Nefnd um byggingu nýs háskólasjúkrahúss vinnur nú að undirbúningi að hönnunarsamkeppni og stendur fyrir könnun meðal starfsmanna Landspítala í því sambandi. Mikilvægur þáttur verkefnisins snýr að samgöngum, aðkomu og aðgengi að nýja sjúkrahúsinu og þörf fyrir bíla- og hjólastæði.
Nefndin leggur áherslu á að fá fram sjónarmið starfsmanna er varða þessa framtíðaruppbyggingu. Því var ákveðið að gera rannsókn á samgönguvenjum starfsmanna LSH. Markmið rannsóknarinnar er að kanna viðhorf og afstöðu starfsmanna LSH til þátta er varða nýja háskólasjúkrahúsið. Enn fremur er markmiðið að skilja og útskýra hvaða þættir hafa helst áhrif á þessi viðhorf.
Allir starfsmenn sem hafa netföng fá könnunina senda í tölvupóstu á næstu dögum, þeir starfsmenn sem ekki hafa netföng geta nálgast könnunina á eftirfarandi stöðum:
Mánudagur 2. júní
Fossvogur og Hringbraut, kl. 14:00 - 16:00 í matsal
Landakot, Kleppur og Tunguháls, kl. 8:00 - 16:00 hjá yfirmönnum á deildum
Þriðjudagur 3. júní
Fossvogur og Hringbraut , kl. 14:00 - 16:00 í matsal
Landakot, Kleppur og Tunguháls, kl. 8:00 - 16:00 hjá yfirmönnum á deildum
Þess er vænst að starfsmenn taki þessari mikilvægu könnun vel og leggi sitt af mörkum til að móta starfsumhverfi nýs háskólasjúkrahúss með þátttöku í henni.
Helstu niðurstöður könnunarinnar verða birtar á upplýsingavef verkefnisins, www.haskolasjukrahus.is
Auglýsing um könnunina á íslensku, pólsku og ensku