Nýlega gerði kennslu- og fræðasvið Landspítala könnun á ánægju læknakandídata með reynslu sína af kandídatsárinu árið 2007 - 2008. Könnunin var send til 36 kandídata og var svarhlutfall 100%.
Niðurstöður sýndu almenna ánægju með kandídatsárið en 94% kandídatanna voru annað hvort frekar ánægðir eða mjög ánægðir með árið. Hæfir og áhugasamir sérfræðingar og tækifæri til að takast á við flókin og fjölbreytt vandamál voru meginástæðurnar fyrir ánægju kandídatanna á einstökum deildum. Óánægja var helst rakin til tímaleysis og manneklu.
Kandídatar mátu reynslu sína á kandídatsárinu með því að svara fullyrðingum sem yfirfærðar voru á einkunnaskalann frá 1 – 5. Fullyrðingarnar “ég er öruggari við meðhöndlun sjúklinga” og “klínísk kunnátta mín jókst mikið” fengu til dæmis einkunnirnar 4,6 og 4,5 og fullyrðingar varðandi gott samstarf við sérfræðinga og hjúkrunarfræðinga einkunnina 4,3.
Í könnuninni voru nemarnir beðnir um að koma með tillögur til úrbóta. Flestar þeirra lutu að því að minnka vinnuálagið og tryggja kandídötum meiri tíma og stuðning.
Skrifstofa kennslu, vísinda og þróunar segir í tilkynningu að það sé jákvætt að vita til þess að læknakandídatar séu almennt ánægðir með dvöl sína á Landspítala og með þá klínísku reynslu sem þeir öðlast. Um leið sé mikilvægt að fara vel yfir athugasemdir kandídatanna og bæta það sem betur megi fara. Skrifstofan vinnur að því að stuðla að árangursríku námsumhverfi og eru kannanir sem þessar liður í því.
Könnun á ánægju læknakandídata 2007 - 2008