Útför Margrétar Oddsdóttur skurðlæknis á Landspítala fer fram frá Grafarvogskirkju í Reykjavík föstudaginn 16. janúar 2009 og hefst kl. 13:00. Hún lést á heimili sínu 9. janúar. Dregið verður úr starfsemi á skurðlækningasviði eftir hádegi þann dag eins og kostur er til þess að gera fólki kleift að vera við útförina.
Margrét fæddist 3. október 1955. Foreldrar hennar eru Oddur Pétursson bæjarverkstjóri á Ísafirði og Magdalena M. Sigurðardóttir húsmóðir og gjaldkeri Menntaskólans á Ísafirði.
Margrét lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum Ísafirði 1975 og embættisprófi frá læknadeild Háskóla Íslands 1982. Hún stundaði sérfræðinám í skurðlækningum við Yale University School of Medicine frá júní 1985 til 1992 og sérfræðinám í kviðsjáraðgerðum við Emory University School of Medicine í Atlanta í Georgíu frá 1992 til 1994.
Margrét starfaði sem sérfræðilæknir á Landspítala frá júlí 1994 til dauðadags. Hún var ráðin yfirlæknir í almennum skurðlækningum í febrúar 2002, skipuð dósent í almennum skurðlækningum við læknadeild HÍ 1995 og prófessor frá 2002. Margrét gegndi margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir Landspítala, Háskólann og læknadeild og sat í stjórn læknadeildar þar til hún lést. Hún var brautryðjandi á sviði kviðsjáraðgerða fyrst í Bandaríkjunum og síðar hér á landi, mikilvirk í kennslu og fræðistörfum og eftir hana liggur fjöldi vísindagreina í alþjóðlegum læknatímaritum. Einnig skrifaði hún bókakafla í kennslubækur í skurðlækningum. Margrét var eftirsóttur fyrirlesari jafnt hérlendis sem erlendis og sat í ýmsum alþjóðlegum nefndum á sviði skurðlækninga bæði austan hafs sem vestan.
Margrét Oddsdóttir giftist árið 1985 Jóni Ásgeiri Sigurðssyni blaða- og fréttamanni en hann lést árið 2007. Synir þeirra eru Oddur Björn nemi, (f. 1991), Sigurður Árni (f. 1993) og Ragnar Már (f. 1993, d. 1993). Stjúpbörn Margrétar eru Sigríður Jónsdóttir viðskiptafræðingur og Þorgrímur Darri Jónsson viðskiptafræðingur.