæður verið mjög misjafnar á slysstað. Fatnaður sveitarinnar var úr sér genginn og mikil þörf á endurnýjun. Höfðingleg gjöf Cintamani kom sér því ákaflega vel. Henni var vel fagnað á bráðadeginum og gefendum færðar þakkir fyrir. Næstu tvö verkefni greiningarsveitar LSH sem vitað er um eru annars vegar þátttaka í æfingu með Landhelgisgæslunni og Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu og hins vegar æfing sem haldin verður í Vestmannaeyjum í apríl. Bráðadagurinn 7. mars tókst í alla staði mjög vel. Fjölmörg athyglisverð erindi voru flutt. Þau eru í Vefvarpi LSH - smellið hér. |
|
Leit
Loka