Þessi hópur hefur æft vinnubrögðin á sýndarsjúklingum í færnibúðum (skills lab). Þar eru meðal annars tölvustýrðar eftirlíkingar af manni eða konu sem getur líkt eftir hjartastoppi og þeim líkamlegu viðbrögðum sem fylgir endurlífgunarferlinu. Þarna gefst tækifæri að læra af mistökum, skilgreina vinnuferli og þjálfa viðbrögð á öruggan hátt.
Kennslu- og fræðasvið á skrifstofu kennslu, vísinda og þróunar á Landspítala tók formlega í notkun 160 fermetra húsnæði til kennslu- og fundarhalda mánudaginn 23. febrúar 2009 í vesturálmu skrifstofubyggingarinnar á Landspítala Kópavogi. Í húsnæðinu eru meðal annars færnibúðir þar sem aðstaða verður til verklegrar kennslu í endurlífgun. Þar er mögulegt að setja upp stöðvar með sýndarsjúklingum og hermilíkönum.
Aðstaða til verklegrar kennslu í endurlífgun hefur ekki átt sér fastan samastað þar til nú. Hún er mikilvæg fyrir þjálfun starfsfólks Landspítala og öryggi sjúklinga. Fyrirhugað er að efla aðstöðuna og koma upp frekari búnaði til verklegrar kennslu.
Meginhlutverk skrifstofu kennslu, vísinda og þróunar er að efla háskóla- og vísindastarf á Landspítala. Meðal annars er leitast við að skapa sem bestar aðstæður til kennslu, náms og fræðilegra starfa á spítalanum og er nýja húsnæðið í Kópavogi kærkomin viðbót til þess.
Við formlegu opnunina í Kópavogi var sett á svið endurlífgun og líkt eftir því hvernig brugðist er við hjartastoppi á Landspítala. "Sjúklingurinn" lifði af!