Inga Sigurrós Þráinsdóttir hjartalæknir, Ingvar Hákon Ólafsson heila- og taugaskurðlæknir og Tryggvi Egilsson öldrunarlæknir hlutu kennsluverðlaun kandídata fyrir árið 2008 sem voru afhent í Blásölum í Fossvogi fimmtudaginn 4. desember. Verðlaunin fá þau fyrir framúrskarandi klíníska kennslu í daglegu starfi á deildum og vöktum.
Þetta er í annað sinn sem þessi viðurkenning er veitt. Tilnefningum var safnað í viðtölum við kandídata sem tekin voru af sviðsstjórum á skrifstofu kennslu vísinda og þróunar (SKVÞ).
Aðrir sérfræðingar sem hlutu þrjár eða fleiri tilnefningar til kennsluverðlauna kandídata voru Bryndís Sigurðardóttir smitsjúkdómalæknir, Eiríkur Jónsson þvagfæraskurðlæknir, Jón Eyjólfur Jónsson öldrunarlæknir, Ólafur Guðlaugsson smitsjúkdómalæknir og Þorbjörn Guðjónsson hjartalæknir. Þorbjörn hlaut kennsluverðlaun kandídata árið 2007.Við afhendingu verðlaunanna lék ungur gítarleikari, Snorri Hallgrímsson, spænska svítu til að lyfta andanum og Páll Matthíasson geðlæknir hélt fyrirlestur um hamingjuna og svaraði fjölda spurninga um efnið. Auk andlegrar næringar var boðið upp á heitt súkkulaði og ömmubakkelsi.