Heiðursverðlaunin voru afhent við formlega útskriftarathöfn af Leon Chameides sérfræðingi í hjartasjúkdómum barna við barnadeild Hartford sjúkrahússins við Háskólann í Connecticut í Bandaríkjunum. Verðlaunin eru til marks um ötult starf í þágu menntunar og þjálfunar barnalækna.
Hörður hefur staðið fyrir því að 28 íslenskir læknar hafa fengið námsstöður við Hartford háskólasjúkrahúsið. Barnadeildin þar hefur um langt árabil verið einn af hornsteinum framhaldsmenntunar íslenskra barnalækna. Það hefur löngum verið Herði sérstakt metnaðarmál að viðhalda þessum tengslum og halda þessari leið opinni fyrir íslenska barnalækna. Það hefur hann m.a. gert með því að vera sjálfur í virkum tengslum við spítalann. Persónuleg tengsl og frammistaða þeirra sem veljast til sérnáms á hverjum stað skipta mestu um að halda opnum möguleikum íslenskra lækna til að komast í sérnám á bestu stöðum erlendis. Síðastliðin 20 ár hefur Edwin L. Zalneraitis, kennslustjóri og yfirlæknir, verið aðaltengiliður Harðar við deildina.
Framlag Harðar á þeim vettvangi er þannig ómetanlegt fyrir Landspítala og raunar íslenska heilbrigðisþjónustu yfirleitt. Landspítali og háskólasamfélagið fagnar því þessari verðskulduðu viðurkenningu til Harðar Bergsteinssonar.