Skurðstofum kvennadeilda Landspítala hefur borist vegleg tækjagjöf frá Tilveru, samtökum um ófrjósemi. Um er að ræða speglunartæki til rannsóknar á grindarholslíffærum (eggjaleiðurum, eggjastokkum og legi) kvenna. Tækin eru sérhönnuð til að nota í staðdeyfingu og þar sem ekki þarf fulla svæfingu veldur aðgerðin þar með mun minni óþægindum fyrir konuna sem getur farið heim nánast strax að aðgerð lokinni. Tækin eru fyrst og fremst notuð þegar þarf að kanna ástand eggjaleiðara hjá konum sem eiga í erfiðleikum með að verða þungaðar og einnig er hægt að gera minni háttar aðgerðir með þeim og taka sýni.
Aðgerðartækni þessi, sem kallast á ensku “Transvaginal endoscopy”, er mikið notuð í nágrannalöndum okkar og getur sparað mörgum konum óþægindi og fyrirhöfn sem fylgir hefðbundnum aðgerðum með djúpri svæfingu.
Á myndinni eru fulltrúar Tilveru, Alma Birna Bragadóttir, Arndís Berndsen, Katrín Björk Baldvinsdóttir með tveimur fulltrúum ungu kynslóðarinnar sem afhentu gjöfina. Ólöf G. Björnsdóttir deildarstjóri, Jens A. Guðmundsson yfirlæknir, Kristín Jónsdóttir sérfræðingur, Helga Kristín Einarsdóttir sviðsstjóri og annað starfsfólk deildarinnar tóku á móti fyrir hönd skurðstofa kvennadeilda.