Landspítali (LSH) og Lýðheilsustöð (LHS) hafa gengið til samstarfs um að vinna gegn tóbaksnotkun sjúklinga með skipulagðri fræðslu fyrir þá, viðeigandi meðferð og með gerð fræðsluefnis fyrir starfsfólk á sjúkrahúsinu.
Markmiðið er að þeir sem leita til Landspítala eftir þjónustu fái viðeigandi meðferð sem styður þá til tóbaksleysis meðan legið er inni. Heilbrigðisstarfsfólk hafi skýrar og aðgengilegar leiðbeiningar um meðferðaráætlanir gegn tóbaksnotkun og ljóst sé hvar fólk fær meðferð eftir útskrift af sjúkrahúsinu.
Í samningnum er kveðið á um samstarf milli Landspítala og Lýðheilsustöðvar um stefnumótun er varðar tóbaksnotkun sjúklinga á spítalanum. Fulltrúar hans, Dóra Lúðvíksdóttir læknir og Rakel Valdimarsdóttir hjúkrunarfræðingur, munu starfa með Lýðheilsustöð að skipulagi og uppsetningu fræðslu og fræðsluefnis fyrir starfsfólk og sjúklinga um aðferðir og stuðning til að sigrast á tóbaksnotkun. Þeir verða einnig í starfshópi á vegum Lýðheilsustöðvar sem ætlað er að vinna með Landspítala, Landlæknisembættinu og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að heildarstefnumótun og samræmingu verkferla og fræðsluaðferða til að draga úr notkun tóbaks á Íslandi.
Samningurinn er gerður til þriggja ára. Eftir þann tíma er gert ráð fyrir að komið verði virkt ferli innan Landspítala sem tryggi að meðferð við tóbaksnotkun sé fastur liður í allri meðferðaráætlun hjá þeim sem þess þurfa.
Samningurinn er gerður til þriggja ára. Eftir þann tíma er gert ráð fyrir að komið verði virkt ferli innan Landspítala sem tryggi að meðferð við tóbaksnotkun sé fastur liður í allri meðferðaráætlun hjá þeim sem þess þurfa.